Verkafólk Eitt verka Halldóru Helgadóttur af sýningunni Verkafólk.
Verkafólk Eitt verka Halldóru Helgadóttur af sýningunni Verkafólk.
Það verður líflegt í Listasafninu á Akureyri í dag kl.

Það verður líflegt í Listasafninu á Akureyri í dag kl. 15 þegar fjórar myndlistarsýningar verða opnaðar: Fjölröddun Bjargar Eiríksdóttur, Verkafólk Halldóru Helgadóttur, sýning Knut Eckstein ég hefenganáhuga á nokkrusemerstærraen lífið og samsýningin Síðasta Thule .

„Ég hef verið upptekin af hæfileika okkar til að eiga í samskiptum við umhverfið í gegnum skynjun,“ er haft eftir Björgu í tilkynningu frá safninu. „Skynjunin er ákveðið undur sem opnar umhverfinu leið inn í líkamann. Þannig höfum við möguleika á að hrífast í náttúru og finna fyrir tengingu við hana. Fyrir mér er þessi upplifun eða merkingarbæra reynsla eins og marglaga skynjun eða nokkurs konar pólífónía, þar sem hvert lagið vefst um annað innra með mér,“ segir Björg.

Heiðrar minningu verkafólks

Um sýningu Halldóru segir m.a. að á árunum eftir stríð hafi verið mikill uppgangur í iðnaði á Akureyri og flestir bæjarbúar tengdir verksmiðjunum á Gleráreyrum á einhvern hátt en starfsemi verksmiðjanna lagðist af á tíunda áratugnum og það eina sem eftir stendur af sögu þeirra er að finna á söfnum bæjarins.

„Með því að rýna í gamlar ljósmyndir og færa þær í lítillega breyttri mynd upp á strigann, langar mig að heiðra minningu þess fólks sem áður átti svo stóran þátt í að byggja upp bæinn sem við búum í,“ segir Halldóra m.a. um verk sín.

Knut Eckstein „býður áhorfandanum upp á ákveðinn viðsnúning eða ranghverfu – hvorki meira né minna en skynhrifin, eða áhrifin af risavöxnu, þrívíðu landslagsmálverki sem hægt er að ganga inn í“, eins og segir í tilkynningu.

Þegar komið er inn í rýmið munu áhorfendur ekki sjá neitt kunnuglegt til að styðjast við.

„Á dökkgrænu plasti sem þekur allt gólfið munu ljósgrænar ræmur af plastfilmu virðast fljóta yfir, á meðan efsta lagið – gegnsætt segl – er strekkt yfir allt yfirborðið og tengir þannig þessa krafta sjónrænt saman, samtímis því að skapa upplifun af óendanlegri dýpt,“ segir m.a. um sýninguna.

Nyrsti hluti hins kannaða heims

Á samsýningunni Síðasta Thule eru verk listamanna sem tengjast listrænum hluta International Committee for Christopher Columbus, listamenn frá bæði gamla og nýja heiminum, sem hafa lengi vonast eftir að geta haldið listsýningu á Íslandi.

„Í endurminningum sínum minntist Kristófer Kólumbus á eyjuna Thule og í bréfum Seneca er vitnað til Ultima Thule sem nyrsta hluta hins kannaða heims. Það er því í anda landkönnuðanna sem ítalskir listamenn leggja upp í för til Íslands / Ultima Thule með verk sín, til að taka þátt í sýningunni í Listasafninu á Akureyri og opna þannig leiðina til nyrsta hluta hins nýja heims og síheillandi dulúðar hans,“ segir í tilkynningu.

Við opnun myndlistarsýninganna mun sönghópurinn Arctic Opera flytja tónlist frá endurreisnartímabilinu og Bruno Aloi, formaður ICCC, og Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, flytja erindi.