Bjöllukórinn Flytur tónlist bæði á opnunarhátíð og á lokatónleikunum.
Bjöllukórinn Flytur tónlist bæði á opnunarhátíð og á lokatónleikunum. — Ljósmyndir/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Listahátíðin List án landamæra er eini vettvangurinn á Íslandi sem einbeitir sér að því að koma list fatlaðra listamanna á framfæri, að undanskildu Safnasafninu fyrir norðan.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Listahátíðin List án landamæra er eini vettvangurinn á Íslandi sem einbeitir sér að því að koma list fatlaðra listamanna á framfæri, að undanskildu Safnasafninu fyrir norðan. Við erum aftarlega á merinni miðað við hin norrænu löndin, þar eru bæði söfn og gallerí sem sýna reglulega verk fatlaðra listamanna. List án landamæra er því gríðarlega mikilvægur vettvangur fyrir fatlaða listamenn á Íslandi. Allur sýnileiki eykur jafnrétti,“ segir Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Listar án landamæra 2019.

„Hátíðin verður sett í Gerðubergi í dag og þar mun Bjöllukórinn koma fram. Gjörningalistamennirnir Kolbeinn Jón Tumason og Sigurður Reynir Ármannsson ætla að flytja gjörning. Flutt verður brot úr nýju sviðsverki, Fegurð í mannlegri sambúð, en það er unnið í samstarfi við ungt fatlað fólk. Forsetafrúin okkar, Eliza Reid, ætlar að opna hátíðina formlega og veita Atla Má Indriðasyni viðurkenningu sem listamanni Listar án landamæra 2019 en hann er með verk á samsýningunni sem verður opnuð í Gerðubergi samhliða opnunarhátíðinni. Einnig verða myndbandsverk sýnd á víð og dreif um húsið,“ segir Ragnheiður og bætir við að verk eftir Atla Má prýði allt markaðsefni fyrir hátíðina.

„Það verður hægt að fá í sérútgáfu í stóru prenti mynd af plakatinu okkar með verki eftir hann. Við gefum líka út lítið hefti með úrvali af myndum af verkum hans, en Atli Már gerir æðislegar skissubækur þar sem hann teiknar sjálfan sig og vini sína sem Drakúla og límir myndirnar síðan saman.“

Gígja og Ísak Óli selja verk sín

Ýmislegt verður í boði á hátíðinni dagana fimmtán sem hún stendur yfir. „Í næstu viku verða aðallega utandagskrárviðburðir, til dæmis opin vinnustofa í Ási, og um næstu helgi verður listaverkamarkaður í Gerðubergi. Þar munu fatlaðir listamenn og handverksfólk selja verk sín, til dæmis Gígja Guðfinna Thoroddsen og Ísak Óli og margir fleiri. Við verðum með ritlistarsmiðju fyrir fatlaða listamenn sem Guðrún Eva Mínervudóttir leiðir í skapandi skrifum og þátttakendur ætla að lesa upp úr verkum sínum á lokatónleikum hátíðarinnar í Gerðubergi laugardaginn 19. okt. Bjöllukórinn sér um tónlistina, en þau eru nýkomin úr tónleikaferð í Noregi og ætla að flytja dagskrá sína þaðan, sambland af íslenskum lögum í þeirra einstöku bjölluútfærslu. Á lokadeginum 20. október verður utandagskrárviðburður í Iðnó með Tjarnarleikhópnum, en hann setur á svið verk eftir Ólaf Hauk Símonarson, Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir.“
Opnunarhátíð Listar án landamæra verður í dag, laugardag 5. október, í Gerðubergi kl. 15-17 og allir eru velkomnir. Hátíðin stendur til 20. okt. og ókeypis er á alla viðburðina.