[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Loftgæði eru yfirleitt mikil hér á landi og talin þau mestu í Evrópu. Andrúmsloftið að jafnaði hreint og lítið mengað. Eftir sem áður fer loftmengun oft á tíðum yfir öll viðurkennd heilsuverndarmörk.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Loftgæði eru yfirleitt mikil hér á landi og talin þau mestu í Evrópu. Andrúmsloftið að jafnaði hreint og lítið mengað. Eftir sem áður fer loftmengun oft á tíðum yfir öll viðurkennd heilsuverndarmörk. Eru ýmsar uppsprettur þessara mengunarefna í andrúmsloftinu, aðallega frá bílaumferð. Flugeldagleðin í kringum áramótin á einnig stóran hlut í stærstu svifrykstoppunum. Umdeilt er hvort banna eigi almenna notkun flugelda en fyrir liggur að loftmengunin getur um áramót farið margfalt yfir heilsuverndarmörk við tilteknar veðuraðstæður.

Gunnar Guðmundsson lungnalæknir er einn þeirra sérfræðinga sem komu fyrir starfshóp umhverfisráðherra, sem er að meta hvort takmarka eigi notkun flugelda. Hann telur að starf hópsins hafi dregist allt of mikið á langinn því þetta sé ekki flókið mál í sjálfu sér. Gunnar vill að almennri flugeldanotkun verði hætt hér á landi.

„Ég tel að við getum ekki boðið lungnasjúklingum upp á það að verða fyrir öllum þessum óþægindum,“ segir hann. „Við vitum ekki nákvæmlega hver heilsufarsáhrifin eru af því að fá svona mikla mengun á stuttum tíma, því það hefur aldrei verið skipulega rannsakað,“ bætir hann við. „Ég er þeirrar skoðunar að þessi flugeldasala til almennings eigi að hverfa en í staðinn væri hægt að hafa einhverjar afmarkaðar flugeldasýningar og reyna að koma upp ljósasýningum, t.d. ef hægt væri að búa til einhverjar fallegar ljósasýningar með grænu íslensku rafmagni þá væri það ekkert síðra.“

Gunnar segir mengunargildin fara langt yfir heilsuverndarmörk á nýársnótt og setji Íslendingar Evrópumet í því. „Og það veit enginn hver áhrifin eru t.d. á börn því mengunin gæti haft áhrif á lungnaþroska barna seinna meir,“ segir hann og bendir á að þessi siður Íslendinga að skjóta upp flugeldum í íbúðarhverfum hafi ekki síst áhrif á börn sem vegna hæðar sinnar anda svifryksmenguninni kannski ennþá meira að sér en hinir fullorðnu. Fara verði mjög gætilega í þessu.

Svifrykið alvarlegast

Á Íslandi er það loftmengun frá bílaumferð sem helst hefur áhrif á heilsu fólks að því er fram kemur í nýbirtri grein í Læknablaðinu um loftmengun á Íslandi og áhrif hennar á heilsu manna eftir Gunnar Guðmundsson sem rætt er við hér framar, Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur lýðheilsufræðing, Þorstein Jóhannsson umhverfisfræðing og Vilhjálm Rafnsson prófessor emeritus. „Nú er staðan þannig að ef loftmengun fer yfir heilsuverndarmörk í þéttbýli á Íslandi er það oftast vegna svifryksmengunar frá vegyfirborði. Sem dæmi má nefna að árið 2018 fór svifryksmengun á mælistöðinni við Grensásveg 18 sinnum yfir heilsuverndarmörk, þar af voru 17 skipti vegna mengunar frá umferð þar sem ryk frá vegyfirborði er stærsti hlutinn,“ segir í grein þeirra.

Samanburður á loftgæðum í Evrópu leiðir í ljós að hér eru færri ótímabær dauðsföll af völdum loftmengunar en í nokkru öðru landi í Evrópu. En skv. mati Umhverfisstofnunar Evrópu árið 2018, m.a. á sambandi milli loftmengunar og heilsufarsbrests, má rekja allt að 60 ótímabær dauðsföll til útsetningar svifryks á Íslandi á hverju ári.

Mikilvægt að hreinsa dekk

Miklar framkvæmdir eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu en talsverð loftmengun getur verið frá byggingarsvæðum, bæði útblæstri vinnuvéla og ryki sem þyrlast upp. Bent er á í greininni í Læknablaðinu að talsverð rykmengun geti komið frá óhreinindum sem berast með vörubíladekkjum út í almenna gatnakerfið. Dæmi séu um að götur í þéttbýli séu moldugar mörg hundruð metra út frá framkvæmdasvæði og svifryksmengun frá þessu jarðvegsryki því talsverð í nágrenninu. Grípa megi til mótvægisaðgerða, t.d. með notkun dekkjaþvottavéla fyrir vörubíla áður en þeir aka út fyrir framkvæmdasvæðið. Þær hafi lítið verið notaðar hér en þess eru þó dæmi í dag, m.a. við Landspítalaframkvæmdirnar þar sem dekk vörubíla munu vera hreinsuð reglulega.