Kristmar Arnkelsson fæddist í Ólafsvík 19. febrúar 1943. Hann lést á nýrnadeild Landspítalans við Hringbraut 20. september 2019.

Foreldrar hans voru Aðalheiður Jóhannsdóttir frá Fagurhól, Ólafsvík, f. 27. apríl 1917, d. 4. október 1971, og Arnkell Jónas Einarsson frá Reykjavík, f. 15. október 1920, d. 7. mars 1985. Hálfsystir Kristmars sammæðra er Hlíf Björk Sigurðardóttir, f. 25. desember 1945. Eiginmaður hennar er Árni Ólafur Sigurðsson. Þau eru búsett á Skagaströnd.

Hinn 15. nóvember 1980 kvæntist Kristmar Þórdísi Ingibjörgu Ólafsdóttur. Foreldrar hennar voru Ólafur Bjarni Ólafsson, f. 27. mars 1911, d. 9. ágúst 1979, og María Þorbjörg Maríasdóttir, f. 17. maí 1914, d. 4. október 1989. Þau skildu. Þau eignuðust eina dóttur, Aðalheiði Jóhönnu, f. 6. ágúst 1980. Börn hennar eru: a) Ísmael Kristmar, f. 30. september 2008, b) Sara Rakel, f. 18. september 2011, c) Lilya Þórdís, f. 4. janúar 2015, d) Adam Þór, f. 22. júlí 2016. Þau eru búsett í Frakklandi.

Kristmar ólst upp hjá móður sinni og afa í Fagurhól í Ólafsvík. Þegar hann var í kringum tvítugt flutti hann í Brúarholt 8 í Ólafsvík og bjó þar allt sitt líf. Kristmar byrjaði ungur að árum að vinna við ýmis störf í landi. Þar má nefna sem vörubílstjóri, rútubílstjóri, vöruflutningabílstjóri, veghefilsstjóri og lögreglumaður. Einnig vann hann sem handflakari í fiskvinnslu.

Tónlist lék stórt hlutverk í lífi hans og var hann meðal annars meðlimur í hljómsveitinni Ómó frá Ólafsvík þar sem hann spilaði á saxófón.

Útför Kristmars fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 4. október 2019, og hefst hún klukkan 14.

Elsku pabbi minn.

Þau verða mér þung sporin sem ég tek í dag þegar ég fylgi þér síðasta spölinn. Það er stórt skarð höggvið í litla fjölskyldu þegar svo mikilvægur hlekkur fellur frá. Nú er komið að kveðjustund og mikið er það sárt.

Með hjálp nútímatækni gastu tekið virkan þátt í okkar daglega fjölskyldulífi úti í Frakklandi sem gerði fjarlægðina bærilegri. Það var hringt á hverjum degi, stundum oftar, sungið með börnunum, glaðst saman í afmælum og á jólum, svo ef eitthvað bilaði hringdi maður í pabba og þá var málunum reddað gegnum skype.

Síðustu vikurnar þínar voru erfiðar. Það var ekki auðvelt að horfa upp á pabba sinn svona mikið veikan en huggun að vita að við vorum öll sameinuð í síðasta sinn og barnabörnin gátu knúsað þig og kysst enda brostir þú eins og sól í heiði í hvert sinn sem þau gengu inn í sjúkrastofuna til þín. Það er yndislegt að sjá að svo litlar verur geti glatt mannshjartað eins og raun er en alltaf gast þú brosað og glaðst yfir að sjá andlit þeirra þrátt fyrir að þróttur þinn leyfði vart meira. Þú átt nú helling í yngsta barnabarninu þínu honum Adam Þór, og hafðir þú lúmskt gaman af því að fylgjast með honum svipta öllu upp eins og ekkert væri og sagðir svo: „Ætlar þú að vera sterkur eins og afi?“

Heljarmenni varst þú að burðum þegar þú varst upp á þitt besta. Fórst nú létt með Fullsterk og Húsafells-helluna. Gerðir bestu kjötsúpuna og heita kakóið þitt var nú frægt en engum hefur tekist að útbúa það eins gott og þú.

Elsku pabbi og afi, þú munt lifa í minningum okkar að eilífu og aldrei gleymast. Ég kveð þig nú í hinsta sinn en veit að við sjáumst aftur.

Þar sem jökulinn ber við loft

hættir landið að vera jarðneskt

en jörðin fær hlutdeild í himninum

þar búa ekki framar neinar sorgir

og þessvegna er gleðin ekki

nauðsynleg

þar ríkir fegurðin ein

ofar hverri kröfu.

(Halldór Laxness)

Þín dóttir,

Aðalheiður Jóhanna.

Nú er komið að kveðjustund, elsku Kristmar.

Okkur langar í nokkrum orðum, elsku bróðir og mágur, að minnast þín. Það var alltaf gaman að vera í kringum þig, þú hafðir einstakt minni og mundir eftir ótrúlegustu atburðum á lífsleiðinni. Við sitjum hér og skrifum um þær góðu stundir sem við áttum saman, sem voru því miður allt of fáar. Ástæðan kannski þar að það var langt á milli okkar, þú í Ólafsvík og við á Skagaströnd. Við höfðum reglulega samband við þig í síma og spjölluðum þá æði lengi saman. Það var dýrmætt að heyra þig ræða um elsku Aðalheiði dóttur þína og litlu afagullin þín sem búa í Frakklandi, en hugur þinn var alltaf þar alla tíð. Það hafa verið erfiðir tímar hjá þér undanfarið vegna veikinda og átakanlegt var að hitta þig þá en jafnframt ánægjulegt. Alltaf höfðum við trú á því að þú myndir koma til baka á einn eða annan hátt.

En við vonum sannarlega að þú hvílir nú á betri stað eftir að þú yfirgafst þetta líf.

Elsku Aðalheiður Jóhanna, Ísmael Kristmar, Sara Rakel, Lilya Þórdís og Adam Þór.

Við vottum ykkur öllum okkar dýpstu samúð og vonum að Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Megi Guð geyma þig, elsku Kristmar okkar.

Hlíf og Árni.

Elsku Kristmar frændi.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Aðalheiður Jóhanna, Ísmael Kristmar, Sara Rakel, Lilya Þórdís og Adam Þór.

Við systir vottum ykkur öllum okkar innilega samúð á þessum erfiðu stundum.

Aðalheiður Sif, Halla Kristín

og Elva Dröfn.

Minningarnar birtast hver af annarri þegar ég rifja upp samskiptin við æskuvin minn Kristmar Arnkelsson frá Fagurhóli í Ólafsvík. Hann gerði ekki víðreist og var ekki mikið fyrir að fara að heiman til starfa eða dvalar og hann átti alla tíð heimili í fæðingarbænum sem var honum mjög kær og hann bar samfélagið í Ólafsvík mjög fyrir brjósti. Á æskuárum Kristmars var leiksvæði okkar krakkanna í þorpinu fjaran og höfnin, Gilið og farvegur þess, Kotlækurinn, Tvísteinahlíðin og Stekkjarinn þar sem var róið á heimasmíðum kajökum í sumarblíðunni eða stigið á skauta þegar færi gafst að vetri. Athafnasvæði okkar var einnig á túnunum í námunda við Kot þar sem fjölskylda Kristmars reisti sér síðar myndarlegt hús og þar átti hann sitt heimili. Það var gott að eiga Kristmar að vini svo hæglátur og traustur sem hann var jafnt á unglingsárunum sem þá er hann var orðinn fullorðinn. Allt sem Kristmar tók sér fyrir hendur var framkvæmt af yfirvegun, fyrirhyggju og það var ekki flanað að hlutunum.

Starfsferill hans mótaðist af umhverfinu og þeirri staðreynd að hann hóf mjög ungur að vinna fulla vinnu og sjá fyrir sér sjálfur. Og það lá þá beint við að hefja störf í fiskvinnslu í þorpinu þar sem allt snérist um sjávarútveginn. Síðar gerðist hann bifreiðarstjóri og hann rak eigin vörubifreið um árabil. Þá vann hann við akstur hjá öðrum og starfaði sem vélamaður hjá Vegagerðinni. Kristmar hafði mikinn áhuga á tónlist. Saxófónn var uppáhaldshljóðfærið og hann lagði rækt við að ná tökum á saxófónleik og kynnti sér tónlist þar sem blásturshljóðfæri komu við sögu. Um tíma lá leið okkar saman í hljómsveitunum ÓMÓ og Þyrnum sem léku fyrir dansi á Snæfellsnesi og Dölum. Við nutum mjög þeirrar vináttu sem skapaðist á hljómsveitarárunum. Hljómsveitin hafði æfingaraðstöðu í skólanum en einnig á heimili foreldra minna í Borgartúni í Ólafsvík. Þar voru stofurnar lagðar undir æfingar á lögum Bítlanna, Shadows, Kinks og tónlist sem hentaði fyrir gömlu dansana sem voru stundaðir á öllum dansleikjum á þeim tíma. Voru margar ferðir farnar til að leika á sveitaböllum svo sem á Breiðabliki, Görðum, Arnarstapa að Staðarfelli í Dölum og í Dalabúð, en oftast var spilað í Röstinni Hellissandi og Samkomuhúsinu í Ólafsvík. Þegar hluti hljóðfæraleikaranna fór að heiman til skólagöngu í höfuðborginni var þeirri skemmtilegu iðju að spila á dansleikjum hætt. Sá ánægjulegi og eftirminnilegi tími var jafnan rifjaður upp þegar við Kristmar hittumst.

Hestmennska og hrossarækt var mikið áhugamál hjá Kristmari. Þar lágu leiðir okkar saman í hestamennsku og mótahaldi á Kaldármelum í Kolbeinsstaðahreppi þegar stórmót Hestamannafélagsins Snæfellings voru haldin með miklum tilþrifum. Samskipti okkar Kristmars hafa ekki verið mikil hin síðari ár en það gladdi okkur Kristmar báða að dætur okkar tengdust vinaböndum þegar þær dvöldu samtímis við nám og störf í Montpellier í Frakklandi fyrir nokkrum árum. Að leiðarlokum vil ég minnast Kristmars vinar míns með virðingu og þökk og sendi Aðalheiði dóttur hans og fjölskyldu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Kristmars, hann var drengur góður.

Sturla Böðvarsson.

Þannig er að sólin hnígur

en rís svo upp að morgni dags

og fyllir sálir sælu vímu

en kveður svo að kveldi dags.

Ég sakna æskufélagans og vinar um alla tíð, Kristmars Arnkelssonar er kvaddi þann 20. þessa mánaðar. Hann hafði átt við heilsuleysi að stríða síðustu ár ævi sinnar.

Hann var sannur vinur í raun. Það voru ófáar ferðirnar sem hann þurfti að fara á Heilsugæslu Vesturlands á Akranesi vegna veikinda sinna. Hann hafði alltaf samband við mig þegar hann hafði lokið erindi við læknana.

Þá áttum við góðar stundir saman yfir kaffibolla og rifjuðum upp gamlar minningar, bæði sárar og ljúfar.

Ég held ég mæli fyrir munn okkar félaga sem þekktum Kristmar best að hann var frábær sagnamaður og kunni ógrynni af vísum. Það var því oft glatt á hjalla í hópnum er Kristmar var í góðu formi.

Hann hafði einnig gott tóneyra, og þegar það er nefnt rifjast upp eitt skemmtilegasta tímabil í samveru okkar þegar við fengumst við tónlist um tíma, þar lék hann á saxófón.

Þegar við kveðjum samferðafólk erum við minnt á hve dýrmætt það er að eiga traustan og góðan vin eins og Kristmar var. Kristmar í Fagurhól.

Nú sefur sálin sæl

og sólin okkur sýnir

í faðmi guðs hann hvílir

Þar loga ljósin skær.

Aðstandendum sendi ég samúðarkveðju.

Ingibjartur G. Þórjónsson.