Heiðar Kristjánsson fæddist 26. janúar 1939 á Hæli í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann lést 23. september á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Blönduósi.

Foreldrar Heiðars voru Þorbjörg Björnsdóttir, f. 27. febrúar 1908, d. 30. september 2001, og Kristján Benediktsson, bóndi á Hæli, f. 2. mars 1901, d. 28. júní 1977.

Systkini Heiðars: Elísabet Jóna Kristjánsdóttir, verkakona og húsmóðir í Reykjavík, f. 3. júní 1931, gift Jósef Jónassyni húsasmið, f. 5. október 1930. Sigrún Kristín Kristjánsdóttir, verkakona og húsmóðir á Akureyri, f. 30. maí 1937, d. 3. janúar 1988, gift Jóni Hólmgeirssyni húsgagnasmið, f. 15. apríl 1935. Ingibjörg Kristjánsdóttir, verkakona og húsmóðir á Blönduósi, f. 26. júní 1942, gift Þóri Heiðmari Jóhannssyni bílstjóra, f. 23. desember 1941, d. 9. febrúar 2010.

Hinn 30. desember 1965 kvæntist Heiðar Kristínu Jónsdóttur vefnaðarkennara, f. 1. desember 1939. Foreldrar Kristínar voru Jón Böðvarsson, bóndi í Grafardal, f. 5. júní 1901, d. 15. janúar 1963, og Salvör Brandsdóttir, f. 22. febrúar 1905, d. 14. apríl 1951.

Börn Heiðars og Kristínar eru: 1) Bryndís Þorbjörg Heiðarsdóttir, matartæknir í Kópavogi, f. 20. maí 1966. Maður hennar er Axel Gígjar Ásgeirsson sjómaður, f. 18. apríl 1964. Börn þeirra eru Heiðrún Kristín flugfreyja, f. 11. nóvember 1990, Ásgeir Logi, f. 24. mars 1994, og Katrín Ósk, f. 1. október 2000. Sambýlismaður Heiðrúnar Kristínar er Kristófer Fannar Guðmundsson lögfræðingur, f. 16. október 1991, og eiga þau dótturina Dalrós Maren, f. 21. september 2017. 2) Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor á Akureyri, f. 21. febrúar 1968. Kona hans er Jóhanna Hjartardóttir félagsráðgjafi, f. 24. október 1972. Börn þeirra eru Arnór Gjúki, f. 21. september 2000, Þórgunnur Una, f. 13. febrúar 2004, Heiðar Húni, f. 11. apríl 2008, og Kristín Kolka, f. 27. maí 2015. 3) Berglind Salvör Heiðarsdóttir, námsráðgjafi í Reykjavík, f. 29. október 1972. Maður hennar er Borgar Guðjónsson sölufulltrúi, f. 4. desember 1975. Börn þeirra eru Sigríður Erla, f. 27. janúar 2006, og Högni Steinþór, f. 30. október 2011. 4) Kristján Björn Heiðarsson, verkamaður í Kópavogi, f. 4. júlí 1978. Kærasta hans er Ingunn Þorkelsdóttir heilbrigðisgagnafræðingur, f. 4. júlí 1979. Dóttir Kristjáns og Nönnu Vilhelmsdóttur, f. 15. ágúst 1976, er Ingunn Dýrleif, f. 7. júní 2012. Börn Nönnu frá fyrra hjónabandi eru Úlfhildur Stefanía Jónsdóttir, f. 23. maí 2006, og Vilhelm Bjarnar Jónsson, f. 8. júní 2010.

Heiðar nam seinni hluta vetrar við Bændaskólann á Hólum 1958. Hann tók við búskap á Hæli og bjó þar stóru fjárbúi til 2002 er hann og Kristín settust að á Blönduósi. Heiðar starfaði við skólaakstur og akstur á sláturfé meðfram bústörfum. Eftir búskap stundaði hann einnig rútuakstur um skeið. Hann söng í karlakórnum Vökumönnum á yngri árum og síðar samkórnum Björk og kirkjukórum Blönduóskirkju og Þingeyrarkirkju.

Útför Heiðars fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 5. október 2019, klukkan 14.

Elsku afi minn. Nú er komið að því sem ég hef kviðið fyrir í mörg ár. Síðan ég var lítil stelpa hef ég oft hugsað um það að einn daginn yrði komið að kveðjustund, sem nú er orðið að veruleika.

Allar minningarnar úr sveitinni á Hæli hellast yfir mig. Ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera jafn mikið í sveit og ég var sem barn, verandi borgarbarn. Allar ferðirnar norður þar sem ég sat óþolinmóð í aftursætinu og spurði aftur og aftur hvort við værum nú ekki að verða komin!

Betri og meiri bónda en þig er erfitt að finna, en þú varst alltaf farinn út að vinna þegar ég vaknaði. Ég man að oft sat ég úti í glugga og fylgdist með þér koma inn í kaffi, því eftir kaffi gat ég farið með þér út í fjárhús. Hvort sem það var að hoppa í drullupollum úti á hlaði, hjálpa þér við að gefa eða leika mér í stóra heyfjallinu inni í hlöðu, þá var alltaf gaman. Toppurinn var svo þegar ég fékk að fara með þér í dráttarvélina. Við keyrðum hring eftir hring, þú sagðir mér margar skemmtilegar sögur og við spjölluðum um hitt og þetta, en alltaf þurfti að gera hlé og hafa alveg þögn þegar komu fréttir. Ætli ég hafi það ekki frá þér að vilja helst alltaf hlusta á fréttir og vita hvað er að gerast í samfélaginu.

Auðkúluréttir voru svo fastur liður öll haust, amma smurði þá heilu kæliboxin af samlokum og setti heitt kaffi í brúsa. Svo sat maður drullugur upp fyrir haus með samlokuna sína og fylgdist með öllu. Stundum fékk ég svo að koma með þér í stóra kindabílinn sem flutti kindurnar á túnin við Hæli.

Þú varst mikill dýravinur og komst alltaf fram við dýrin af mikilli virðingu. Ég man eftir einu skipti sem þú hefur skammað mig og það var vegna þess að ég var að stríða kind, það fannst þér ekki sniðugt og fékk ég tiltal fyrir vikið. Þú þekktir hverja einustu kind og hjálpaðir mér alltaf reglulega að finna mína, en ég átti mína kind sem bar nafnið Heiðrún.

Árin liðu og þú og amma eltust, Hæli selt árið 2002 og fannst mér það mjög leiðinlegt og erfitt. Ég labbaði í hvert einasta herbergi og átti þar smá kveðjustund og man enn vel eftir því þegar ég keyrði frá Hæli í síðasta sinn.

Þú varst alltaf svo stoltur af því að vera afi minn og ég skynjaði alltaf þá væntumþykju sem þú barst til mín þegar þú faðmaðir mig að þér og bættir því svo alltaf við að ég yrði nú alltaf fyrsta afastelpan þín.

Árið 2017 var svo komið að því að gera þig af langafa. Dalrós Maren, litla langafastelpan þín, var svo skírð á afmælisdaginn minn sama ár. Ég gleymi því ekki þegar ég labbaði að altarinu með Dalrós í fanginu og kirkjan full af fólki.

Það fyrsta sem ég sá varst þú grátandi, og auðvitað gat ég ekki haldið aftur af tárunum þannig að ég fór að gráta líka. Eftir skírnina komstu svo til mín og sagðir hversu stoltur þú værir að vera orðinn langafi.

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og bara ef ég gæti upplifað einn dag í sveitinni á Hæli með þér aftur, en það bíður betri tíma.

Þínar fyrstu afa- og langafastelpur,

Heiðrún Kristín

og Dalrós Maren.

Elsku afi minn, núna ertu kominn til himna þar sem þú hvílist. Það verður mjög skrítið að koma við á Blönduósi hjá ömmu og þú verður ekki þar. Ég man þegar ég var lítil og ég, mamma, pabbi, stundum Ásgeir og Heiðrún komum í helgarferð norður í heimsókn og ófáar heimsóknirnar enduðu með gráti í mér um að vilja ekki fara heim, heldur vera áfram hjá ömmu og afa á Blönduósi. Oft fékk ég að vera áfram og það var sko ekki leiðinlegt! Ég sat inni með ömmu að spila lönguvitleysu meðan þú fórst á kóræfingar, að skutla, vinna í bílunum þínum og endalaust er hægt að telja áfram. Að sitja lengi og gera ekki neitt var ekki til í orðabókinni þinni. Oft fór ég með þér út í bílskúr og fékk ég að negla nagla í spýtu, sem var algjört sport.

Þegar þú sast inni á skrifstofu gat ég setið tímunum saman hjá þér og spjallað um lífið og tilveruna. Það var alltaf nóg af klinki inni á skrifstofu sem ég fékk að sjálfsögðu að eiga og kaupa mér nammi fyrir. Bílferðirnar með þér voru margar og skemmtilegar. Ég man allra helst eftir þeirri þegar þú varst að kenna mér að maður ætti að segja bless en ekki bæ. Ég lék mér að því að segja bæ og þú stoppaðir bílinn þangað til ég leiðrétti mig og sagði bless, svo var mikið hlegið. Það var líka mjög gaman þegar ég fékk að koma með þér að keyra skólabílinn.

Eftir því sem árin liðu og þú varst greindur með krabbamein fór persónuleiki þinn að breytast mikið en eitt breyttist aldrei og það var þegar við hittumst kom alltaf bros á vör, kysst á kinnina og þú sagðir: „Hvað segir litla afastelpan mín?“ Hversu gömul sem ég varð var ég alltaf litla afastelpan þín.

Nema í síðasta skipti sem ég sá þig kom ekkert bros eða neitt og þá vissi ég að eitthvað mikið væri að. Þú tókst ekki annað í mál en að sigra krabbann, sem var raunin í öll þrjú skiptin.

Elsku afi minn, takk fyrir allt og að vilja gera allt fyrir okkur öll.

Sjáumst síðar.

Þín afastelpa,

Katrín Ósk.

Kæri vinur! Aðeins nokkur orð til að þakka fyrir góða vináttu og velvilja í minn garð á liðnum árum. Það var gott að vinna hjá þér, þú varst góður húsbóndi og alltaf tilbúinn að rétta manni hjálparhönd.

Fjölskyldu Heiðars votta ég innilega samúð og bið Guð að blessa minningu Heiðars Kristjánssonar.

Hávarður (Hávi).

Fallinn er nú frá Heiðar bóndi frá Hæli, faðir minn. Þvílíkur ástríðubóndi var hann í sinni búskapartíð að annað eins hefur varla sést. Fæddur rétt fyrir seinni heimsstyrjöld í janúar 1939, í fátæku landi undir danskri krúnu. Á tímum þar sem hjónaskilnaðir tíðkuðust ekki hjá óhamingjusömum hjónum eins og foreldrum hans, á tímum þar sem var ekkert rafmagn, varla vegir og örfáir bílar.

Hann var sex ára þegar heimsstyrjöldinni lauk og hafði þá líklega þegar verið innprentað að hann yrði næsti bóndi á Hæli. En Ísland var ekki lengur fátækt land undir erlendum kóngi.

Hann átti erfitt samband við föður sinn. Þar mættust ósættanleg sjónarmið gamla tímans og unga framfarasinnans sem þoldi ekki hokur fortíðarinnar. Þar fór sýn mannsins sem vildi fara varlega og skulda engum neitt gegn æskuþrótti uppbyggingarsinnans sem gat ekki hugsað sér neitt annað en að eignast bíl, taka lán, byggja upp og láta aukna framleiðslu með ráðdeild greiða lánin til baka. Uppbygging eða dauði. Rétt skriðinn yfir tvítugt byrjar hann að byggja upp jörðina sem var nánast húsalaus fyrir utan íbúðarhús sem hafði verið stækkað 1954 og hann teiknað þá 15 ára gamall. Fyrst var byggð hlaða 1960, svo fjós síðan fjárhús með hlöðu. Eldri mennirnir í sveitinni höfðu í fyrstu pískrað að þetta myndi allt fara á hausinn hjá þessum strák á Hæli. Áfram hélt uppbygging, íbúðarhús, vélaskemma og önnur hlaða 1975. Þá var sauðfjárbúið á Hæli orðið eitt það stærsta á landinu þrátt fyrir að Hæli væri alls ekki hentug jörð fyrir sauðfjárbú. Hæli er frábær jörð fyrir kúabú. En hann vildi ekki kýr, hann elskaði íslensku kindina. Þrátt fyrir fjölda fjár þekkti hann samt hverja kind sem hann átti með númeri eins og við þekkjum fólk með nafni. Ég veit, þið trúið þessu aldrei.

En þessi búskaparástríða hafði einnig neikvæðar hliðar. Eiginlega aldrei var rými til þess að gera nokkuð skemmtilegt með fjölskyldunni, búskapurinn var framar öllu. Hann þurfti alltaf að gera eitthvað, vinna. Það eina sem virtist geta trompað búskapinn var ef það komu gestir. Hann var alltaf félagslyndur. Hann var ekki að stinga upp á því að eyða ágóða af vel reknu búi í óþarfa svo sem ferðalag eða utanlandsferð, hvað þá skitið vídeótæki eins og allir áttu. Eitt var þó öruggt, aldrei yrðu fjárhagserfiðleikar á heimilinu.

Ég sá strax sem ungur drengur að þetta var ekki lífið sem ég vildi. Ég ætlaði aldrei að verða bóndi og þræla alla daga, alltaf að vinna eitthvað, geta aldrei farið neitt út af heyskap. Nei takk. Sorglegt? Jú, kannski, en dæmigerð saga íslenskra sveita um þær mundir á sama hátt og uppbygging hans var saga hans kynslóðar sem byggði Ísland upp frá grunni eftir seinna stríð.

En nú er hann farinn. Farinn úr heimi sem er óþekkjanlegur frá þeim sem hann fæddist í. Eftir stend ég, afsprengi hans og hvað geri ég? Er alltaf að hugsa um uppbyggingu í byggðum landsins. Prédika ráðdeild. Þarf líka alltaf að vera að gera eitthvað, vinna eitthvað.

Pabbi, ég skil þig aðeins betur núna, takk fyrir samfylgdina og öryggið sem þú veittir mér.

Jón Þorvaldur Heiðarsson.