Það er sama hvert litið er, þá er samráðsleysi ráðstjórnar borgarinnar hrópandi

Í Morgunblaðinu í gær var birt heilsíðuauglýsing frá rekstraraðilum á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti um lokanir á þessum sögufrægu og vinsælu gömlu götum.

Birtar eru undirskriftir hluta þeirra sem samþykkir voru inntaki og boðskap þessarar auglýsingar, því hefðu allar undirskriftirnar verið birtar hefði naumast verið pláss fyrir nokkuð annað á síðunni.

En þar kemur einnig fram að áður höfðu þessi sjónarmið verið rækilega kynnt fyrir borgaryfirvöldum og þau ekkert gert með sjónarmið rekstraraðilanna.

Það er raunar mjög einkennandi fyrir störf og viðmót núverandi yfirvalda borgarinnar, að þau telja sig lítt varða um sjónarmið borgarbúa í smáu eða stóru og einnig í þeim tilvikum þar sem augljóst má vera að sá hópur sem í hlut á þekkir jafn vel eða miklu betur til mála en borgaryfirvöldin sem fara sínu fram, hvað sem sjónarmiðum annarra líður.

Í þessu tilviki kemur fram að nærri þrír af hverjum fjórum rekstraraðilum við þessar götur sem umdeildar lokanir taka til voru andvígir þeim. En þeir létu sér ekki nægja að lýsa andstöðu sinni við þessar skaðlegu ráðstafanir heldur sýndu ábyrgð og samstarfsvilja með því að reifa kosti sem rétt væri að athuga til að koma til móts við sjónarmið aðila og vilja meirihluta borgarstjórnar, þótt sá sé einkennilega lélegur hlustandi á sjónarmið annarra.

Í ávarpi rekstraraðila segir meðal annars: „Borgaryfirvöld ætla ekki að standa við gefin loforð um að opna Laugaveg og Skólavörðustíg fyrir bílaumferð 1. október, heldur ætla að hafa lokað allt árið, þrátt fyrir afgerandi andstöðu rekstraraðila. Mikill flótti fyrirtækja hefur verið úr miðbænum og hafa flestir forsvarsmenn þeirra talað um lélegt aðgengi að fyrirtækjum þeirra sem ástæðuna. Lokun gatna hjálpar þar ekki til!“

Og rekstraraðilarnir bæta við: „Það er með ólíkindum að borgaryfirvöld hafi undanfarin ár verið í stríði við verslun í miðbænum um lokanir og gengið þvert gegn vilja þeirra í þeim efnum. Það á að vera stolt hverrar höfuðborgar að vera með fjölbreytta þjónustu sem höfðar til allra landsmanna.“

Það er augljóst að rekstraaðilum á þessum mikilvægu en jafnframt viðkvæmu svæðum er mikið niðri fyrir, en þeir hafa fram að þessu reynt að koma sjónarmiðum sínum hljóðlega á framfæri við borgaryfirvöld án árangurs.

Og enginn þarf að undrast þótt þeim þyki mælirinn vera löngu fullur.

Þeir eru ekki að berjast gegn hugmyndum eða „útópíum“ sem bregðast mætti við með ásökunum um að þeir séu „á móti framförum og nútímavæðingu“ eins og oft er lenska að gera. Öðru nær. Þeir vísa til reynslunnar sem þegar er orðin vegna þessa offors borgaryfirvalda, eins og þetta dæmi úr ávarpi þeirra er til vitnis um: „Á þeim kafla Laugavegar sem lokað var í sumar eru 36% verslunarrýma auð!“

Og eins og rekstraraðilarnir benda á eru þeir ekki einir um þau sjónarmið sem þeir kynna. Könnunin, sem þeir vísa til í auglýsingu sinni, sýnir einnig að meirihluti borgarbúa er andvígur lokunarstefnunni.

Þessir viðskiptamenn í hjarta borgarinnar ljúka ávarpi sínu með þessum orðum: „Rekstraraðilar við Laugaveg og Skólavörðustíg vilja fá að keppa við önnur verslunarsvæði á höfuðborgarsvæðinu af sanngirni og án afskipta borgaryfirvalda af sínu rekstrarumhverfi. Verslun í miðbænum hefur þurft að sætta sig við hærri stöðumælagjöld auk skerts aðgengis að miðbænum. Veðrið spilar stóran þátt í því hvort fólk kemur í miðbæinn eða ekki, göngugötur skipta þar ekki máli. Fyrst að það er stefna borgaryfirvalda að fjölga göngugötum í Reykjavík því byrja þau ekki á þeim svæðum þar sem meirihluti rekstraraðila er fylgjandi lokunum eins og í Kvosinni og úti á Granda?

Ekkert raunverulegt samráð hefur átt sér stað um lokanir gatna í miðbænum. Það er ekki samráð þegar borgaryfirvöld kalla okkur rekstraraðila á fund til að tilkynna okkur hvað þau hyggjast fyrir og láta síðan allar mótbárur sem vind um eyru þjóta.

Nei, það er ekki samráð heldur valdníðsla og yfirgangur!“