Bestur Kristinn með verðlaunagrip sinn sem efsti maður M-gjafarinnar.
Bestur Kristinn með verðlaunagrip sinn sem efsti maður M-gjafarinnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
M-gjöfin Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er ég löngu hættur að fylgjast með allri umfjöllun um liðið og mann sjálfan.

M-gjöfin

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er ég löngu hættur að fylgjast með allri umfjöllun um liðið og mann sjálfan. Maður kíkir kannski á það ef einhver vinnufélagi potar í mann og lætur vita af einhverju, en maður finnur þegar maður eldist að þá fara skoðanir þeirra sem standa utan við liðið að hafa minna vægi. Maður hlustar bara á þjálfarann og liðsfélagana,“ segir besti leikmaður Íslandsmótsins í fótbolta 2019 að mati Morgunblaðsins, Kristinn Jónsson úr meistaraliði KR.

Kristinn hefur sem sagt ekki verið vakinn og sofinn yfir einkunnagjöfum íþróttamiðla í sumar en þessi 29 ára bakvörður varð efstur í M-einkunnagjöfinni ásamt Óskari Erni Haukssyni liðsfélaga sínum. Báðir fengu 18 M en Kristinn í færri leikjum, eða aðeins 19.

„Tímabilið byrjaði hægt hjá mér því ég var meiddur nánast allt undirbúningstímabilið. En eftir að ég kom svo inn á í hálfleik á móti Grindavík [í 4. umferð] finnst mér frammistaðan hafa verið frekar jöfn og ég verið góður heilt yfir, eins og allt KR-liðið. Ég er bara ánægður.“

Svo merkilega vill til að Kristinn hefur áður orðið efstur á blaði hjá Morgunblaðinu, árið 2015 sem leikmaður Breiðabliks. Þá var hann á leið í annað sinn út í atvinnumennsku, hluti af íslenska landsliðshópnum og í baráttu um að komast á EM í Frakklandi. Kristinn gekk í raðir Sarpsborg í Noregi en var þar aðeins í eitt ár og fór til Sogndal, þaðan sem hann hélt aftur til Breiðabliks á miðju sumri 2017. Og þó að hann hafi ekki komist í EM-hópinn á Kristinn að baki 8 A-landsleiki. Núna er Kristinn hins vegar í vinnu hjá Marel samhliða því að stunda nám til meistaragráðu í verkfræði, og hugurinn snýr því ekki lengur að draumum um atvinnumennsku og landsliðssæti.

Á flottum stað í lífinu

„Ég er eingöngu að hugsa um það núna að standa mig með KR. Ég á eitt ár eftir af samningnum mínum þar, líður hrikalega vel og hef allt til alls. Forsendurnar hafa breyst hjá mér eftir að ég kom heim frá Noregi. Það er ekki draumur minn eða stefna í dag að komast aftur í atvinnumennsku. Ég einbeiti mér að því sem ég hef hér heima og finnst ég vera á flottum stað í lífinu. Það er nóg að gera, og ég kann vel við að hafa nóg að gera. Það var kannski mesta sjokkið við að fara út á sínum tíma. Í gegnum tíðina hefur maður verið með dagskrá allan daginn, en úti var maður bara með æfingu og þurfti svo að fylla út í daginn einhvern veginn. Það var svolítið skrýtið,“ segir Kristinn, sem hafði farið til sænska úrvalsdeildarfélagsins Brommapojkarna árið 2014 áður en hann reyndi fyrir sér í Noregi eftir sumarið 2015.

Lærði helling af titilvörn Blika

Kristinn segir sumarið 2019 hafa liðið allt of hratt og hann hlakkar til að mæta í slaginn á næsta ári sem ríkjandi Íslandsmeistari, rétt eins og hann gerði með Breiðabliki 2011:

„Ég hef ágætis reynslu frá því eftir tímabilið 2010 hve erfitt er að verja titil. Þá var næsta tímabil mjög þungt og ég lærði helling af því. Maður fann ekki sömu einbeitingu og greddu og á undirbúningstímabilinu árið á undan, og það skilaði sér inn í nýtt tímabil. Eins og Valur lenti líka í í ár þá er erfitt að mæta til leiks þegar allir vilja sjá þig tapa. Þetta verður virkilega skemmtileg áskorun en það eru allir hjá KR meðvitaðir um hve erfitt er að verja titil og það verður allt gert til að styrkja liðið enn frekar. Við ætlum að njóta næstu 4-6 vikna og koma svo núllstilltir inn í nýtt undirbúningstímabil.“

Eins og fyrr segir heilluðu Kristinn og Óskar blaðamenn Morgunblaðsins í sumar og ljóst er að samvinna þeirra á vinstri kantinum hafði mikið að segja um hve vel KR gekk.

Við Óskar ekki ólíkar týpur

„Ég held ég hafi svo sem aldrei rætt neitt sérstaklega við hann um hvernig við ættum að spila saman. Stundum er eins og hlutirnir smelli bara með leikmönnunum sem maður spilar með, og algjör óþarfi að ræða það eitthvað í þaula. Ég held að við séum ekkert ólíkar týpur. Hann dregur sig til hlés og er mjög rólegur, dálítið í sínum heimi, og það er rosalega gott að spila með honum. Ég hlakka mikið til þess að halda því áfram,“ segir Kristinn. Hann bendir á að Óskar hafi átt sinn þátt í því að Kristinn kom til KR fyrir tveimur árum, frá uppeldisfélagi sínu og eina liðinu sem hann hafði spilað með hér á landi:

„Blikarnir reyndu hvað þeir gátu að halda mér og ég þurfti bara að taka ákvörðun um hvort ég vildi vera áfram hjá Breiðabliki eða prófa eitthvað annað. Ég hafði komið heim frá Noregi á miðju tímabili og bæði var skrokkurinn ekki nægilega góður og andlega hliðin ekki heldur, eftir brotna drauma um atvinnumennsku. Einnig voru hlutirnir svolítið í lausu lofti varðandi þjálfaramál. Rúnar [Kristinsson] og Bjarni [Guðjónsson] höfðu samband og mér leist helvíti vel á það, og síðan ætla ég ekkert að ljúga því að það hjálpaði til að Finnur [Orri Margeirsson] og Nóri [Arnór Sveinn Aðalsteinsson] voru til staðar í KR. En einnig fannst mér afar spennandi að spila með Óskari Erni. Það hafði stór áhrif á ákvörðunina.“