Mitt Romney
Mitt Romney
Repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney sagði í gær að „ósvífin og fordæmislaus“ beiðni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að stjórnvöld í Úkraínu og Kína hæfu rannsókn á Joe Biden væri „siðferðislega röng og...

Repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney sagði í gær að „ósvífin og fordæmislaus“ beiðni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að stjórnvöld í Úkraínu og Kína hæfu rannsókn á Joe Biden væri „siðferðislega röng og skelfileg“. Hann sagði að í ljósi þess að beiðnin beindist eingöngu að pólitískum andstæðingi forsetans hlytu menn að komast að þeirri niðurstöðu að hún væri af pólitískum rótum runnin. Biden var varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Baracks Obama og sækist nú eftir því að verða forsetaefni demókrata.

Trump óskaði eftir rannsókninni í símasamtali við forseta Úkraínu 25. júlí og sagði í fyrradag að hann vildi einnig að stjórnvöld í Kína hæfu rannsókn á Joe Biden.

Nefndir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem rannsaka meint embættisbrot Trumps, birtu í gær textaskilaboð bandarískra stjórnarerindreka og demókratar sögðu þau staðfesta að forsetinn hefði misnotað embættið til að reyna að knýja fram rannsókn á pólitískum andstæðingi sínum. Einn stjórnarerindrekanna virtist telja að Trump hefði frestað því að veita Úkraínu aðstoð í öryggismálum til að knýja á um rannsókn á Biden. „Ég tel að það sé brjálæði að halda eftir aðstoð í öryggismálum fyrir hjálp í pólitískri baráttu,“ sagði hann í einum skilaboðanna.