Flatey Í raun heill heimur út af fyrir sig og sviðsmynd úr veröld sem var.
Flatey Í raun heill heimur út af fyrir sig og sviðsmynd úr veröld sem var. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flatey er best í heimi, segir ferðavefur. Sögusvið bókmennta og kvikmynda. Bali, Ibiza, Korsíka, Caprí og Galapagos eru á sama lista. Mont Saint Michel í Frakklandi kemur einnig við sögu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Flatey á Breiðafirði er besta eyja heimsins, að því er fram kemur á lista ferðavefsins Big 7 Travel . Í nýjum pistli á vef þessum er birtur listi yfir eyjar sem eru áhugaverðir viðkomustaðir ferðamanna, en þar er byggt á mati lesenda vefsins, ferðareynslu blaðamanna og fyrri umfjöllun um staðina.

Eins og kvikmyndatökuver

„Á töfrandi hátt er Flatey eins og kvikmyndatökuver. Og er það. Margar kvikmyndir gerast á eyjunni, þar ber hæst Ungfrúna góðu og húsið sem byggð er á smásögu nóbelsskáldsins Halldórs Laxness. Friður eyjarinnar er einstakur, tíminn stendur í stað,“ segir í umfjölluninni. – Raunar sér Flateyjar stað mun víðar. Þar gerist til dæmis sakamálasagan Flateyjargátan eftir Viktor Arnar Ingólfsson og í barnabókinni Flateyjarbréfiunum eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur er eyjan sögusviðið. Víðfræg bók, Síðasta skip suður, eftir Jökul Jakobsson og Baltasar listmálara sem út kom árið 1964, fjallar um Flatey og Breiðafjarðareyjar. Sömu staðir eru til umfjöllunar í Árbók Ferðafélags Íslands 1989. Þá var kvikmyndin Brúðguminn sem Baltasar Kormákur leikstýrði og frumsýnd var árið 2008 tekin upp í Flatey. Sú mynd byggðist aftur á leikriti Antons Tsjekovs, Ívanov .

Sommarøy í þriðja sæti

Næst á eftir Flatey á listanum var Palawan sem er ein Filippseyja og í þriðja sæti Sommarøy í Norður-Noregi. Einnig eru á topp 20-listanum Bali í Indónesíu, spænska sólareyjan Ibiza, hin franska Korsíka í Miðjarðarhafi, Caprí við Ítalíu og neðar á listanum eru svo Galapagos-eyjar sem tilheyra Ekvador. Allir þessir staðir hafa oft verið til frásagnar í fjölmiðlum, ferðabókum og kvikmyndum, enda eru eyjar í eðli sínu áhugaverðar.

Flóð og fjara í Frakklandi

Síðast en ekki síst má nefna Mont Saint Michel er lítil klettótt örfiriseyja í Normandí í Frakklandi. Í kastala miklum á eynni eru þorp og fræg klausturkirkja, en leifar mannvirkja fyrri tíðar ná djúpt niður á þessum stað sem hefur sl. 40 ár verið á heimsminjaskrá UNESCO . Gengt er út í eyjuna af fastalandinu á brú, en afar mikill munur flóðs og fjöru er á þessum stað við Ermarsundið.