...og „skuggar barnæskunnar“

Síðastliðinn miðvikudag var haldin í Hörpu þriðja ráðstefnan sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur efnt til á rúmu ári um það mikla umbótastarf í málefnum barna, sem hann hrinti af stað í upphafi ráðherraferils síns. Sem fyrr var fullt hús og ráðstefnugestir að meginhluta til konur.

Undir verkefnastjórn Ernu Kristínar Blöndal, sem í upphafi var ráðin til þessa verks, en er nú skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, er verkið komið á það stig að lagasmíð er að hefjast og gera má ráð fyrir að lagafrumvörp verði lögð fram á vorþingi.

Hér er um að ræða mestu byltingu í velferðarmálum, sem ráðizt hefur verið í á lýðveldistímanum og líklegt að í framtíðinni verði því líkt við þá þjóðfélagsbyltingu sem varð á fjórða áratug síðustu aldar með almannatryggingum.

Að þessu máli koma þrír aðrir ráðherrar ásamt Ásmundi Einari, þ.e. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, en þær töluðu allar á ráðstefnunni.

Jafnframt var snemma í þessu ferli skipuð þverpólitísk nefnd, skipuð þingmönnum frá öllum flokkum og tók Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, sem sæti á í þeirri nefnd, þátt í umræðunum í gær. Hér er því um að ræða málefni, sem ætla má að víðtæk samstaða verði um á Alþingi.

Ung stúlka, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, 17 ára gömul, sem kynnt var sem aðgerðasinni og nemandi, flutti opnunarávarp sem vakti mikla athygli og kallaði fram þá hugsun að þarna kynni að hafa talað einn af leiðtogum framtíðarinnar á Íslandi. Ræða hennar svo og lokaávarp Unu Hildardóttur, formanns Landssambands ungmennafélaga, og þátttaka nokkurra nemenda úr Vogaskóla í dagskrá ráðstefnunnar, sýndi viðleitni af hálfu ráðherrans til þess að opna fulltrúum framtíðarinnar leið inn í það undirbúningsstarf sem nú stendur á ákveðnum tímamótum.

Á þeim þremur ráðstefnum sem hafa verið haldnar frá vori 2018 hafa ráðstefnugestir fyrst og fremst verið fagfólk sem með ýmsum hætti kemur að málefnum barna. Þetta skiptir máli vegna þess að þar með hefur það fólk sem starfar að þessum mikilvægu málum verið haft með í ráðum frá upphafi enda fáir sem þekkja betur þau vandamál sem hér eru á ferð.

Meðal ræðumanna á ráðstefnunni var Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, og í því felst að sveitarfélögin hafa líka verið með í ráðum.

Það má því segja að mynduð hafi verið mikil breiðfylking um þetta mál, sem ætti að duga til þess að það verði til lykta leitt á farsælan hátt.

Grunnhugsunin er snemmtæk íhlutun en í þeim orðum felst að í stað þess að láta vandamál sem upp koma í lífi barna afskiptalaus framan af ævi, þar til þau hin sömu verði sum hver viðfangsefni félagsþjónustu og annarra opinberra stofnana síðar á ævinni, verði tekið á þeim strax í upphafi.

Slíkum aðgerðum fylgir eins konar „menningarbylting“ vegna þess að hluti af henni er samfélagsleg endurskoðun á gildismati okkar tíma. Allt í einu opnast augu okkar fyrir því að leikskólakennarinn og grunnskólakennarinn eru mikilvægustu starfsmenn skólakerfisins og að launakjör hljóti að taka mið af því breytta gildismati.

Vandamálin í lífi ungs fólks í dag eru svo mikil og flókin og steðja að úr svo mörgum áttum að við getum ekki látið eins og þau séu ekki til staðar. Þau geta snúizt um áreiti tengt hinum nýju samfélagsmiðlum, neyzlu fíkniefna og fleiru en ekki sízt aðstæðum í æsku. Það er mikil ókyrrð í kringum börn og unglinga, sem leiðir af vandamálum hinna fullorðnu, hvort sem er vegna skilnaða, áfengissýki, sjúkdóma af margvíslegu tagi, ofbeldis á heimilum eða annars konar böls sem hrjáir mannfólkið.

En þau eru líka átakanleg vegna þess að lífið er allt undir. Aðstæður í æsku móta allt líf fólks og hafa of oft þær afleiðingar að einstaklingurinn fær aldrei tækifæri til að njóta hæfileika sinna.

Á ráðstefnunni í gær kom fram að 90 börn eru á biðlista hjá Bugl. Það er auðvitað óverjandi staða.

Í ræðu menntamálaráðherra kom fram að orðaforði barna er nú minni en hann var upp úr aldamótunum síðustu. Hvernig má það vera? Hvað veldur? Það er rétt sem Lilja Dögg sagði, að starf kennarans er mikilvægasta starf þjóðfélagsins. En það er staðreynd að við sem samfélag höfum ekki metið það þannig.

Ásmundur Einar talaði um skugga barnæskunnar á ráðstefnunni. Þetta orðaval ráðherrans er sláandi. Auðvitað viljum við öll eiga fyrst og fremst góðar minningar frá æskudögum en það er harður veruleiki að skuggar barnæskunnar geta fylgt okkur alla ævi. Fyrr á tíð ríkti þögn um þá skugga enda börnum kennt að þegja um þá. Það var á þeim tímum, þegar „bælda kynslóðin“, sem Brynja heitin Benediktsdóttir, leikstjóri, kallaði svo í samtölum okkar tveggja fyrir nokkrum áratugum um okkar kynslóð, réð ríkjum.

En nú er margt að opnast – þó ekki allt.

Eitt af því sem er að opnast eru umræður um börn og hlutskipti þeirra. Og það verkefni sem Ásmundur Einar Daðason setti af stað um breytingar í þágu barna, er líklegt til að opna samfélagið enn meira.

Ekki veitir af.

Draugar fortíðarinnar eru enn til staðar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is