Aldís Hafsteinsdóttir
Aldís Hafsteinsdóttir
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Þremur sveitarfélögum, Súðavíkurhreppi, Reykhólahreppi og Tjörneshreppi, hefur verið vísað úr samráði sveitarfélaganna í kjaraviðræðum vegna brota á ákvæðum samnings Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Þremur sveitarfélögum, Súðavíkurhreppi, Reykhólahreppi og Tjörneshreppi, hefur verið vísað úr samráði sveitarfélaganna í kjaraviðræðum vegna brota á ákvæðum samnings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta staðfestir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, í samtali við Morgunblaðið en hún flutti setningarræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem var hófst í gær. Er ráðstefnan stærsti viðburður sveitarstjórnarstigsins á hverju ári og sækja hana um 500 manns.

„Sveitarfélög á Íslandi, utan Reykjavíkurborgar, gáfu sambandinu fullnaðarumboð til að vinna að kjarasamningum og í raun semja fyrir hönd sveitarfélaganna. Því fylgdu þau skilyrði, sem allir skrifuðu undir, að þar með myndu sveitarfélögin ekki hafa áhrif á eða skipta sér af kjarasamningsgerð. Þessi þrjú sveitarfélög gerðu það því miður núna og þar af leiðandi var stjórn sambandsins nauðugur kostur að virkja þetta ákvæði sem er í samningunum, sem sveitarfélögin undirrituðu sjálf, að ef að þessi staða myndi koma upp þá væri það augljóst að viðkomandi sveitarfélög hefðu ekki lengur áhuga á að vera í samstarfi hvað varðaði kjaraviðræður,“ sagði Aldís.

Segist hún þó hafa fulla trú á því að farsælli lausn verði náð í kjarasamningum þrátt fyrir þá óvissu sem ríki um þá.

Segir hún að helstu málefni sveitarfélaganna, fjárhagslegt umhverfi sveitarfélaganna, fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og tekjuskipting þeirra ásamt þingsályktunartillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um framtíðarsýn sveitarfélaga hafa verið með því helsta sem fjallað var um á fjármálaráðstefnunni. Segir hún að ekki megi gleyma að tillagan snúist ekki aðeins um sameiningu sveitarfélaga.

Óánægja með urðunarskatt

„Þetta er aðgerðarbundin áætlun. Þarna eru 11 aðgerðir sem lúta að því að efla sveitarfélögin í landinu og sameiningin er bara eitt af þeim verkefnum sem sett eru fram,“ segir Aldís.

Hún segir einnig að mikil og heit umræða hafi verið um hinn boðaða urðunarskatt umhverfisráðherra á ráðstefnunni en hún segir mikla óánægju ríkja meðal sveitarstjórnarmanna um málið.

„Þetta er í rauninni einhliða ákvörðun án samráðs til sveitarfélaga sem þó sinna þessum málaflokki frá a til ö. Þannig að okkur finnst það afar sérkennilegt að setja þetta fram með þessum hætti án þess að tala við okkur og hafa samráð um það með hvaða hætti við getum í sameiningu unnið að því markmiði að minnka úrgang sem fer til urðunar í staðinn fyrir að setja bara strípaðan nefskatt á alla íbúa,“ segir Aldís.