Guðni A´gu´stsson
Guðni A´gu´stsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Nú telur Þórólfur að vegna kolefnissporsins beri að leggja af sauðfjárrækt á Íslandi og flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi."

Það er ekki skemmtilegt verkefni að deila við prófessora því þeir eiga að vera hafnir yfir pólitísk átök og þeirra er fræðimennskan. En Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fer oft frjálslega með staðreyndir á Staðreyndavakt Háskólans. Stundum bregður hann sér úr kápu fræðimannsins og fer í kápu hins harðvítuga talsmanns pólitískra skoðana og í garð landbúnaðarins er hann opinber andstæðingur og ósanngjarnari en nokkur annar.

Nú telur Þórólfur að vegna kolefnissporsins beri að leggja af sauðfjárrækt á Íslandi og flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi. Það er þó skoðun margra að til að bjarga jörðinni og mannkyninu skuli matvæli ekki flutt heimsálfa á milli.

Skyldu landsmenn muna framgöngu prófessorsins í Icesave? Þar var hann harðasti „stjórnmálamaðurinn“ um að Ísland skyldi borga skuldir „óreiðumanna“. Og sagði þetta íklæddur kápu hagfræðiprófessorsins. „Þá hrynur krónan og fer niður fyrir allt sem nokkurn tímann hefur þekkst og lífskjör hrynja gjörsamlega, atvinnuleysi eykst, við erum að horfa upp á alveg hrikalega sviðsmynd ef þetta gerist.“

En þjóðin hélt sínu striki og EFTA-dómstóllinn sýknaði Íslendinga af kröfum Bretanna og röng var niðurstaða prófessorsins þá. Enginn notaði þar stærri orð en hann til að reyna að blekkja þjóðina til að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um að greiða skuldir útrásarinnar. Þarna var Þórólfur að þjóna pólitískt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J Sigfússonar sem og kollegi hans Gylfi Magnússon hagfræðingur, sem var þó í ráðherrakápu og baðst afsökunar á ummælum sínum um að „Ísland yrði Kúba norðursins,“ yrði Icesave ekki greitt. Svona hagfræðingar, þótt prófessorar séu, glata faglegu trausti. Gylfi sá þó villu sína en ekki Þórólfur.

Þórólfur skrifaði í Fréttablaðið 26. september sl. til að kynna enn eina útreikninga sína um sauðfjárrækt og byrjaði í upphafi máls að fara með rangt mál. Hann byrjaði greinina svona: „Sumarið 2019 brá svo við að stórar verslanakeðjur gátu ekki boðið viðskiptavinum sínum lambakjöt á grillið svo vikum skipti.“ Þessi fullyrðing er röng því nægt lambakjöt var til í öllum gerðum á grillið, nema að það var deilt um hvort skortstaða væri á lambahryggjum.

Upphlaupið um lambahryggina varð í lok júlí og þar fóru aðrir tveir mikinn, þeir Ólafur Stephensen og Andrés Magnússon, en þeir voru hvorki að þjóna óskum neytenda eða almennt kaupmanna og kórónuðu svo delluna með innflutningi á tveggja eða þriggja ára gömlum hryggjum fluttum átján þúsund kílómetra leið.

En svona gamalt kjöt selja þeir í Nýja-Sjálandi víst í aðrar þarfir en ofan í fólk og á grillið. Og nú liggja hryggirnir og eldast vel í frysti í stórverslun hér í Reykjavík.

Er ekki mál að hafna falsspámönnum, sem setja „alþjóðasamfélagið“ í algeran forgang á kostnað heilnæmrar íslenskrar framleiðslu og almannahagsmuna.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðna Ágústsson