Birna Ásgerður Björnsdóttir fæddist á Ísafirði 14. ágúst 1926. Hún lést 29. september 2019 á hjúkrunarheimilinu Eir, þar sem hún hafði dvalist frá árinu 2013.

Foreldrar hennar voru Þórkatla Þorkelsdóttir, f. á Alviðru í Dýrafirði 1. mars 1885, d. 23. ágúst 1975, dóttir Þorkels Árnasonar frá Dýrafirði og Guðfinnu Jónsdóttur, og Björn Friðfinnsson sjómaður á Ísafirði, f. á Atlastöðum í Svarfaðardal 26. febrúar 1888, d. 28. ágúst 1926, sonur Friðfinns Jónssonar bónda á Atlastöðum í Svarfaðardal og Guðrúnar Björnsdóttur. Alsystkini Birnu voru Guðrún Salvör Björnsdóttir Poulsen, f. 1914, Haraldur Ágúst Björnsson, f. 1915 er varð úti við Siglufjörð 4. nóvember 1935, Guðbjörg Páley Björnsdóttir Smith, f. 1917, og Sigríður Björnsdóttir Proppé, f. 1921. Sammæðra voru Henrý Alexander Hálfdánarson, f. 1904, og Þórhildur María Hálfdanardóttir, f. 1907.

Birna giftist 7. ágúst 1948 Pétri Pálssyni, f. 5. apríl 1926, d. 26. janúar 2007. Foreldrar hans voru Þórunn Sigríður Pétursdóttir húsfreyja, f. 28. febrúar 1902, d. 29. október 1987, dóttir Péturs Þorsteinssonar, prests í Eydölum í Breiðdal og Hlífar Bogadóttur Smith, og Páll Magnússon, lögfræðingur í Reykjavík, f. 27. september 1891, d. 19. febrúar 1985, sonur Magnúsar Bl. Jóhannssonar, prests í Vallanesi á Fljótsdalshéraði og Ingibjargar Pétursdóttur Eggerz.

Börn Birnu og Péturs eru: 1) Ingibjörg, f. í Reykjavík 1. janúar 1953. Sonur hennar og barnsföður hennar, Eriks Splittorff, er Björn Börkur, f. í Árósum í Danmörku 16. júní 1979. Hann er í sambúð með Hrefnu Sif Gunnarsdóttur Lilliendahl, f. 29. júlí 1988. Dætur Björns Barkar og fv. sambýliskonu hans, Hrundar Guðmundsdóttur, f. 20. desember 1979, eru Fura, f. 4. desember 2005, og Ösp, f. 2. desember 2011. 2) Pétur, f. 25. ágúst 1960, d. 12. ágúst 1987.

Eftir lát föður Birnu nokkrum dögum eftir fæðingu hennar voru þrjú systkini Birnu sett í fóstur en Birna bjó áfram með móður sinni og Guðrúnu elstu systur sinni. Fyrstu árin bjuggu þær á Ísafirði og síðan í Djúpuvík og á Siglufirði. Sjö ára flutti hún með móður sinni til Reykjavíkur og gekk þar í Miðbæjarskólann. Þá fluttist hún með móður sinni á Sumarliðabæ í Rangárvallasýslu og var í farskóla þar næstu þrjú árin. Hún fluttist aftur til Reykjavíkur og lauk grunnskólaprófi þar og settist síðan í Kvennaskólann í Reykjavík. Eftir nám vann hún á Landsímanum á langlínumiðstöðinni þar til hún fór í húsmæðraskóla í Valdres í Noregi 1946 og dvaldi þar í eitt ár. Þau Pétur Pálsson dvöldu í Montreal í Kanada í fimm ár þar sem Pétur menntaði sig í verkfræði og hún starfaði hjá kanadíska lyfjafyrirtækinu Hornes Ltd. Eftir heimkomuna settust þau að í Reykjavík. Hún starfaði lengst af við heimilisstörf, en fór út á vinnumarkaðinn á miðjum aldri, þá fyrst á skrifstofu Bananasölunnar og síðan á sambýli fyrir þroskahefta í Drekavogi.

Útför Birnu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 4. október 2019, klukkan 15.

Ég kann enn þá nöfnin á öllum mánuðum ársins vegna þess að hún amma mín kenndi mér þá.

Með fyrstu minningum mínum af henni ömmu þá sitjum við í heita pottinum inni í orkideuhafinu í gróðurhúsinu á Fjólugötunni. Ég sit í fanginu á henni og froðu-bubblurnar eru mannhæðarháar. Afi sagaði nefnilega gat á útvegginn á húsinu og byggði innangengt glerhýsi við, fyllti það með suðrænum plöntum og setti upp viðar heitan pott og vatnsræktunarkerfi, hvorttveggja örugglega það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Amma leyfði afa að hafa trópísku plönturnar sínar í friði í loftsagsstillta gróðurhúsakerfinu sínu, hennar ástríða var hins vegar garðurinn þar sem uppáhaldið var allir krókusarnir sem komu fyrstir og stoltið var bóndarósirnar sem fengu ómælda umönnun. Þar eyddi hún mörgum stundum og lítill þröstur elti klóruna hennar og hún gjuggaði að honum einum og einum ánamaðki. Ég var náttúrlega klifrandi uppi í trjánum eins og apaköttur í kringum hana – leikandi lausum hala en undir vakandi augum.

Við vorum þarna á Fjólugötunni og á Laufásveginum félagarnir, skólabræðurnir og frændurnir í hverfinu, það var alltaf mest kósí að vera uppi hjá henni í eldhúsinu með heitt kakó og kex – og á veturna passaði hún upp á að vera með nægan aukabúnað fyrir þá húfu- og vettlingalausu.

Í sumarbústaðnum, þar sem við eyddum öllum helgum, öfugt við alla þá sem vildu halda músunum frá, laumaði hún ostbitum út á pall fyrir hagamýsnar sem vöndust á matargjafirnar frá henni og þurftu þá ekkert að leita inn. Ég man eftir henni með álftirnar á Álftavatni í atferlisskoðun með kíkinum sínum eitt sumarið – og fylgdist þá með hvernig ein kvenálftin var lögð í einelti af hinum kvensunum. Amma var alveg miður sín og við urðum auðvitað öll þátttakendur í þessu drama.

Ég kveð hana elsku ömmu mína með sárum söknuði og þakka henni fyrir allt sem hún gaf mér og kenndi mér. Hún var lengi sú eina sem sá að ég var hneigður til sköpunar, hvatti mig oft og títt og hún á stóran þátt í því að ég hafði seinna kjark til að hætta snemma í menntaskóla og fara út í listnám.

Börkur.

Elsku Birna frænka okkar er látin, litla systir hennar mömmu.

Birna og Pétur bjuggu lengi nálægt okkur og var mikill samgangur á milli systranna. Við systurnar dáðumst mikið að Birnu frænku, sem var alltaf svo falleg og fín. Hún var sannkölluð heimsdama og minnti helst á kvikmyndastjörnu. Eftir heimkomu frá Kanada kenndi hún mömmu að elda spennandi rétti og var spagettí með kjötsósu uppáhaldsrétturinn okkar lengi á eftir.

Heimilið hennar og Péturs var einstaklega fallegt, búið flottum húsgögnum og listaverkum og sumarbústaðirnir glæsilegir og móttökurnar einstaklega hlýlegar.

Hún var mjög góð við okkur systurnar og gátum við alltaf leitað til hennar ef á þurfti að halda. Þegar mamma okkar fékk berkla og dvaldi á Reykjalundi kom Birna með Ingibjörgu og dvaldi hjá okkur sumarlangt.

Takk, elsku Birna, fyrir mikinn hlýhug í okkar garð.

Elsku Ingibjörg, Börkur og dætur, við vottum ykkur innilega samúð.

Katla, Hekla,

Hrefna og Birna.

Nútímakona og Reykjavíkurmær, alltaf bjart bros og hlýtt viðmót.

Birna Ásgerður var glaðleg, félagslynd og falleg kona. Glæsileg og létt á fæti, heimavinnandi, útivinnandi.

Hún er órjúfanlegur hluti af fjölskylduheild, ein af mömmunum. Færði okkur krakkahópnum djús eða mjólk út í sólina, út á pall, út á tún, út í garð í marglit glös á bakka, bleik, fjólublá, gul – kannski hún hafi komið með þau frá Kanada? Kæfubrauð, kex eða súkkulaðikaka uppi í sumó eða í bænum. Stór súkkulaðikaka.

Í minningunni er nýtískulegt og fallegt heimili, breiður rauður hægindastóll, eikarklæddur veggur, hornsófi úr einingum, einn svartur veggur. Segulbandsupptökutæki, plötuspilari og útvarpssamstæða Péturs frænda innfelld.

Flott formað gult eldhúsborð með stálfæti, amerísk þvottavél, amerískur þurrkari. Nýinnréttuð risíbúð fyrir 1960. Þá og síðar, alltaf smekklegt og notalegt þar sem Birna réð ríkjum. Fallegur gróður og blóm en það sem meira var um vert, allir velkomnir.

Það var sjálfsagt, sjálfsagður hluti af tilverunni að eiga góða að, að eiga skjól í þeirri miðju sem hverfðist um afa og ömmu á Laufásveginum, þar sem allir áttu leið um, þangað sem allir komu og voru mömmur, pabbar, frændur, frænkur, tengdadætur, tengdasynir, ömmusystur eða afabræður, spilafélagar, saumaklúbbur, náskyldir eða fjarskyldir, nýlegir eða góðir gamlir vinir.

En það var auðvitað bara tóm heppni. Heppin var ég þá og mín börn einnig síðar, Þorgrímur Darri og Ingibjörg Jara, að vera hluti af heildinni, að Birna var hluti af miðjunni, að Birna bjó í sama húsi, aðeins fjær eða í næsta húsi.

Heppin að við áttum í Birnu og dýrmætt að hún vildi eiga hlut í okkur.

Við þökkum henni allt það og sendum Ingibjörgu, Birni Berki og dætrum samúðarkveðjur.

Þórunn Sigríður

Þorgrímsdóttir.