— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hver er kveikjan og hugmyndin að baki sýningunni? Það er í raun að það séu 20 ár að baki í þessu brölti, í grínheimum. Ég fann bara eftir því sem þetta nálgaðist að mig langaði að gera eitthvað úr þessu.
Hver er kveikjan og hugmyndin að baki sýningunni?

Það er í raun að það séu 20 ár að baki í þessu brölti, í grínheimum. Ég fann bara eftir því sem þetta nálgaðist að mig langaði að gera eitthvað úr þessu. Það var aldrei neitt annað sem kom til greina en einhvers konar sýning. Þegar ég spáði meira í það fannst mér góð hugmynd að horfa til baka, rifja upp, spá og kryfja. Hvernig kom hitt og þetta til og hvernig gerðist það? Hvernig fæðast sumar af þessum hugmyndum sem maður tekur þátt í? Það er líka svo margt sem gerist að tjaldabaki sem er gaman að segja frá. Í uppistandi, veislustjórn og öllum þessum þáttum sem ég hef komið að. Það er í rauninni þannig að maður nær ekki að komast yfir þetta allt. Listinn er endalaus af uppákomum og kjaftæði sem ég þarf að koma frá mér.

Hvernig verður stemningin, verður grín og glens?

Það verður náttúrulega grín og glens en að sama skapi bara sögustund. Þetta eru hlutir sem ég hef orðið vitni að. Ég er að reyna að koma fólki á staðinn. Ef ég næ því væri það geggjað. En þetta er ekkert uppgjör, bara létt og skemmtilegt.

Þú ferð yfir uppruna nokkurra landsþekktra karaktera,

ekki satt?

Jú, uppruna þeirra og hvernig þeir urðu til. Mikið af þessu varð til í útvarpi, maður hefur verið að hringja endalaust hingað og þangað sem einhverjir skrítnir karlar og svona. Sumir karakterar hafa fylgt mér lengur en aðrir. Sumir urðu til áður en ég varð fyndnasti maður Íslands 1999. Maður hefur verið í tómu rugli alla ævi, ef ég á að vera hreinskilinn. Alltaf eitthvert grín.

Er eitthvað annað á döfinni hjá þér?

Nei, í rauninni ekki. Þetta er búið að eiga hug minn og hjarta og mun gera þar til ég skila þessu af mér. Það er ýmislegt í farvatninu sem er í salti þar til ég verð búinn með þetta. Ég er einfaldur af því leytinu til að ég næ ekki að einbeita mér að of mörgu í einu. Ég er of gamall maður. Ég geri eitt vel frekar en margt illa.

20 ár eru liðin frá því Pétur Jóhann Sigfússon varð fyndnasti maður Íslands. Af því tilefni fer hann yfir ferilinn og rifjar upp skemmtileg atvik og uppákomur á uppistandssýningu í Hörpu 9. og 23. nóvember. Miðar fást á tix.is.