Víetnam Gulur silkiþráðurinn spunninn af miklu listfengi, en handverkshefðin er afar sterk meðal Víetnama
Víetnam Gulur silkiþráðurinn spunninn af miklu listfengi, en handverkshefðin er afar sterk meðal Víetnama
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Straumur tímans! Álitamál til umfjöllunar og ungt fólk leiðir þróunina. Litadýrð lífsins í Austurlöndum fjær. Í París snýst mylluhjól mannlífsins og austur í Taílandi er lagt á brattann.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Lífið er brattabrekka. Svo sungu Stuðmenn einhverju sinni og nú getur fólk austur í Taílandi gert þau orð að sínum. Í höfuðborginni Bangkok var á dögunum efnt til keppni í tröppuhlaupi í Bangkok sem fjömiðlar kynntu sem mikla áskorun. Sú var líka raunin, því meira en 150 hlauparar mættu galvaskir á svæðið og kepptu um hver yrði fyrstur upp hæstu byggingu borgarinnar sem er 60 hæðir. Þangað upp eru 196 metrar og tröppurnar í stigunum 1.096.

Stefnur og straumar mætast

Frá París, þeirri mögnuðu borg þar sem stefnur og straumar mætast, berst fréttir um merk tímamót. Skemmtistaðurinn Moulin Rouge verður 130 ára á morgun, 6. október, og er þess minnst með ýmsu móti. Um þennan stað, Rauðu mylluna eins og hann heitir upp á íslensku, hafa spunnist miklar sögur, um hann gerðar kvikmyndir og fleira skemmtilegt. Allar frásagnirnar hafa draumkenndan blæ, eins og fleira sem franskt er.

Fjölbreytnin er annars ráðandi í vikuskammti AFP , fréttastofunnar frönsku sem segir fréttir úr víðri veröld. Þaðan barst til dæmis skemmtileg mynd af handverkskonu í Víetnam sem óf silkiþræði af mikilli list. Litadýrðin var ráðandi rétt eins og á hátíð hinsegin fólks sem haldin var í höfuðborginni Hanoi. Frá öðru Asíulandi, Indlandi, berast líka áhugaverðar myndir. Rahul Gandhi, sem lengi hefur verið áhrifamaður innan Congress- flokksins, var íbygginn á svip þegar hann gekk að stórri mynd af sjálfstæðishetjunni, Mahatma Gandhi, en Indverjar minntust þess sl. miðvikudag, 2. okóber, að liðin voru 150 ár frá fæðingu hans.

Föstudagur til framtíðar

Annars eru myndir af fundum og samkomum þar sem krafist er aðgerða vegna hlýnunar andrúmsloftsins mjög áberandi. Þær koma úr öllum heimshornum og sýna ungt baráttufólk krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda. Gleymum því ekki að umbætur og aðgerðir koma oft til vegna krafna unga fólksins; sú hefur verið raunin í mörgum málaflokkum á öllum tímum. Yfirskrift funda vegna loftslagamála að undanförnu er Föstudagur til framtíðar og hafa mannamót þessi tvímælalaust markað skil og aðgerðir gegn hnattrænni hlýnun eru orðnar forgangsmál allra þjóða.