Rúmlega sjötug kona hefur verið dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Dómurinn var kveðinn upp í maí sl. en birtur á vef dómstólanna í gær. Konan, sem búsett er á Akranesi, stakk tengdason sinn með hnífi í nóvember í fyrra.

Rúmlega sjötug kona hefur verið dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Dómurinn var kveðinn upp í maí sl. en birtur á vef dómstólanna í gær. Konan, sem búsett er á Akranesi, stakk tengdason sinn með hnífi í nóvember í fyrra.

Konan var á heimili dóttur sinnar og tengdasonar á Akranesi þegar atvikið átti sér stað, en þar var hún að passa barnabarn sitt umrætt kvöld. Eftir að maðurinn kom heim átti konan í útistöðum við hann áður en hann fór að sofa. Maðurinn vaknaði svo við konuna í svefnherberginu þar sem hún var með hníf í hendi. Þegar hann gerði svo tilraun til að koma henni út úr herberginu réðst hún að honum með þeim afleiðingum að hann hlaut fjögurra sentimetra stungusár hægra megin á brjóstkassa. Fram kom fyrir dómi að mjög hefði blætt úr sárinu.

Í vottorði læknis kemur fram að árásin hafi verið lífshættuleg og var það einungis heppni að hnífurinn gekk niður á rif og rann eftir rifjunum utan við brjóstholið. Er það mat læknisins að hnífurinn hefði auðveldlega getað farið milli rifja og inn í brjósthol. Slíkt hefði haft í för með sér mun alvarlegri áverka.

Fyrir dómi neitaði konan að hafa stungið manninn og sagði líklegast að hann hefði gengið á hnífinn. Dómurinn tók hins vegar ekki undir þá afstöðu konunnar og sagði framburð hennar „fjarstæðukenndan“ og að engin rök styddu frásögn hennar. Þá hafði konan drukkið áður en árásin átti sér stað og mældist með 1,94 prómill í blóðinu við skoðun. Dómnum hefur verið áfrýjað.