Einar Ármannsson fæddist að Engjavegi 3, Selfossi, 16. maí 1953. Hann lést á Tenerife 17. september 2019.

Foreldrar Einars voru Guðbjörg Eyvindsdóttir saumakona, f. 30. september 1927, d. 29. mars 2013, og Ármann Einarsson bifvélavirki, f. 5. desember 1920, d. 25. apríl 1993. Systur Einars eru: Laufey, f. 15. mars 1947, og Freydís, f. 7. ágúst 1960. Uppeldisbróðir Einars er Steinþór Ómar Guðmundsson, f. 9. júní 1950.

Einar giftist hinn 13. janúar 1979 Ásdísi Garðarsdóttur, f. 28. janúar 1957. Foreldrar hennar eru Garðar Karlsson, f. 28. nóvember 1928, og Gyða Sigurðardóttir, f. 16. júní 1928, d. 8. febrúar 2001. Einar og Ásdís eignuðust þrjú börn: 1) Una Björg, f. 25. febrúar 1977, maki Hallgrímur Stefánsson, f. 2. nóvember 1970. Sonur þeirra er Orri Hrafn, f. 24. nóvember 2015. Dóttir Unu Bjargar og Rúnars Arnar Hafsteinssonar, f. 25. september 1978, d. 8. nóvember 2009, er Arna Eir, f. 2. september 2008, sonur Hallgríms og stjúpsonur Unu Bjargar er Stefán Fannar, f. 7. október 2005. 2) Ármann, f. 5. september 1982, maki Þórhalla Sólveig Jónsdóttir, f. 20. febrúar 1980; börn þeirra eru: Jón Hjaltalín, 17. janúar 2006, Einar Þórhallur, f. 1. febrúar 2011, og Ólafur Kári, f. 2. júní 2013. 3) Emil Karel, f. 5. mars 1994.

Einar ólst upp á Selfossi en snemma leitaði hugur hans til sjávar. Eitt sinn þegar hann var 11 ára gamall hjólaði hann frá Selfossi að Eyrarbakka til þess eins að berja hafið augum. Einar bjó á Selfossi fram yfir tvítugt en flutti til Reykjavíkur árið 1976 með Ásdísi, eftirlifandi eiginkonu sinni, til að nema við Skipstjóra- og stýrimannaskólann. Einar og Ásdís fluttust til heimabæjar hennar Þorlákshafnar árið 1977, þar sem þau bjuggu æ síðan, og hóf hann störf við sjómennsku. Ýmist sem skipstjóri eða stýrimaður. Einar var til sjós í 34 ár en síðustu 13 árin vann hann hjá Lýsi. Einar var um árabil félagi í Lionsklúbbi Þorlákshafnar og tók virkan þátt í starfi félagsins á því tímabili.

Einar verður jarðsunginn frá Þorlákskirkju í dag, 4. október 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Pabbi varð bráðkvaddur á Tenerife hinn 17. september, langt fyrir aldur fram. Hann naut sín vel í hitanum og sagði við mömmu á hverjum degi hve frábært væri að vera þarna. Dásamlega, dásamlega jákvæði pabbi minn. Pabbi var yfirleitt með bros á vör og alltaf tilbúinn að sjá jákvæðu hliðarnar á lífinu. Það lýsir pabba svolítið vel að ekki fyrir svo löngu sagði hann við mömmu hvað hann væri sáttur við lífið. Hann hefði allt sem hann þyrfti og lifði svo góðu lífi. Hann ætti þak yfir höfuðið, góða konu, þrjú börn sem hann væri stoltur af, hann ætti frábær barnabörn og svo ætti hann sinn griðastað á ættaróðalinu á Hömrum. Hvers meira gæti einn maður óskað sér. Þessi orð finnst mér lýsa pabba svo ótrúlega vel. Hann sá alltaf það besta og fallega í lífinu. Pabbi var helsti stuðningsmaður okkar systkina í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann hafði þann hæfileika að sjá alltaf eitthvað jákvætt við hvaða bras sem okkur datt í hug og var alltaf fyrstur mættur á staðinn, ásamt mömmu, til að aðstoða ef á þurfti að halda. Aldrei taldi hann okkur af því að gera eitthvað, hann sýndi okkur stuðning og áhuga. Hann var alltaf til staðar. Hvort sem það var að keyra dótturina í skólann á Laugarvatni seint á sunnudagskvöldi, mæta á körfuboltaleiki sonanna eða standa í flutningum. Það var ótrúlega dýrmætt að heyra pabba segja að hann lifði fyrir börnin sín. Sem hann og sýndi í verki. Pabbi var ósérhlífinn, pínu stríðinn, kvartaði aldrei, hafði afar gaman af því að rökræða pólitík og hafði stórt jafnaðarmannahjarta sem sló fyrir þá sem minna mega sín. Pabbi gat talað við alla og hann sýndi fólki virðingu. Hann var ljúfmenni. Hann var jafnframt mikill matmaður og hafði gaman af að borða góðan mat. Ef skál með súkkulaði eða konfekti var sett fyrir framan pabba leið ekki á löngu þar til búi var úr skálinni. Ósjaldan um jól heyrðist setningin: „Einar, ertu búinn með konfektið úr skálinni?“ og hann svaraði „nei, ég fékk mér bara lítið“ og glotti. Pabbi var ótrúlega vinnusamur og alltaf að. Þegar hann var til sjós kom oft fyrir að þegar hann kom í land þá fór hann í húsverkin eða jafnvel að baka skonsur. Pabbi var mikill barnakarl og elskaði að vera með barnabörnunum. Þeim fannst ótrúlega gaman að fara í Þorlákshöfn, eða Citýið eins og við kölluðum það, því þar var mikið brallað. Farið í sund, keyptur ís, farið með afa á bryggjurúnt að skoða bátana, bakað með ömmu og kósíkvöld voru ómissandi. Pabbi og mamma voru skemmtilega samheldin. Þau hjálpuðust að á heimilinu, fannst gaman að ferðast, tuða stundum svolítið í hvort öðru og síðustu árin elskuðu þau að vera í hjólhýsinu sínu á Hömrum III með fólkinu sínu. Þar áttu þau sér sinn griðastað.

Margs er að minnast, margs er að sakna. Pabbi var ákveðin fyrirmynd í því hvernig á að lifa lífinu. Einblína á það jákvæða, láta sig þjóðfélagsmálin varða og hugsa vel um fólkið sitt. Ég mun halda minningu hans á lofti með því að halda áfram að tileinka mér þessa eiginleika sem hann eftirlét okkur.

Pabbi, þú verður ávallt elskaður og þín minnst með hlýhug.

Þín dóttir.

Una Björg Einarsdóttir.

Í dag kveðjum við bræðurnir ljúfa afa Einar okkar í hinsta sinn. Hann fór allt of snemma. Við kvöddum hann síðast með gleði í hjarta þegar hann fór með ömmu Ásdísi í langþráð frí. Margar góðar minningar um afa munu fylgja okkur í gegnum árin að ógleymdum sögum um sjómennskuna og veðurfar. En afi Einar gat alltaf með mikilli nákvæmni sagt til um veðrið á hverjum stað. Við munum sakna afa með djúpu röddina sem vakti okkur alla þrjá sem ungbörn því það fór ekki framhjá neinum þegar hann kom í heimsókn. Við munum sakna lífsgleðinnar og hversu jákvæður hann var alla daga innan um okkur bræður og þá munum við einnig sakna þess að spjalla við hann um körfuboltaheiminn.

Elsku afi Einar, við bræður munum líka passa vel upp á ömmu Ásdísi sem saknar þín svo sárt. Hvíldu í friði.

Þínir afastrákar,

Jón Hjaltalín, Einar

Þórhallur og Ólafur Kári.