Gunnlaugur Úlfar Gunnlaugsson fæddist 5. apríl 1958. Hann lést 22. september 2019.

Útför Gunnlaugs Úlfars fór fram frá Grindavíkurkirkju 2. október 2019. Hann verður jarðsettur í Vestmannaeyjum í dag, 4. október 2019, klukkan 14.

Þú varst kannski ekki fæddur Vestmannaeyingur, elsku vinur, en meiri Eyjamann en þig var erfitt að finna. Þú nýttir hvert einasta mögulega og ómögulega tækifæri til að hendast í Herjólf og skreppa yfir á eyjuna þína. Mættir galvaskur til að vinna í húsinu á Illugagötunni, eða til að kíkja á börnin þín eða jafnvel á einn fótboltaleik. Ekki var nú verra þegar þú kíktir yfir á okkur vinina í smá matarveislu, með pínu rauðu með sem endaði nú yfirleitt með einum góðum Irish!

Og alltaf var stefnan á að flytja aftur til Eyja, þar sem þú áttir fjöldann allan af vinum og varst duglegur að rækta þau vinasambönd með henni Stínu þinni. En þegar kom að hátíð hátíðanna, Þjóðhátíð, þá var sko ekki um neinn skreppitúr að ræða. Þú varst mættur mörgum dögum áður til að græja tjaldið ykkar, sem var líklega eitt það flottasta í dalnum. Ekki varst þú nú par hrifinn af því að vera í miðri lyfjagjöf á Þjóðhátíðinni í sumar.

Reyndir meira að segja að færa hana til, en að sjálfsögðu varstu mættur á réttum tíma í dalinn þar sem hann Þorfinnur þinn var búinn að smala í heilt herlið frá Grindavík til að tjalda höllinni ykkar í Herjólfsdal.

Við vinirnir í Undir áhrifum, samt ekki alltaf undir áhrifum, sko, höfum brallað ýmislegt saman í gegnum árin. Ekki var nú leiðinlegt á Sálartónleikunum í Köben, kokkteilnámskeiðinu í Amsterdam eða þegar við borðuðum í Eiffel-turninum í París. Ekki varstu nú par hrifinn af því hversu óreglulegar þessar ferðir urðu 2007-2008 þar sem töluvert var um barneignir og þér fannst nú nóg um þegar fjórði drengurinn fæddist 2009!

Þú hafðir einstakt lag á að orða hlutina, elsku vinur. Eftirminnilegasti frasinn þinn og okkur efst í huga verður væntanlega þinn frægi frasi: „Það má alltaf gera betur.“ Þetta á nú oftast bara við um okkur öll í okkar daglega lífi, það má alltaf gera betur, en hins vegar held ég að þú hefðir ekki getað gert betur með fjölskylduna þína því að hún er einstök.

Hún dásamlega Stína þín, Eva, Þorfinnur, Gunný og Sunna eru búin að vera alveg ótrúlega dugleg og hafa staðið þétt saman á þessum erfiðu tímum.

Þú mátt svo sannarlega vera stoltur af þeim öllum því þau eru öll frábær, enda áttu þau yndislegan pabba sem var kletturinn í lífi þeirra og þú gerðir allt sem þú gast fyrir þau. Og ekki má gleyma litlu gullmolunum þínum Ágústu, Val, Mikael Mána og Matthildi litlu.

Elsku Úlli okkar, þú ert kannski farinn en þú lifir áfram í hjörtum okkar sem elskuðum þig. Þér tókst ekki að flytja aftur heim á eyjuna fögru og þú fæddist ekki Vestmannaeyingur en þú verður jarðaður sem slíkur í kirkjugarðinum í Vestmannaeyjum.

Þangað til næst elsku vinur, skál fyrir þér.

Ástarkveðjur frá eyjunni fögru.

Þínir vinir,

Birgir og Ólöf.