Í stíl Björgvin Magnússon klappar þarfasta þjóninum, Dodge Aries-skutbíl, árgerð 1985. Aldurinn er afstæður.
Í stíl Björgvin Magnússon klappar þarfasta þjóninum, Dodge Aries-skutbíl, árgerð 1985. Aldurinn er afstæður. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sumir virðast aldrei eldast og eru stöðugt að. Björgvin Magnússon, fyrrverandi skólastjóri, virðist jafnvel hafa meira að gera eftir því sem árunum fjölgar. „Sem betur fer hef ég alltaf nóg fyrir stafni enda heilsan góð og vinnan heldur í mér lífinu,“ segir hann. „Ég er líka sennilega elsti starfandi skáti í heiminum,“ bætir hann við, en Björgvin hélt upp á 96 ára afmælið með Eddu, dóttur sinni, um liðna helgi.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sumir virðast aldrei eldast og eru stöðugt að. Björgvin Magnússon, fyrrverandi skólastjóri, virðist jafnvel hafa meira að gera eftir því sem árunum fjölgar. „Sem betur fer hef ég alltaf nóg fyrir stafni enda heilsan góð og vinnan heldur í mér lífinu,“ segir hann. „Ég er líka sennilega elsti starfandi skáti í heiminum,“ bætir hann við, en Björgvin hélt upp á 96 ára afmælið með Eddu, dóttur sinni, um liðna helgi.

„Ég þakka fyrir hvern dag,“ heldur Björgvin áfram, en hann fer allra sinna ferða á lítilli Hondu. Síðan er hann með forláta Dodge Aries-skutbíl, árgerð 1985, í bílskúrnum. „Það er sparibíllinn, sem ég hreyfi bara endrum og sinnum, eini bíllinn af þessari gerð á Íslandi í ökufæru standi, að ég held.“

Björgvin vinnur tvo tíma á dag hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, er mættur fyrir klukkan átta á morgnana. „Þetta er gamla viðlagatryggingarfélagið, en nafninu var breytt svo fólk skildi það betur.“ Hann segist gera mest lítið, en sé með eigið skrifborð, færi fólki kaffi og sjái um að allt sé í lagi í eldhúsinu. „Þetta er bara dútl, en ekki fá allir karlar svona tækifæri, því þegar menn eru orðnir sjötugir verða þeir almennt að hætta. Mér var hins vegar boðið að halda áfram og þáði það með þökkum.“ Til nánari skýringar segir hann að eftir að hann hætti sem skólastjóri hafi hann verið fjármálastjóri og umsjónarmaður Þjóðskjalasafnsins. Það hafi verið í sama húsi og viðlagatryggingin og hann verið lánaður þangað. „Ég hef verið hérna síðan.“

Í skátunum í yfir 80 ár

Skátarnir hafa notið krafta Björgvins í yfir 80 ár, en hann var einn af stofnendum skátafélags undir stjórn Jónasar B. Jónassonar, síðar fræðslustjóra Reykjavíkur og skátahöfðingja, í Laugarnesskóla 1938. Hann hefur alla tíð síðan verið virkur í skátastarfinu, í yfir 80 ár, og fer með félögum sínum til að vinna í Gilwell-skála á Úlfljótsvatni á hverjum laugardegi. „Við erum nokkrir karlar yfir sjötugt, gamlir skátar, sem höfum unnið í tíu ár við að taka skálann í gegn,“ segir hann, en skálinn var tekinn í notkun 1943 og til stóð að rífa hann. „Þá ákváðum við að laga hann og við höfum dútlað við það í tíu ár,“ áréttar Björgvin. Bætir við að eldri skátar hittist auk þess einu sinni í mánuði og fái sér súpu og brauð. „Svo förum við í ferðalög saman og ef eitthvað er um að vera á Úlfljótsvatni mætum við þangað.“

Björgvin hefur lengi verið með bíladellu. „Þegar ég var skólastjóri á Jaðri var ég með flottasta jeppa landsins, grænan rússajeppa, sem er enn til og var meðal annars notaður í heimildarmynd um Guðrúnu Helgadóttur. Ég var bílagæi og hef ekki alltaf verið gamall karl, en það þýðir ekkert fyrir mig að keyra austur, því ég dóla bara á 60. Það gengur ekki en það kemur ekki að sök því einn í klíkunni á jeppa og keyrir okkur. Þetta er eins og að vera á rúntinum í gamla daga.“