Irmu Gunnarsdóttur
Irmu Gunnarsdóttur
Eftir Irmu Gunnarsdóttur: "Útboð á listdansnámi á framhaldsskólastigi er fáránleg hugmynd og vona ég innilega að ráðherra afstýri þeim gjörningi."

Kæra Lilja Alfreðsdóttir.

Menntakerfi danslistarinnar í landinu hefur að miklu leyti verið haldið uppi af einkaskólum og hafa frumkvöðlar í íslenskum listdansi lyft grettistaki við að koma listgreininni á þann stað sem hún er í dag. Framþróun og gróska hefur einkennt atvinnuumhverfi danslistarinnar hérlendis á undanförnum árum en þær tengjast jákvæðri skólaþróun og uppbyggingu í skólastarfi listdansskólanna. Árið 2006 leit aðalnámsskrá í listdansi dagsins ljós og þrír af listdansskólum borgarinnar hlutu starfsleyfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem viðurkenndir listdansskólar á framhaldsskólastigi en það eru Danslistarskóli JSB, Klassíski listdansskólinn og Listdansskóli Íslands. Það sama ár stofnaði Listaháskóli Íslands samtímadansbraut á háskólastigi og hefur gróska og atvinnumennska í íslenskri danslist farið mjög vaxandi í kjölfarið.

Fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu með listdansnáminu hefur verið takmarkaður og er mikið misræmi í því hvernig ríkið stendur að uppbyggingu listnáms í landinu.

Í pistli Morgunblaðsins fimmtudaginn 3. október ferð þú, menntamálaráðherra, fögrum orðum um starf tónlistarskólanna í landinu og er það frábært. Við getum sannarlega verið stolt af tónlistarlífinu í landinu og hvernig staðið er að tónlistarkennslu sem er skv. aðalnámsskrá í tónlist.

Listdansskólar hafa lagt sig fram af miklum metnaði við að framfylgja aðalnámsskrá í listdansi fyrir grunn- og framhaldsskólastig á undanförum árum en nú er svo komið að fjárhagslegt þanþol listdansskólanna er hreinlega á þrotum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendir árlega út tilkynningar til listdansskólanna um að til standi að breyta rekstrarfyrirkomulagi námsins til betri vegar en ekkert gerist. Enginn lagarammi hefur verið útbúinn utan um listdansnám skv. aðalnámsskrá líkt og til er um aðrar listgreinar (t.d. tónlistarnám) og gætir því mikils misréttis með listnámi í fjárveitinum frá ríkinu.

Misrétti í fjárveitingum ríkisins

Misrétti í fjárveitingum ríkisins, sumt listnám fer í fjárhagslegt útboð annað ekki. Listdansbraut MH er námsbraut til stúdentsprófs. Bóknámshluti náms er kenndur í MH en verknámið er kennt í samstarfi við viðurkennda listdansskóla. Námið lýtur öðrum lögmálum en aðrar stúdentsbrautir framhaldsskólanna því nú vill ríkið setja verklega þátt námsins í útboð! Tekið skal fram að útboðið á bara við um verknám á sviði danslistar en ekki er fyrir
hugað að bjóða út listnám í öðrum listnámsbrautum framhaldsskólanna. Sem sagt, útboð á eingöngu við um listdansnám skv. aðalnámsskrá en ekki annað listnám sem kennt er skv. aðalnámsskrá. Vægast sagt mjög undarleg menntastefna í listum sem menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á og hreykir sér af.

Hvernig væri að styðja betur við listnám með því setja lög um listnám í landinu sem ná til allra listgreina? Lög er styðja við jafnrétti til listnáms? Útboð á listdansnámi á framhaldsskólastigi er fáranleg hugmynd og vona ég innilega að ráðherra afstýri þeim gjörningi. Kallað er eftir lögum um listdanskennslu í landinu, það er óverjandi að setja listdansnám skv. aðalnámsskrá í verkkaup og opinbert útboð. Listdansnámið er hluti af íslensku menntakerfi og undirstaða fyrir atvinnulíf danslistar í landinu.

Höfundur er formaður Félags íslenskra listdansara.

Höf.: Irmu Gunnarsdóttur