Einar Ármannsson fæddist 16. maí 1953. Hann lést 17. september 2019.

Einar var jarðsunginn 4. október 2019.

Í dag kveðjum við Einar Ármannsson, sem varð bráðkvaddur langt um aldur fram.

Leiðir okkar Einars lágu saman er hann byrjaði að gera hosur sínar grænar fyrir Ásdísi systur minni. Hann birtist reyndar ekki á grænum hosum, heldur á rauðum Saab og það fór ekki á milli mála er hann mætti fyrir utan B-götu 3, tvígengisvélin í Sabinum sá til þess að hann þurfti ekki að flauta til að láta Ásdísi vita að hann væri mættur. Og síðan hurfu þau á brott í reykjarmekki malargötunnar. En fljótlega rann upp sú stund að meiri alvara var komin í þeirra samband og nú var Sabinum lagt fyrir utan og Einar tók skrefið inn fyrir þröskuldinn á B-götu 3 og í 45 ár fetuðu þau sömu leiðina. Þau voru samhent og dugleg að skapa gott heimili, reistu sér hús í Básahrauni 9 og allmörgum árum síðar byggðu þau stærra hús í Básahrauni 3. Fljótlega er þau hófu búskap fæddist þeirra fyrsta barn, Una Björg, nokkrum árum síðar fæddist Ármann og allmörgum árum síðar kom Emil Karel í heiminn. Öll börnin hafa reynst mikið dugnaðar- og mannkostafólk, sem hefur gengið vel í námi, starfi og í einkalífi.

Er þau Ásdís kynntust var Einar að hefja sinn sjómannsferil sem háseti. Leið hans lá síðan í Stýrimannaskólann og var hann æ síðan stýrimaður og skipstjóri. Einar var lengi stýrimaður og afleysingaskipstjóri hjá Jóa Alfreðs, Erlingi Ævari og Denna. Hann var einnig skipstjóri á Skálafelli um tíma. Einar var góður sjómaður, athugull, verklaginn, duglegur og með mikla samskiptafærni. Sjómannsferill Einars spannaði 34 ár og hafa ófáir sennilega róið jafn lengi úr Höfninni eins og hann. Er Einar kom í land hóf hann störf hjá Lýsi og þar líkaði honum vel að vinna, var ánægður með starfið, samstarfsfélaga og stjórnendur.

Einn var sá staður sem var honum kærastur, en það var Hamar 3, jörð fjölskyldunnar. Hvergi leið Einari betur en þar. Hann nefndi það oft hvílík forréttindi og ríkidæmi það væri að eiga slíkan stað, til að hvíla lúin bein og gleðjast með sínu fólki.

Einar var einstakur félagi, hann var vel heima í mörgu, minnugur á menn og málefni og hafði gaman af að ræða landsmálin – kratahugsjón hans hvarf aldrei, þó svo að hún hafi gefið eftir í þeim stjórnmálaflokkum sem tóku við af gamla Alþýðuflokknum – hans kratahjarta spilltist aldrei.

Einar var dagfarsprúður maður, lagði gott til allra og var drengur góður.

Þegar boðið var upp á drykk sagði Einar gjarnan: „bara lítið.“ Þessi orð lifa og Einar mun ávallt vera með okkur og er við hellum í glas og skálum munum við segja: „bara lítið.“

Blessuð sé minning Einars Ármannssonar.

Þorsteinn Garðarsson.

Minningar eru svo dýrmætar, þess vegna leitar hugurinn í þær þegar eitthvað dynur á í lífinu eins og núna þegar við kveðjum Einar.

Engjavegur 3, indíánatjald úti í garði, bogi og örvarnar sem maður fékk ekki að snerta en höfðu gríðarlegt aðdráttarafl. Unglingsárin, Ásdís kemur inn í fjölskylduna, börnin koma eitt af öðru, heimsókn til okkar í Odense, fiskur og humar frá Einari frænda sem var besti matur í heimi, afmæli og veislur í Þorlákshöfn þar sem Ásdís töfraði fram veislurétti eins og henni er einni lagið. Seinni árin höfum við svo hist reglulega öll systkinin og afkomendur og passað upp á það að hlúa að fjölskylduböndunum hjá okkur sem er svo dýrmætt, hefur Laufey sérstaklega passað upp á það þegar hún kemur til landsins.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra. Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Ásdís, Una Björg, Ármann, Emil Karel og fjölskyldur innilegar samúðarkveðjur.

Við kveðjum þig, elsku bróðir, mágur og frændi með þökk fyrir allt.

Freydís, Helgi og fjölskylda.

Það er með miklum trega og söknuði að við vinirnir úr saumaklúbbnum eða Áttunni eins og við köllum gjarnan hópinn okkar sitjum saman og minnumst hans Einars með þessum fátæklegu orðum. En við höfðum verið saman á Tene þar sem Einar lést langt um aldur fram.

Margs er að minnast eftir rösklega 40 ára vináttu. Útileguferðir, til að byrja með í tjöldum þegar börnin okkar voru ung og upp í hjólhýsaferðir seinni árin. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að oft var glatt á hjalla og margt brallað, farið í leiki, sungið og sagðar sögur en þar naut Einar sín vel og sagði skemmtilega frá, hátt og snjallt. Einar kom gjarnan eins og stormsveipur með skemmtilegar athugasemdir og sá spaugilegu hliðarnar á málum. Í þessum góða vinahópi hefur sú hefð skapast að fara í bústað í aðdraganda jóla og föndra eitthvert jóladót ásamt ýmislegri annarri iðju og þarf ekki að fara mörgum orðum um að Einar var hrókur alls fagnaðar eins og honum einum var lagið.

En eins og áður sagði var hópurinn að fagna 40 ára afmæli saumaklúbbsins á Tene þar sem Einar lést.

Elsku Einar, þín mun verða sárt saknað og tómlegt verður þar sem þín nýtur ekki við. Takk fyrir samverustundirnar, þær hefðu átt að vera miklu fleiri.

Elsku Ásdís, Una Björg, Ármann, Emil Karel og aðrir aðstandendur. Okkar innilegustu samúðarkveðjur

Gunnar, Valgerður, Sigurður, Jónína, Jón Davíð og Rut.