Heræfing Tvær bandarískar herþyrlur sjást hér lenda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli árið 2018. Um borð er vopnaður hópur landgönguliða.
Heræfing Tvær bandarískar herþyrlur sjást hér lenda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli árið 2018. Um borð er vopnaður hópur landgönguliða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Herskip úr 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotanum, hafa verið við æfingar á Norður-Atlantshafi undanfarna daga. Eru þetta stýriflauga-beitiskipið Normandy og tundurspillarnir Farragut, Lassen og Forrest Sherman.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Herskip úr 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotanum, hafa verið við æfingar á Norður-Atlantshafi undanfarna daga. Eru þetta stýriflauga-beitiskipið Normandy og tundurspillarnir Farragut, Lassen og Forrest Sherman. Herskipin Normandy og Farragut verða einnig send norður fyrir heimskautsbaug. Hafa áhafnir skipanna m.a. æft viðbrögð við eldsvoða og flutning á særðum auk þess sem skipin skutu föstum skotum á ferðum sínum um svæðið.

Upphaflega áttu herskipin fjögur að vera fylgdarskip flugmóðurskipsins Harry S. Truman en það neyddist til að snúa aftur til hafnar í Norfolk í Virginíu vegna bilunar.

Til stuðnings herskipunum setti Bandaríkjaher upp tímabundna flotaaðgerðastjórn á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í sl. mánuði. Er um að ræða um 30 manna sveit og var henni úthlutað um 100 fermetra rými í flugskýli einu á vellinum. Er flotaæfingin sögð vera til marks um að Bandaríkin ætli sér að leika virkara hlutverk á norðurslóðum.

Mjög hefur verið greint frá viðveru erlendra hersveita hér við land að undanförnu. Á sl. mánuðum hafa m.a. sveitir landgönguliða æft á Íslandi, fjölmörg herskip og sprengjuflugvélar sótt landið heim og orrustuþotur staðið vaktina í Keflavík. Þannig verða sex orrustuþotur NATO hér við land næstu vikur.

Hernaðaruppbygging á Íslandi

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og hernaðarandstæðingur, segir vel hægt að tala um „hernaðaruppbyggingu“ hér á landi í ljósi mikilla umsvifa undanfarna mánuði.

„Bandaríkjastjórn er augljóslega að senda skilaboð þar sem hún áréttar með skýrum hætti að svæðið í kringum Ísland og Grænland sé yfirráðasvæði Bandaríkjanna,“ segir Stefán í samtali við Morgunblaðið.

Vinstri grænir, sem lengi hafa verið á móti öllu hernaðarbrölti, leiða núverandi ríkisstjórn Íslands. Aðspurður segir Stefán flokkinn standa í vegi fyrir enn hraðari hernaðaruppbyggingu hér á landi. „Mér finnst þó skárra að vita, þegar allar þessar slæmu fréttir af hernaðaruppbyggingu berast, hvernig ríkisstjórnin er samansett. Ég velti fyrir mér hvernig ástandið væri ef fyrri ríkisstjórn hefði haldið áfram – þá myndu nú umleitanir Bandaríkjamanna renna ansi ljúflega í gegn,“ segir hann og bætir við að afstaða almennings sé farin að breytast þegar kemur að viðhorfi fólks til veru erlendra hersveita innan landamæra Íslands.

„Nýlegar skoðanakannanir um afstöðu fólks til alþjóðamála og alþjóðlegs samstarfs sýna mun meiri tortryggni í garð hernaðarsamstarfs við Bandaríkin en maður hefur séð lengi. Þá hefur tónninn í sumum stjórnmálaflokkum breyst, s.s. Samfylkingunni sem er orðin mun gagnrýnni á hefðbundna íslenska utanríkispólitík en hún hefur verið frá stofnun sinni. Og það er ekki bara eitthvað sem hangir við það að vera í stjórnarandstöðu,“ segir Stefán.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, hefur „miklar áhyggjur“ af þróun mála. „Mér sýnist því miður við vera að færast inn í tímabil þar sem hernaðaruppbygging mun eiga sér stað. Við horfum upp á stórveldin draga sig úr afvopnunarsamningum og nýjan veruleika sem til verður vegna válegra tíðinda í loftslagsmálum í bland við gamla hugmyndafræði um hernaðaruppbyggingu. Það er grafalvarlegt mál,“ segir hann og heldur áfram: „Í mínum huga er ekki hægt að vera fylgjandi baráttu gegn loftslagsvánni og hernaðaruppbyggingu á sama tíma, enda vart hægt að finna meira mengandi iðnað en hernaðarbrölt.“