Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Eftir Vilhjálm Bjarnason: "Írski fræðimaðurinn Séamus Ó. Duilearga lét þau ummæli falla að safn Jóns Árnasonar væri þjóðsagnasafn sem ætti engan sinn líka í víðri veröld."

Þann 17. ágúst voru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar, þjóðsagnasafnara og landsbókavarðar. Ævi og starfi Jóns hafa verið gerð góð skil á þessu ári og enn er eftir ráðstefna Stofnunar Árna Magnússonar um íslenskar þjóðsögur í alþjóðlegu samhengi.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar komu fyrst út í Leipzig árin 1862 og 1864 í tveimur bindum. Það var svo á árunum 1954-1961 að þjóðsögur Jóns Árnasonar komu út í fimm bindum auk nafnaskrár í sjötta bindinu. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson, miklivirkir fræðimenn í íslenskum fræðum, önnuðust þá útgáfu. Báðar þessar útgáfur voru þrekvirki og var þeim vel tekið af lesendum.

Þann 14. september hittust börn Árna og Bjarna og ákváðu að færa íslensku þjóðinni að gjöf útgáfuréttinn að síðari útgáfunni á þjóðsögum Jóns Árnasonar eins og hann er verndaður í höfundarlögum. Frú Vigdís Finnbogadóttir veitti gjafabréfinu viðtöku fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þar sem börn Árna og Bjarna voru komin saman.

Mennta- og menningarmálaráðherra, frú Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur tekið við gjafabréfinu til varðveislu í ráðuneyti sínu.

Árin Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson eiga eftir sem áður sæmdarréttinn að útgáfu sinni, en hún var þeirra stolt og heiður.

Þess er óskað að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og aðrar þær stofnanir, sem munu varðveita og vinna úr þessum menningararfi, njóti stuðnings til að menningararfurinn varðveitist í hug íslensku þjóðarinnar.

Um Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Jón Árnason og Magnús Grímsson hófu söfnun íslenskra þjóðsagna um miðja 19. öld. Þjóðernisvakning 19. aldar hafði meðal annars í för með sér áhuga á þeim frásögnum sem gengu mann fram af manni og enginn vissi höfund að og var farið að kalla þjóðsögur.

Margir leikmenn og fræðimenn um alla Evrópu hófu að safna saman sögum, hver í sínu heimalandi.

Áhrifamesta safnið var án efa safn þýsku bræðranna Grimm sem gáfu út Grimmsævintýri á árunum 1812-1815. Árangur af söfnun Jóns og Magnúsar leit dagsins ljós 1852 í bókinni Íslenzk æfintýri.

Fyrir forgöngu Jóns Sigurðssonar forseta og velvild Konrads Maurers kom út í Leipzig árin 1862 og 1864 tveggja binda útgáfa þjóðsagnasafns sem kennt er við Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Heildarútgáfa safnsins birtist síðan á prenti á árunum 1954-1961.

Einn merkasti þjóðsagnafræðingur Evrópu á síðustu öld, írski fræðimaðurinn Séamus Ó. Duilearga, lét þau ummæli falla að safn Jóns Árnasonar væri þjóðsagnasafn sem ætti engan sinn líka í víðri veröld.

Nú er útgáfan á þessum þjóðararfi þjóðareign.

Höfundur var alþingismaður.