Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Meðferðartími mála hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála styttist smám saman. Hann er þó enn um níu mánuðir.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Meðferðartími mála hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála styttist smám saman. Hann er þó enn um níu mánuðir. Formaður nefndarinnar vonast til þess að snemma á næsta ári verði málsmeðferðartíminn kominn niður í sex mánuði.

Á þriðja fjórðungi þessa árs bárust nefndinni 53 kærur sem er heldur meira en barst samtals fyrstu sex mánuði ársins. Á vef nefndarinnar kemur fram að vegna aukningarinnar séu líkur á því að kærumál ársins í heild verði heldur fleiri en meðaltal áranna 2012-2015. Samkvæmt því verða kærurnar að minnsta kosti 160 talsins sem er aðeins meira en síðustu tvö ár og gæti fjöldinn farið hátt í það sem nefndin þurfti að fást við á árinu 2016 sem var metár í sögu hennar.

Meðalmálsmeðferðartími mála sem nefndin afgreiddi á þriðja ársfjórðungi var sjö og hálfur mánuður og þegar litið er til fyrstu þriggja fjórðunga ársins sést að hann hefur verið tæpir níu mánuðir. Hefur málsmeðferðartími ekki verið styttri frá árinu 2017. Gert er ráð fyrir að málsmeðferðartími ársins í heild verði ekki meiri en 290 dagar, eða nokkuð á tíunda mánuð.

Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndarinnar og forstöðumaður skrifstofu hennar, segir að gott jafnvægi sé í kærum og meðferðartíma. Skrifstofan sé vel mönnuð sem og nefndin og gera megi ráð fyrir að meðal-meðferðartími haldi áfram að styttast, sérstaklega eftir að lokið sé við kúf af eldri málum. Nú eru 10 starfsmenn á skrifstofu nefndarinnar, þar með taldir formaður og varaformaður nefndarinnar sem þar eru í fullu starfi. Að auki eru sjö nefndarmenn í úrskurðarnefndinni.

Lögboðið er að meðferð mála taki ekki lengri tíma en þrjá mánuði en sex ef mál eru viðamikil. Er þá talið frá þeim tíma sem öll gögn hafa borist nefndinni. Nanna gerir ráð fyrir að við lok fyrsta fjórðungs næsta árs verði mál ekki eldri en sex mánaða. Þá verði hægt að ganga í það verk að flokka þau í almenn mál og viðameiri og ljúka þeim í kjölfarið á þeim tíma sem miðað er við.