Leynir Hjólhýsi hafa verið í útleigu á svæðinu og notið vinsælda.
Leynir Hjólhýsi hafa verið í útleigu á svæðinu og notið vinsælda.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Byggingarfulltrúi Rangárþings ytra hefur krafist þess að eigandi jarðanna Leynis 2 og 3, þar sem mikil uppbygging í ferðaþjónustu er fyrirhuguð, rjúfi tengingar hjólhýsa sem hann er með í útleigu við rotþróarkerfi á staðnum. Eins og kom fram í Morgunblaðinu fyrr í vikunni krafðist landeigandi í Landsveit skýringa á því á hvaða leyfum starfsemin byggðist og að vatns- og fráveitulagnir yrðu fjarlægðar af tjaldsvæði svo tryggt væri að vatnsból röskuðust ekki. Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi þegar farið fram á það við Loo Eng Wah landeigenda að tenging umræddra hjólhýsa við rotþró verði rofin.

„Hann hefur enga heimild til að tengja hjólhýsin við fráveitukerfið,“ segir Haraldur Birgir. Hann segir jafnframt að það sé ekki á forræði sveitarfélagsins að gefa út rekstrarleyfi fyrir umrædd hjólhýsi. Það geri Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Rangárþing ytra hafi hins vegar gefið út tímabundið stöðuleyfi, byggingarleyfi sé svo háð deiliskipulagi en vinna við það stendur yfir. Lýsing skipulagsáforma hefur verið gefin út eins og Morgunblaðið hefur greint frá og frestur til athugasemda rann út í vikunni.

Í svarbréfi Haraldar Birgis við bréfi landeigandans segir: „Tengingar umræddra hjólhýsa við rotþróarkerfi eru ekki heimilaðar og byggðist ákvörðun sveitarstjórnar á veitingu stöðuleyfis á þeim skilyrðum sem fram komu í umsókn landeigenda, þar sem það var fullyrt að þau yrðu ekki tengd vatnsveitu- eða fráveitukerfi.“

Samkvæmt þessu hefur landeigandinn Loo Eng Wah ekki hagað framkvæmdum í samræmi við umsókn sína. Segir Haraldur Birgir að auk þess að rjúfa tengingar við fráveitukerfi hafi landeigandinn verið krafinn um að ganga frá lagnaendum á viðurkenndan hátt. Aðspurður segir byggingarfulltrúinn að hann viti ekki betur en Loo Eng Wah hafi orðið við umræddum kröfum.