Ánægður Hugues Fabrice Zango fagnar verðlaunum sínum á HM í Doha.
Ánægður Hugues Fabrice Zango fagnar verðlaunum sínum á HM í Doha. — AFP
Frjálsar Kristján Jónsson kris@mbl.is Afríkuríkið Búrkína Fasó fékk sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum þegar Hugues Fabrice Zango vann til bronsverðlauna í þrístökki á HM í Katar.

Frjálsar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Afríkuríkið Búrkína Fasó fékk sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum þegar Hugues Fabrice Zango vann til bronsverðlauna í þrístökki á HM í Katar. Búrkína Fasó státar ekki af mörgum íþróttaafrekum og verðlaun á stórmóti sem þessu eru ánægjuleg tíðindi fyrir þjóðina.

Búrkína Fasó hefur hvorki unnið til verðlauna á Ólympíuleikum né Paralympics (Ólympíumót fatlaðra). Ekki hafa íþróttamenn frá Búrkína Fasó heldur unnið til verðlauna á Vetrarólympíuleikum eða Winter Paralympics en þar sem um Afríkuþjóð er að ræða þarf það ekki að koma sérstaklega á óvart.

Búrkína Fasó er ekkert smáríki, hvort sem horft er til íbúafjölda eða flatarmáls. Þar búa rúmlega 20 milljónir manna og er landið meira en helmingi stærra en Ísland eða um 274 þúsund ferkílómetrar. Landið er í vesturhluta álfunnar og á landamæri að Malí, Níger, Benín, Tógó, Gana og Fílabeinsströndinni.

Á meðal helstu íþróttaafreka Búrkína Fasó er að karlalandslið þjóðarinnar komst í úrslitaleik Afríkukeppninnar árið 2013 og tapaði þar fyrir Nígeríu 0:1. Þá hefur karlalandsliðið í körfuknattleik einu sinni komist í lokakeppni Afríkukeppninnar og var það einnig 2013.

Zango er 26 ára gamall og einn þriggja íþróttamanna sem keppa fyrir hönd Búrkína Fasó á HM í Katar. Zango nam við háskóla í Frakklandi og æfði því í Frakklandi um skeið. Búrkína Fasó fékk sjálfstæði árið 1960 en var undir Frökkum þar á undan.

Zango keppti á Ólympíuleikunum í Ríó en komst ekki í úrslit. Þar stökk hann lengst 15,99 metra og hafnaði í 34. sæti. Frammistaðan var þó öllu betri en á HM árið á undan því þar gerði Zango ógilt í öllum sínum tilraunum.

Zango hefur hins vegar bætt sig mikið og varð Afríkumeistari árið 2018. Jafnframt hafnaði hann þá í sjötta sæti á HM innanhúss. Á HM í Katar stökk hann miklu lengra en í Ríó 2016. Nú stökk hann 17,66 metra og setti Afríkumet. Væntingarnar til hans voru nokkrar því hann fór með næstlengsta stökkið inn í úrslitin eftir undankeppnina.

Útkoman varð nokkuð dramatísk hjá Zango því hann náði bronsinu í sjöttu og síðustu tilraun. Bætti sig þá um 10 cm því hann hafði stokkið 17,56 metra í fimmtu tilraun. Hann fór naumlega fram úr Portúgalanum Pedro Pablo Pichardo sem hafði stokkið 17,62 metra í fjórðu tilraun og sat eftir með sárt ennið.