Tjaldur með unga Þurrkar á Suðurlandi ollu lélegum varpárangri.
Tjaldur með unga Þurrkar á Suðurlandi ollu lélegum varpárangri. — Morgunblaðið/Ómar
Varp misfórst hjá tjöldum sem urpu inn til landsins á Suðurlandi í sumar og varpárangur jaðrakana og spóa var lélegur miðað við fyrri ár. Miklum þurrkum er kennt um.

Varp misfórst hjá tjöldum sem urpu inn til landsins á Suðurlandi í sumar og varpárangur jaðrakana og spóa var lélegur miðað við fyrri ár. Miklum þurrkum er kennt um.

„Tjaldurinn virðist hafa orðið sérstaklega illa úti því hann er svo háður ánamöðkum,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann segir að þegar er jafn þurrt og var í sumar dýpki ánamaðkarnir á sér og jarðvegurinn verði harður. Tjöldum sem urpu við sjávarsíðuna og leituðu fæðu í fjörum vegnaði vel.

Á Facebook-síðu rannsóknasetursins er skrifað um varpárangur vaðfugla á Suðurlandi 2019. Þetta var versti varpárangur tjalds frá árinu 2012. Varpárangur spóa var sá næstversti frá 2013 og jaðrakan var nálægt meðaltali, en byrjað var að meta varpárangur hans árið 2011.

„Tjaldurinn er eini vaðfuglinn, fyrir utan hrossagauk, sem gefur ungunum,“ segir Tómas. Ungar annarra vaðfugla ná sér í flugur, lirfur og aðrar pöddur. Tjaldurinn hins vegar matar unga sína á ánamöðkum. Ef ekki finnast maðkar drepast ungarnir fljótt úr hungri.

Fuglar með unga eru taldir tvisvar á sumri á tæplega 200 km löngu sniði sem ekið er um í Rangárvallasýslu. Tómas sagði að fundist hefðu mest um 40 tjaldafjölskyldur með unga, en að jafnaði um 20. Nú sáust aðeins fjórar. Í fyrra var varpárangur einnig lélegur hjá þessum þremur fuglategundum. Þá var miklum rigningum um að kenna sem ollu því að ungar króknuðu í kulda og vosbúð. gudni@mbl.is