Gullkistan Í viðbragðsstöðu. Frá vinstri: Óttar Felix Hauksson, Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Ásgeir Óskarsson og Jón Ólafsson.
Gullkistan Í viðbragðsstöðu. Frá vinstri: Óttar Felix Hauksson, Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Ásgeir Óskarsson og Jón Ólafsson. — Ljósmynd/Jens Ormslev
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hljómborðsleikarinn Magnús Kjartansson hefur lítið látið fyrir sér fara um árabil, en kom tvíefldur til leiks á Ljósanótt í Reykjanesbæ fyrir skömmu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hljómborðsleikarinn Magnús Kjartansson hefur lítið látið fyrir sér fara um árabil, en kom tvíefldur til leiks á Ljósanótt í Reykjanesbæ fyrir skömmu. Hann er genginn til liðs við hljómsveitina Gullkistuna og spilar með henni á tíu ára starfsafmæli bandsins á Kringlukránni annað kvöld, 56 árum upp á dag frá því Hljómar komu fyrst opinberlega fram í félagsheimilinu Krossinum í Ytri-Njarðvík.

„Ég hef siglt undir radarnum,“ segir Magnús, sem flutti austur fyrir fjall fyrir um áratug. Hann bendir á að sú ákvörðun hafi haft álíka áhrif á suma og hafi hann farið með geimfari sambandslaus áleiðis til mars.

„Þegar mér varð þessi staða ljós með Marsferðina ákvað ég að það væri mitt að leiðrétta málið,“ segir hann um endurkomuna í Gullkistuna, sem áður hét Stjörnuband að sunnan. „Ég var á sama punkti og einhver sem flytur til útlanda og skammar alla fyrir að vera ekki í sambandi. Það var ég sem fór úr sambandi og því sneri ég mér að því á ný að vera í sambandi við vini og félaga, þökk sé ljósleiðaranum og GSM-símanum, og sýna um leið að ég væri ekki í geimfari á leið til Mars.“

Merkilegur ferill

Tónlistarferill Magnúsar „undrabarns“, eins og Benedikt Viggósson blaðamaður kallaði hann, er langur og merkilegur. Hann hófst í drengjalúðrasveit barnaskólans í Keflavík og síðan lék hann með mörgum þjóðþekktum hljómsveitum eins og til dæmis Óðmönnum, Júdas, Trúbroti, Mannakorni, Brunaliðinu, Brimkló, Haukum, HLH-flokknum, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar og Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar. Hann hefur komið að yfir 200 plötum og geisladiskum sem hljóðfæraleikari, útsetjari eða upptökustjóri, starfað í leikhúsum, verið hljómsveitarstjóri og samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. „Við Óttar Felix spiluðum saman í Pops og svo hef ég verið heiðursgestur hjá Gullkistunni á Þrettándagleði á Kringlukránni, en nú hef ég verið dreginn undir regnhlífina með þessum strákum sem ég hef þekkt frá fermingu og suma lengur. Það er alltaf gaman að hitta menn sem eru með svipaða lífsreynslu og áhugamál.“

Í Gullkistunni eru, auk Magnúsar, Gunnar Þórðarson gítarleikari, Jón Ólafsson bassaleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Óttar Felix Hauksson gítarleikari. Á nýafstaðinni Ljósanótt í Reykjanesbæ spilaði bandið á horni Tjarnargötu og Hafnargötu, þar sem keflvískir tónlistarmenn hafa oft spilað við hátíðleg tækifæri. „Þarna sá ég Hljómana fyrst spila og áður hafði ég séð þar Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar,“ rifjar Magnús upp. „Nú var ég loksins kominn upp á sama pall og Guðmundur Ingólfs hafði staðið á, með Gunna Þórðar á sviðinu með mér og ljósastaur beint fyrir framan sem tileinkaður er laginu „Skólaball“ eftir mig.“

Breytt Gullkistan spilar að sjálfsögðu þekkt lög eftir Magnús eins og til dæmis „My Friend and I“ og „To be Grateful“ á tímamótaballinu. „Nú er bara að búa sig undir bjarta og gefandi fortíð,“ segir tónlistarmaðurinn, sem hefur annars verið önnum kafinn við hljóðfæraleik, kórvinnu og kennslu. „Ég geri allt sem mér finnst skemmtilegt og það verður gaman að spila með strákunum.“