Anna Ragnheiður Guðnadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 25. janúar 1942. Hún lést á Landspítalanum 27. september 2019.

Hún var dóttir hjónanna Margrétar Halldórsdóttur, f. 22. júlí 1904, d. 8. maí 1990, og Guðna Pálssonar, f. 18. maí 1894, d. 6. september 1959. Tveggja ára gömul fluttist hún með foreldrum sínum að Hverfisgötu í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu í þrjú ár eða þar til þau fluttu á Vitastíg 9 í sama bæ og var það heimili Önnu þar til hún hóf búskap með eiginmanni sínum árið 1967.

Anna var einkabarn foreldra sinna en fyrir átti Guðni dæturnar Guðfinnu og Theódóru sem báðar eru látnar.

Hinn 1. desember 1966 giftist Anna eftirlifandi eiginmanni sínum Birgi Eyjólfssyni, f. 27. apríl 1940, sonur Kristrúnar Ísleifsdóttur, f. 25. júní 1909, d. 27. mars 1997, og Eyjólfs Ólafssonar, f. 24. apríl 1915, d. 17. apríl 2015.

Saman áttu þau og ólu upp börnin sín þrjú þau: 1) Margréti Alice, f. 10. október 1960, maki Ásmundur Jónsson, f. 3. desember 1967. Börn: a) Anna Hlín Gunnarsdóttir, f. 1982, maki Fróði Steingrímsson, f. 1980. Þeirra börn: Finnur, f. 2010, Stella Margrét, f. 2015, og Stormur Freyr, f. 2017. b) Thelma Gunnarsdóttir, f. 1984, sambýlismaður Jón Óskarsson, f. 1981. Þeirra börn: Logi, f. 2008, Auður Alice, f. 2012, og Jón Úlfur, f. 2017. c) Íris Ásmundardóttir, f. 2000. 2) Kristrún, f. 29. október 1967, maki Stefán Rafn Stefánsson, f. 12. nóvember 1964. Börn: a) Birgir Rafn Stefánsson, f. 1994. b) Andri Rafn Stefánsson, f. 1999. c) Guðný Björk Stefánsdóttir, f. 2001. 3) Guðni, f. 6. janúar 1971, maki Guðrún Elísa Þorkelsdóttir, f. 7. september 1968. Börn Guðna frá fyrra hjónabandi: a) Jason Guðnason, f. 1998. b) Anna Ragnheiður Guðnadóttir, f. 2001. c) Viktor Darri Guðnason, f. 2003. Börn Elísu frá fyrra hjónabandi: a) Garðar Þór Pétursson, f. 1995. b) Ísak Pétursson, f. 1998. c) Hafrún Sigríður Pétursdóttir, f. 2004.

Anna vann hin ýmsu störf á lífsleiðinni en lengst af og til starfsloka við umönnun á deildum og aðstoð við sjúkraþjálfun á Elli- og hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði þar sem mannkostir hennar nýttust vel.

Útför Önnu Ragnheiðar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 4. október 2019, klukkan 15.

„Sannleikurinn finnst ekki í bókum – ekki einu sinni í góðum bókum, heldur í fólki sem hefur gott hjartalag.“

(Halldór Laxness)

Þessi orð Nóbelskáldsins eiga vel við þegar minnst er elsku tengdamóður minnar Önnu Ragnheiðar Guðnadóttur sem kvaddi þennan heim svo skyndilega hinn 27. september síðastliðinn.

Fáum manneskjum hef ég kynnst á lífsleiðinni sem svo heiðarlega, áreynslulaust og einlæglega opnaði faðm sinn og hjarta þeim sem næst henni stóðu. Ævinlega tilbúin að rétta hjálparhönd svo óendanlega óspör á að sýna umhyggju, alúð og hlýju.

Það fékk ég svo sannarlega að reyna. Frá fyrsta degi tók hún mér og börnunum mínum opnum örmum með fangið fullt af vinsemd, skilningi og ástúð. Það verð ég ævinlega þakklát fyrir.

Það voru forréttindi að fá að kynnast Önnu og öllum hennar mannkostum. Með innsæi sínu, umburðarlyndi, æðruleysi og næmi fyrir samferðafólki hefur hún að mörgu leyti breytt gildismati mínu og ég held að það sé ekki ofsagt að kynnin við hana hafi gert mig að betri manneskju.

Fjölskyldan var henni allt og hún lagði mikið upp úr því að hafa fólkið sitt nærri sér. Ævinlega vakin og sofin yfir velferð þeirra, gætti vel að hverjum og einum með hvatningu, hrósi og kærleika að leiðarljósi.

Hún hafði yndislega nærveru, sýndi samferðafólki sínu mikinn áhuga, var ræðin og sagði skemmtilega frá.

Það var alltaf gott að koma til hennar og Bigga á Norðurbakkann þar sem boðið var upp á sambland af hlýju, góðu spjalli, ógleymanlegum skemmtisögum, nærandi og uppbyggilegum samræðum ásamt vingarnlegum ábendingum, óendanlegri umhyggju, hressandi kaffisopa og góðu meðlæti.

Anna hafði hárbeittan „húmor“ svo stundum þótti sumum nóg um. Hún var hrein og bein, lá ekki á skoðunum sínum og talaði tæpitungulaust ef því var að skipta.

Í mörg ár vann hún við umönnun á Sólvangi og þegar hún rifjaði upp þann tíma mátti glöggt heyra hversu mikla umhyggju hún bar fyrir skjólstæðingum sínum. Þar hafa eðlislægir eiginleikar hennar notið sín vel.

Hún var einstaklega skilningsrík og umburðarlynd gagnvart fólki sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni og var snillingur í að sjá það góða í hverjum og einum.

Það haustar og fagrir haustlitir klæða heiðar og fjöll. En það haustaði allt of snemma í lífi elsku Önnu okkar og ástvinir hefðu svo mikið viljað njóta samvista við hana svo miklu, miklu lengur. Margir eiga um sárt að binda enda er stórbrotin kona, sem var elskuð af svo mörgum að kveðja þessa jarðvist.

Hún hefur snert líf margra með elsku sinni og manngæsku og mun minning hennar lifa um ókomna tíð í börnum hennar, barnabörnum, barnabarnabörnum og eins í hjörtum okkar hinna.

Yndislega Anna, þar til að við hittumst aftur megi Guð geyma þig

Þín tengdadóttir

Elísa.

Elsku amma.

Það er svo stutt síðan ég sagði þér að þú værir uppáhalds amman mín. Þú sagðir að það væri af því að ég ætti bara eina. Ég svaraði að þó svo að ég ætti hundrað værirðu samt uppáhalds. Það er svo sárt að kveðja þig svona snemma, elsku amma. Mínar uppáhalds minningar frá því í æsku eru óteljandi margar frá Erluhrauni 4. Allt drullumallið í þvottahúsinu, allar pönnukökurnar sem sumar enduðu á hausnum á þér, allt blótið sem ég lærði af þér en var of huglaus til að hafa eftir þér, allar sögurnar um Jóa Pétur sem þú spannst svo hratt að það var eins og hann væri til. Við systurnar fengum oft að gista og þegar lætin voru sem mest í okkur kom og afi og sagði að ef við færum ekki að sofa myndi hann senda „sýsla“ inn til okkar. Við vorum pínu stressaðar en samt alveg jafn spenntar að fá þig inn því þú varst alltaf jafn góð við okkur. Við fengum okkar eigið pláss í gróðurhúsinu en næst þegar við komum hafði allt sem við höfðum gert fengið að víkja fyrir nýjum hugmyndum því þú varst alltaf að breyta, það hef ég frá þér.

Þú þreyttist ekki á að segja okkur Nonna hvað við værum góðir foreldrar og hvað börnin okkar væru dásamlega vel heppnuð, ég kunni alltaf jafn vel að meta það.

Á sama tíma og ég græt yfir því að þú sért farin frá okkur er ég svo þakklát fyrir það að börnin mín hafi fengið að kynnast þér. Þú varst þeim svo góð og þeim þótti alltaf jafn gaman að koma til ykkar afa á Norðurbakkann.

Takk fyrir allt,

Thelma.

Elsku amma, það er komið að kveðjustund.

Þrautseigja þín, gleði og umhyggja mun lifa áfram í hjarta mér, ásamt öllum góðu sögustundunum og hlátrasköllunum við eldhúsborðið, leyndarmálinu við pönnukökubaksturinn, skötuboðunum á Þorláksmessu, glæsilegu nýársboðunum og öllum hinum verðmætu minningunum sem ég á með þér.

Ég sendi nú með þér ljóðið sem við sömdum saman sumarið þegar ég var átta ára og sendum inn í Morgunblaðið:

Sumarið

Sumarið er komið og sólin fer að skína.

Gróðurinn að grænka og fuglar hefja söng.

Gaman er að lifa, leika og vera saman,

ærslast og vera úti um sumarkvöldin löng.

(Íris og amma Anna)

Hvíldu í friði.

Íris Ásmundardóttir.