Bændur Sigrún Leifsdóttir og Óskar Kristinsson, ánægð með uppskeru.
Bændur Sigrún Leifsdóttir og Óskar Kristinsson, ánægð með uppskeru. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki var metuppskera af kartöflum í sumar, eins og útlit var fyrir um tíma. Á Suðurlandi var góð meðaluppskera og meðaluppskera á Norðurlandi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki var metuppskera af kartöflum í sumar, eins og útlit var fyrir um tíma. Á Suðurlandi var góð meðaluppskera og meðaluppskera á Norðurlandi.

Kartöflubændur hafa flestir lokið uppskerustörfum og eru að ganga frá tækjum fyrir veturinn og flokka kartöflur og tína til fyrir markaðinn, eins og ávallt á þessum tíma árs.

Rættist úr fyrir norðan

„Uppskeran er örugglega í góðu meðallagi,“ segir Óskar Kristinsson kartöflubóndi sem er með garða í Dísukoti í Þykkvabæ. Hann segir að þótt sumarið hafi verið hlýtt og gott hafi ekki verið margt undir grösum gullauga sem er uppistaðan í framleiðslunni. Telur hann að þurrkar í vor og fyrrihluta sumars ráði nokkru um það. Hins vegar hafi verið mikið undir grösum rauðra íslenskra og fleiri tegunda.

Telur Óskar að uppskeran hafi verið góð á öllu Suðurlandi og í Hornafirði.

Bergvin Jóhannsson, kartöflubóndi á Áshóli í Eyjafirði, talar um ágætt meðalár. Þótt kalt hafi verið í sumar hafi góður september bjargað miklu því þá hafi kartöflurnar vaxið vel. Reiknast honum til að uppskeran sé 10- til 12-föld miðað við það magn sem sett var niður og er hann ánægður með þann árangur.

Gæti náð saman

Óskar Kristinsson segir að salan hafi farið ágætlega af stað í sumar. Heldur dragi úr sölu á haustin þegar fólk er að taka upp kartöflur úr eigin görðum. Hann gerir ráð fyrir því að uppskeran endist fram á næsta sumar, jafnvel alveg þangað til ný uppskera kemur á markað.