Jófríður Guðmundsdóttir, Fríða, fæddist 3. september 1966. Hún lést 19. september 2019.

Úför Fríðu fór fram 2. október 2019.

Við vorum saman í heimavistarskóla á Varmalandi í Borgarfirði. Fríða frá Bjarnastöðum og við undirritaðar.Við deildum herbergjum og stundum rúmum saman í átta ár. Oftast vorum við fimm saman í hverju herbergi en stundum sex og stundum fjórar. Nábýlið var mikið þannig að við kynntumst vel og væntumþykja hverrar í garð annarrar óx í gegnum árin, væntumþykja sem hvorki tími né fjarlægðir hafa bitið á.

Fríða var rólega, glaðlynda týpan í hópnum sem öllum lynti við enda hafði hún einstaklega sterka og hlýja nærveru og kom eins vel fram við alla. Hún var duglegur nemandi og tók þeim verkefnum sem borin voru á borð fyrir hana með ró og af öryggi.

Færni hennar í handavinnu og heimilisfræði var eftirtektarverð þá eins og nú. Hún galdraði fram dýrindis krásir jafnt fyrir fámenna sem stóra hópa á röskan en alúðlegan hátt, það var Fríða, og það eru ófáir sem njóta þess að nota hitapokana og augnhvílurnar sem hún framleiddi núna seinni ár undir merkjum Fríðu fínerí.

Í Varmalandi var ýmislegt brallað á kvöldin og var Fríða alltaf til í sprell og skemmtilegheit. Hún var líka hrókur alls fagnaðar þegar haldnar voru veislur á herbergjunum á fimmtudagskvöldum enda lumaði hún alltaf á besta góðgætinu. Því deildi hún með okkur hinum af þeim höfðingsskap sem einkenndi hana alla tíð.

Íþróttir voru mikilvægur hluti af tómstundunum þar. Fríða var liðtæk í flestum greinum en þegar keppt var í boltakasti hafði enginn roð við henni og allir vildu hafa hana í sínu liði þegar farið var í brennibolta. Skottæknin sást líka vel í handbolta og sýndi hún þar atvinnumannatakta.

Þegar við vorum litlar var vinnan við búskapinn partur af lífi okkar allra. En Fríða vann ekki bara við sveitastörf heldur var rekin hestaleiga heima hjá henni – eitthvað sem okkur þótti afar spennandi og framandi.

Fríða var alltaf vinnuþjarkur og leið best þegar hún hafði nóg verklegt fyrir stafni. Ein af síðustu fésbókarfærslunum hennar þar sem hún, núna í september, stendur með pensil í hönd að mála uppi í sumarbústað ber þessa best merki.

Samvera okkar bekkjarsystra hefur minnkað með árunum en þökk sé fésbókinni þá höfum við getað fylgst hver með annarri þó nálægðin sé þá á annan veg. Þar hafa færslur frá Fríðu ekki síst skipt okkur máli. Við vissum að hún hafði fengið stærra verkefni í lífinu en flestar okkar hinna en sáum að hún var söm við sig og tókst á við það með þrautseigju og dugnaði. Aldrei lét hún deigan síga heldur hélt áfram að lifa lífinu lifandi með bjartsýnina og jákvæðnina að vopni.

Að hitta hana var líka alltaf jafn notalegt og fór maður endurnærður heim af þeim fundum ekki síst ef farið var til hennar upp í sumarbústaðinn, unaðsreitinn hennar og Davíðs.

Við kveðjum Fríðu með söknuði en einnig þökk fyrir allt það sem hún kenndi okkur í lífinu. Um leið sendum við okkar dýpstu samúðarkveðju til Davíðs, Huldu og systra hennar Dísu, Hrafnhildar og Hrefnu.

Bekkjarsystur úr barnaskólanum á Varmalandi,

Sesselja (Setta), Guðrún, María, Ingveldur Herdís (Inga Dísa), Ingigerður Guðrún (Inga Gunna), Helle, Ebba, Erla Björk, Sigríður (Sirrý), Ragnheiður og Þuríður.

Það var mikill missir og sorg hjá Kvennakór Kópavogs þegar fréttir bárust af fráfalli Fríðu okkar. Það vita þær konur sem hafa verið í kvennakór að sá félagsskapur er einstaklega gefandi og fallegur. Það er eitthvað við sönginn sem tengir okkur svo sterkum böndum og þar myndast vinkvennatengsl sem vara jafnvel um lífstíð.

KveKó datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar Fríða ákvað að ganga til liðs við kórinn árið 2007. Það gustaði svo sannarlega um þessa kröftugu konu því strax ári síðar hafði hún tekið við stöðu gjaldkera kórsins og sinnti því starfi af kostgæfni. Það sama ár fagnaði kórinn fimm ára afmæli og gerði Fríða sér lítið fyrir og samdi hinn bráðskemmtilega texta „Saman við stöndum“ við lag þáverandi kórstjóra, þar sem gleði kórkvenna KveKó er reifuð á snilldarlegan hátt. Textasmíðum hennar var þó engan veginn lokið því hún samdi einnig yndislega fallegan texta við franska lagið L'hymne à l'amour sem hún tileinkaði þáverandi kærasta og síðar eiginmanni sínum, honum Davíð.

Þrátt fyrir að glíma við erfið veikindi virtist ekkert verkefni of stórt fyrir Fríðu. Hún tók að sér formennsku kórsins í tvígang og þess á milli var hún bæði meðstjórnandi og ötul í nefndarstörfum. Hún var fulltrúi KveKó í Gígjunni, landssambandi íslenskra kvennakóra, á árunum 2008-2010 og átti stóran þátt í að móta starf kórsins eins og hann er í dag. Hún var einnig ein af þeim driffjöðrum kórsins sem komu á fót jólasöng í Ljósinu sem og Hönd í hönd, árlegum góðgerðartónleikum kórsins. Hjarta KveKó slær í takt við þær konur sem skipa kórinn hverju sinni og væri kórinn ekki það sem hann er í dag nema vegna kvenna eins og Fríðu. Hún var ekki aðeins kórsystir heldur góður félagi sem ávallt hafði ráð undir rifi hverju og var óspör að deila dásemdar uppskriftum til okkar hinna. Það er sárt að kveðja en við kórsystur hennar erum þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast Fríðu og munum minnast þeirra góðu stunda sem við áttum saman. Fjölskyldu hennar og vinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Kvennakórs Kópavogs,

Sigurlaug Kristjánsdóttir.

Við kölluðum okkur Skellurnar – það var smá einkahúmor. Gátum hlegið saman svo undir tók í fjöllunum, brussast í gegnum alls kyns ævintýri og bullað saman inn í nóttina þegar eðlilegt fólk var farið að sofa fyrir löngu. Við sátum í heita pottinum um vorkvöld með Dakiri (kunnum aldrei almennilega nafnið) og andlitsmaska og pissuðum næstum í pottinn því við vorum svo fyndnar.

Fríða kom blaðskellandi inn í líf okkar þegar hún byrjaði í Kvennakór Kópavogs veturinn 2007 og áður en við var litið var hún komin í stjórn og orðin aðalskipuleggjandi ferðar kórsins til Búdapest, búin að kaupa vasapela fyrir ungverskan undirleikara kórsins, sem hún hafði aldrei séð og sjarmera ungverskan leigubílstjóra til þess að sækja og skutla hópnum. Þessari konu urðum við að kynnast nánar!

Sem betur fer vildi hún vera með okkur – og margt var brallað í kórnum.

Má þar nefna kórferðalög, partí og æfingabúðir með tilheyrandi búningavafstri. Allir búningar voru heimagerðir og minnisstæðast er þegar við vorum þrjár saman í herbergi, við tvær sem portkonur og Fríða sem indíánahöfðinginn Aldeilis Hissa.

Vinskapur okkar þéttist svo utan kórsins og við kynntumst henni betur.

Við stofnuðum fimm kvenna föndurhóp, Föndurfljóðin, þar sem var heilmikið föndrað – og kannski líka svolítið borðað af nammi.

Fríða var óþrjótandi uppspretta hugmynda og þegar ráðist var í verkefnin voru sumir fljótari en aðrir að klára. Fríða var stundum búin með verkefnið heima og kom með það til að sýna okkur. Jólaföndrið var að sjálfsögðu tekið með stæl. Konfekt og sælgætisgerð.

Eldhúsið hennar Fríðu undirlagt svo góssið var sett út til kælingar og hundurinn sleikti það allt.

„Hvíldarinnlögn í Hvítársíðu“ var árlegur viðburður í bústaðnum hennar Fríðu, með og án góðra vinkvenna. Markmiðið var að slaka á, næra sig og njóta.

Við prjónuðum þar við kertaljós og kjöftuðum svo mikið að við röktum allt mynstrið upp daginn eftir! Inni á milli hlátursroka gátum við heilmikið talað um verkefnin í lífinu og okkur þótti öllum svo vænt um trúnaðinn sem við gátum sýnt hver annarri. Við erum þakklátar fyrir að Fríða vissi hvað okkur þótti vænt um hana og við vissum hve henni þótti vænt um okkur.

Fríða sagði svo oft: „það má“ ... eða „það má líka“ og það lýsir kannski best hversu opin og jákvæð hún var, fordómalaus og kom til dyranna eins og hún var klædd. Hún vildi öllum vel og var ekki að velta sér upp úr vanköntum annarra, úrræðagóð, hugmyndarík, lausnamiðuð og góðhjörtuð.

Við syrgjum því kæra vinkonu sem kenndi okkur svo ótal margt. Þrátt fyrir veikindi sín í næstum 20 ár kvartaði hún ekki, setti orku sína í að lifa lífinu lifandi og horfa á það gjöfula í lífinu. Við vitum að Fríða hefði viljað að þessi lífsviðhorf hennar myndu lifa áfram og við trúum því að Davíð og Hulda Rún muni halda þeim á lofti – það munum við reyna að gera líka.

Hvíl í friði, elsku vinkona, og við stólum á að einn daginn munum við Skellurnar aftur bræða úr blandaranum við að gera okkur Darikiri og hlæja svo hátt að undir taki í himninum.

Gunnhildur Gísladóttir og Sigríður Tryggvadóttir (Gunnhildur og Sigga).