Undirbúningur Ástþór ásamt Önnu Eyjólfs, formanni SÍM, en listamessan er hennar þrekvirki að stórum hluta.
Undirbúningur Ástþór ásamt Önnu Eyjólfs, formanni SÍM, en listamessan er hennar þrekvirki að stórum hluta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Þetta verða milliliðalaus samskipti, listamennirnir verða á staðnum og sýna verk sín og gestir geta spjallað við þá og kynnst þeim og list þeirra.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta verða milliliðalaus samskipti, listamennirnir verða á staðnum og sýna verk sín og gestir geta spjallað við þá og kynnst þeim og list þeirra. Þannig geta gestir átt í beinum samskiptum við listamenn og keypt af þeim verk ef þeir vilja. Það eru oft ekki mörg tækifæri til að hitta listamenn, jafnvel þó að þeir sýni verkin sín oft. Þetta verður afslappað, svolítið eins og menningarnótt, markmiðið er að hafa umhverfið sem notalegast og að öllum líði vel,“ segir Ástþór Helgason, kynningarstjóri listamessunnar TORG, sem haldin verður á Hlöðuloftinu og í Ráðsmannsportinu á Korpúlfsstöðum nú um helgina.

„Við verðum með um sjötíu bása en listamennirnir verða vel yfir hundrað, því suma básana hafa félög listamanna leigt og þá geta verið margir listamenn þar innan. Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM, stendur fyrir messunni sem er stærsta listamessan hér á landi og leggur undir sig nær alla Korpúlfsstaði, “ segir Ástþór og bætir við að mikil breidd sé í þeim listamönnum sem verða á messunni, margir stílar í listinni og ólíkir frumkraftar. Hann segir að sumpart séu sömu listamenn að sýna og í fyrra en að einnig hafi nýir bæst í hópinn, en auðvitað sé um ný verk að ræða.

Kýrnar í Ráðsmannsportinu

„Messan er aðgengilegur vettvangur fyrir marga, bæði listunnendur og þá sem vilja kynnast list og listamönnum. Þetta eykur breiddina í hópi fólks sem nýtur listar.

Að koma á messuna getur verið hentugur helgarrúntur, tækifæri til að sjá fjölbreytta flóru listamanna á einum stað. Þetta er því annar vettvangur og alþýðlegri. Aðsóknin var mikil í fyrra þegar messan var haldin í fyrsta sinn, en þá komu á Korpúlfsstaði mörg þúsund manns. Hverjum listamanni fylgir líka margt fólk úr hópi vina og fjölskyldu sem mæta á svæðið. Auk þess dregur húsið sjálft að, það er virkilega gaman að koma inn á Korpúlfsstaði, þetta sögufræga hús, ég fékk gæsahúð þegar ég kom hingað fyrst. Þetta er ótrúlegt hús. Núna verður opið í fleiri rýmum en í fyrra, við sýnum líka niðri í Ráðsmannsporti í ár sem er skemmtilegt svæði sem er opið út í portið, en þar var kúnum líklega hleypt út í gamla daga.“

Torg-Listamessa verður opnuð í dag, föstudag, kl. 18-20. Opið á morgun, laugardag, kl. 12-20 og á sunnudag kl. 12-19. Nánar á Facebook undir Torg listamessa í Reykjavík.