Þröstur Eysteinsson
Þröstur Eysteinsson
Sjónarmið dr. Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, beitarvistfræðings og prófessors, um skógrækt og loftslagsmál hafa áður komið fram og verið svarað, að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra. Hann vitnaði í grein frá 8.

Sjónarmið dr. Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, beitarvistfræðings og prófessors, um skógrækt og loftslagsmál hafa áður komið fram og verið svarað, að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra. Hann vitnaði í grein frá 8. mars 2018 sem finna má á vefnum skogur.is .

Þar kemur m.a. fram að nytjaskógur hafi mun meiri jákvæð loftslagsáhrif en friðaður skógur. Stöðug binding kolefnis sé í sjálfbærum nytjaskógi. Kolefni binst í nýjum viði og ef nytjaviðurinn er nýttur í stað ósjálfbærra jarðefna úr olíu og kolum dregur úr nettólosun.

Einnig er fjallað um skóga á norðurslóðum og inngeislun sólar með tilliti til áhrifa á hlýnun loftslags. Skógræktin bendir á að flestar rannsóknir á inngeislun byggi á notkun hermilíkana. Dregið er í efa að hægt sé að yfirfæra forsendur líkananna beint á íslenskar aðstæður. Snjóhula sé t.d. mest í Reykjavík í febrúar og í janúar á Akureyri þegar inngeislun sólar er mjög lítil.

Endurskin sandauðna, uppgrædds lands, náttúrulegra birkiskóga og gróðursettra barrskóga var mælt í Þjórsárdal 2012-2017. Frumniðurstöður bentu til að svartar sandauðnir hefðu sennilega „verstu“ áhrifin á hlýnun jarðar. Á öllum hinum svæðunum fór fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum. Fullyrða megi að skógrækt sé góð leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.

Anna sagði að sitkagreni væri á svörtum lista í Noregi og að það og alaskaösp væru ágengar tegundir.

„Það er rangfærsla að þetta séu ágengar tegundir og við höfnum því alfarið,“ sagði Þröstur. „Ágeng tegund er skilgreind í náttúruverndarlögum sem tegund sem er líkleg til að valda rýrnun á líffræðilegri fjölbreytni. Sitkagreni hefur hvergi gert það svo vitað sé og alaskaösp því síður.“ Hann sagði að Norðmenn hefðu sett sitkagreni á svartan lista vegna þess að það væri útlent. „Að flokka lífverur fyrst og fremst út frá uppruna þeirra en ekki út frá vistfræðilegri hegðun, gagni eða skaða er afskaplega vitlaus flokkun.“ gudni@mbl.is