Hjónakorn Jörundur Ragnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir í hlutverkum sínum sem Benedikt og Þórunn.
Hjónakorn Jörundur Ragnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir í hlutverkum sínum sem Benedikt og Þórunn. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Gamanleikurinn Sex í sveit eftir franska leikskáldið Marc Camoletti verður frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld í leikstjórn Bergs Þór Ingólfssonar.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Gamanleikurinn Sex í sveit eftir franska leikskáldið Marc Camoletti verður frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld í leikstjórn Bergs Þór Ingólfssonar. Verkið fjallar um hjónin Benedikt og Þórunni sem skella sér í bústaðinn hvort með sitt leyndarmálið í farteskinu. Rúm tuttugu ár eru síðan leikritið rataði síðast á svið hjá Borgarleikhúsinu og var í framhaldinu sýnt í um þrjú ár. Því mun vera um vinsælasta gamanleik Leikfélags Reykjavíkur að ræða frá upphafi.

Blaðamaður settist í vikunni niður með Jörundi Ragnarssyni og Sólveigu Guðmundsdóttur sem fara með hlutverk Benedikts og Þórunnar og byrjaði að spyrja hvort það fylgdi því einhver pressa að takast á við svo vinsælt verk. „Mesta pressan felst í því að standast væntingar leikhópsins frá því í denn, en þau ætla að mæta á frumsýningu,“ segir Sólveig og rifjar upp að frammistaða Eddu Björgvinsdóttur í hlutverki Sollu kokks á sínum tíma sé sér enn í fersku minni.

Í góðum höndum hjá Bergi

En hvernig ganga æfingar?

„Ég hef aldrei leikið í svona farsa áður. Þetta er rosalega mikill texti og gríðarlegur hraði sem er krefjandi bæði andlega og líkamlega,“ segir Jörundur. „Ég held að ég hafi aldrei verið jafnþreytt eftir æfingar því þetta er svo krefjandi,“ segir Sólveig. „En þetta gengur vel. Síðustu dagar höfum við fengið áhorfendur á æfingar og þeir virðast skemmta sér vel. Þannig að við erum mjög spennt að frumsýna,“ segir Jörundur. „Nú í lokavikunni er maður kominn á bak og getur farið að þeysa af stað, sem verður gaman,“ segir Sólveig og tekur fram að hún sé ekki aðeins að leika í farsa í fyrsta sinn heldur líka á stóra sviðinu.

„Ég hef því þurft að tileinka mér aðra tækni í textameðferð og raddbeitingu til að láta röddina berast ásamt því að stækka allan leik,“ segir Sólveig og bætir við: „Þó að þetta sé farsi þá er maður líka alltaf að reyna að finna einhvern sannleika í því sem maður er að gera. Leikurinn þarf því að vera stór og skýr, samtímis því sem maður heldur með sínum karakter.“ „Ég er líka í endurmenntun eftir langt hlé frá stóra sviðinu,“ segir Jörundur. „Við erum hér í mjög góðum höndum,“ segir Sólveig og vísar þar til leikstjórans, Bergs Þórs Ingólfssonar.

Ekki vera fáviti

„Við Bergur höfum unnið saman í næstum 20 ár,“ segir Sólveig, en meðal verkefna þeirra eru Horn á höfði og Svartlyng á vegum leikhópsins GRAL. „Bergur kenndi mér líka trúðatækni áður en ég fór út í nám, þannig að við erum búin að þekkjast mjög lengi,“ segir Sólveig. „Ég hef einu sinni áður unnið með honum sem leikstjóra, en það var eins ólíkt þessari sýningu og hugsast getur,“ segir Jörundur og vísar þar til Yfirvofandi eftir Sigtrygg Magnason sem sýnt var í heimahúsi 2007. „En svo höfum við líka leikið saman. Hann er alveg stórkostlegur listamaður,“ segir Jörundur. „Já, hann er frábær. Hann leggur svo mikla rækt við leikarana sína og er alltaf að reyna að draga fram það besta í fólki,“ segir Sólveig. „Hann hefur fullkomið jafnvægi á milli þess að gefa manni frelsi og gagnrýna á blíðan hátt. Öll gagnrýni hans er svo uppbyggileg,“ segir Jörundur.

„Hann treystir manni líka fullkomlega og er alltaf tilbúinn að prófa allar hugmyndir sem maður kemur með. Á sama tíma veit hann alltaf hvað hann vill og er duglegur að velja og hafna. Það er því algjör lúxus að fá að vinna með honum,“ segir Sólveig.

Kunnið þið skýringar á vinsældum verksins?

„Ég hef mikið verið að spá í persónur verksins sem eru allar slæmar fyrirmyndir og alls ekki gott fólk. Við höfum mjög gaman af því að sjá fólk klúðra lífi sínu og sjá hvernig við eigum ekki að gera hlutina,“ segir Jörundur og tekur fram að það skemmti áhorfendum að horfa á fólk reyna eftir fremsti megni að halda ákveðinni lygi gangandi. „Það er svo gott að hlæja,“ segir Sólveig og Jörundur bætir við: „Það er gott að hlæja að fólki sem á það skilið,“ segir Jörundur og tekur fram að líkt og titill verksins gefi til kynna sé verkið einn stór kynlífsfarsi.

En er auðvelt fyrir ykkur að halda með persónum ykkar?

„Það er mjög erfitt að standa með mínum. Hann er mesti skíthæll sem ég hef leikið,“ segir Jörundur og tekur fram að á einhverju plani hafi hann samt samúð með persónunni. „Ég held að manni verði að minnsta kosti að finnast gaman að vera viðkomandi persóna,“ segir Sólveig. „Já, þótt það sé erfitt að standa með þeim siðferðislega. En það er fyndið að fá að vera svona manneskja. Þetta er ágætis áminning fyrir okkur öll um að vera ekki svona – ekki vera fáviti og gera eins og Benedikt,“ segir Jörundur kíminn og bendir á að svo skemmtilega vilji til að hann hafi nýverið fest kaup á listaverkið eftir Bjarna Massa sem innihaldi setninguna „Ekki vera fáviti“ sem kallist glettilega á við hlutverk Benedikts.

Eins og fótboltaleikur

Í ljósi þess hversu lengi gamanleikir ganga iðulega verð ég að spyrja hvernig það leggist í ykkur að sýna þessa sýningu nokkrum sinnum í viku næstu mánuði?

„Ég hlakka til og held að sýningin verði bara betri og betri eftir því sem við sýnum oftar,“ segir Jörundur. „Þetta er líka svo frábær hópur til að vinna með,“ segir Sólveig og tekur fram að hún hafi aðeins einu sinni sýnt sýningu þéttar en Sex í sveit . „Við sýndum Lífið – stórskemmtilegt drullumall úti í Kína samtals 30 sinnum á tveimur vikum. Það er mesta keyrsla sem ég hef upplifað til þessa,“ segir Sólveig.

„Ég er sannfærður um að það verði ógeðslega gaman að sýna þessa sýningu, enda góður andi í hópnum,“ segir Jörundur, en aðrir í leikhópnum eru Haraldur Ari Stefánsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Vala Kristín Eiríksdóttir.

Þetta er auðvitað einvala lið gamanleikara. Lætur keppnisskapið aldrei á sér kræla og þið keppist um hvert ykkar er fyndnast?

„Nei, en þetta er vissulega eins og fótboltaleikur. Stundum þarf maður að gefa boltann til þess að einhver annar geti skorað – og þá vinna allir í liðinu,“ segir Sólveig. „Þetta er nefnilega samvinna og maður er alveg jafn ánægður ef einhver annar skorar fyrir liðið,“ segir Jörundur.