11 stig Hinn 38 ára gamli Logi Gunnarsson er enn hoppandi og skoppandi úti um allan völl. Hann skorar hér tvö stig í gær en hann lék í 29 mínútur.
11 stig Hinn 38 ára gamli Logi Gunnarsson er enn hoppandi og skoppandi úti um allan völl. Hann skorar hér tvö stig í gær en hann lék í 29 mínútur. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Breiðholti Kristján Jónsson kris@mbl.is Njarðvíkingar byrjuðu Íslandsmótið í körfuknattleik á góðum nótum í gærkvöldi og náðu í tvö stig í Breiðholtið. Njarðvík vann sannfærandi sigur á ÍR 85:72.

Í Breiðholti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Njarðvíkingar byrjuðu Íslandsmótið í körfuknattleik á góðum nótum í gærkvöldi og náðu í tvö stig í Breiðholtið. Njarðvík vann sannfærandi sigur á ÍR 85:72. Í upphafi nýs keppnistímabils er gott fyrir lið að landa fyrsta sigrinum og ná þar með úr sér hrollinum. Í þessu tilfelli á það ef til vill sérstaklega vel við um Njarðvíkinga því þeir luku síðasta tímabili á að tapa þrisvar í röð fyrir einmitt ÍR. Var það í 8-liða úrslitum.

Þótt einungis séu um fimm mánuðir liðnir voru liðin gerbreytt í gær. Njarðvíkingar þurftu að sjá á eftir Elvari Má Friðrikssyni og Jeb Ivey. Telst það þó lítið í samanburði við ÍR sem missti sex lykilmenn á einu sumri eins og fram hefur komið. Liðið kemur til með að þurfa nokkrar vikur til að stilla saman strengi.

Njarðvíkingar höfðu frumkvæðið svo gott sem allan leikinn og héldu ÍR-ingum yfirleitt í ágætri fjarlægð. Njarðvíkingar hafa náð sér í sterkan miðherja í Wayne Martin jr. sem skilaði 23 stigum og 15 fráköstum. Hann var ekki að flækja hlutina og skoraði margar einfaldar körfur. Leikstjórnandinn Elvaldas Zabas er vöðvabúnt sem komst einnig vel frá leiknum en stigin dreifðust nokkuð vel hjá Njarðvíkingum.

Búlgarinn Georgi Boyanov var mjög drjúgur hjá ÍR bæði í vörn og sókn. Hann lofar virkilega góðu miðað við þennan leik en hann skoraði 27 stig. Evan Singletary virðist vera hæfileikaríkur leikstjórnandi og gæti orðið forvitnilegt að sjá til hans þegar hann verður orðinn afslappaðri hjá ÍR. Ég gæti trúað að Collin Pryor muni reynast ÍR vel enda orkumikill þótt ekki hafa allt gengið upp hjá honum í gær.

Keflavík vann á Króknum

Keflvíkingar byrja tímabilið einnig vel eins og nágrannar þeirra en þeir unnu Tindastól á Sauðárkróki 86:77. Þar voru nýir menn atkvæðamiklir en Dominykas Milka og Khalil Ullah Ahmad skoruðu samtals 49 stig fyrir Keflavík. Stólarnir voru án Péturs Rúnar Birgissonar og munar um minna. Gerel Simmons gerði 26 stig.

Leikur Fjölnis og Vals var jafn og spennandi í Grafarvogi. Fjölnismenn röðuðu stigum á Val í fyrri hálfleik og voru þá yfir. Valur hafði þó betur 94:87 og skoraði Christopher Jones 31 stig fyrir Val. Jere Vucica skoraði 25 stig fyrir Fjölni. Haukar unnu Þór Akureyri 105:84 og skoraði Kári Jónsson 34 stig þótt hann væri að spila sinn fyrsta leik í langan tíma.