Reynir Sigurður Gústafsson fæddist 1. desember 1938. Hann lést á heimili sínu 26. september 2019.

Foreldrar Reynis voru Gústaf A. Valdimarsson, f. 17.2. 1912, d. 7.11. 1989, rakarameistari í Reykjavík, og Helga Sigrún Zoega, f. 19.9. 1917, d. 6.1. 1989, einkaritari í Reykjavík.

Systur Reynis eru Svala Sigurðsson, f. 25.12. 1939, d. 26.7. 2014; Helga Z, f. 8.5. 1959.

Reynir kvæntist 9.6. 1962 Elísabetu Árnadóttur, f. 20.2. 1943, verslunarmanni. Hún er dóttir Árna Jóhannssonar, verkamanns í Reykjavík, látinn, og Ingibjargar Álfsdóttur húsmóður, sem einnig er látin.

Börn Reynis og Elísabetar eru Árni Ólafur, f. 19.7. 1962, rafvirkjameistari í Reykjavík, eiginkona hans er Sólveig Aðalbjörnsdóttir húsmóðir, synir þeirra eru Engilbert Norðfjörð og Vilhelm Norðfjörð. Sonur Árna frá fyrra sambandi er Smári. Helga Ingibjörg, f. 7.10. 1963, grunnskólakennari í Grundarfirði, sambýlismaður hennar er Bent Ch. Russel stýrimaður. Anna María, f. 28.5. 1965, fjármálastjóri hjá G.RUN Grundarfirði, eiginmaður hennar er Ágúst Jónsson rafvirki og sjómaður, börn þeirra eru Álfheiður, Laufey Lilja og Sigurður Helgi; Reynir Freyr, f. 16.8. 1979, dóttir hans er Ágústa Freyja. Einnig á Reynir soninn Grétar Þór, f. 18.2. 1963, bóndi á Höll í Þverárhlíð, en sambýliskona hans er Svandís Hallbjörnsdóttir húsmóðir, börn þeirra eru Arnar, Ingunn og Svanur.

Reynir fæddist á Laugavegi 65 í Reykjavík og ólst þar upp. Hann gekk í Laugarnesskóla, Lindargötuskóla og síðan í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann lauk prófi í rafvirkjun 1958.

Reynir flutti til Grundarfjarðar 1965. Þar vann hann við rafvirkjun, línulagnir hjá Rafmagnsveitu ríkisins og stundaði sjómennsku. Reynir starfrækti Rafmagnsverkstæði Grundarfjarðar á árunum 1970-89 er hann stofnaði Rafmagns- og bifreiðaverkstæðið Rafnesti í Grundarfirði. Reynir var lengi í stjórn rafverktaka á Vesturlandi, hann starfaði mikið að slysavarnamálum og var einn af stofnendum Björgunarsveitarinnar Klakks í Grundarfirði þar sem hann gegndi formennsku í átján ár. Einnig var hann lengi umdæmis- og svæðisstjóri björgunarsveita á Vesturlandi.

Útför Reynis fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 5. október 2019, klukkan 13.

Reynir Gústafsson rafvirkjameistari verður jarðsunginn frá Grundarfjarðarkirkju í dag.

Reynir hafði lengi glímt lengi við erfið veikindi en er nú laus úr því stríði. Reynir var góður félagi og hrókur alls fagnaðar þegar tilefni gafst.

Við unnum saman í mörg ár og okkur varð aldrei sundurorða. Ég segi með stolti að við urðum góðir vinir og Reynir var svo sannarlega vinur vina sinna. Hann stóð með þeim í gegnum þykkt og þunnt. Hann var rafvirkjameistari og afbragðs fagmaður, bæði vandvirkur og fljótur að leysa öll vandamál.

Reynir var með bíladellu eins og margir á þeim árum. Ég sé hann ávallt fyrir mér akandi um á gulum Scout-jeppa sem helst þurfti stiga til að komast upp í. Hann hafði mikinn áhuga á útivist og björgunarmálum. Ég þekki ekki nákvæmlega sögu Björgunarsveitarinnar Klakks í Grundarfirði en veit að Reynir var þar allt í öllum meðan heilsan leyfði.

Reynir var mikill skapmaður og gat hvesst sig svo um munaði. Í Grundarfirði eru sunnanrokin orðlögð enda veðurhæðin þar oft og iðulega sú mesta á landinu. Þau rok blikna þó í samanburðinum við það þegar rafvirkjameistarinn hvessti sig. Ef eitthvað fór í taugarnar á Reyni reiddist hann því meir sem málið var auvirðilegra. Stundum er talað um Jón og séra Jón þar sem sérann á að vera hærra settur. Reynir tók ávallt málstað Jóns, ekki séra Jóns. Hann var þeirrar gerðar að virða þá sem minna máttu sín en að sama skapi ekki mikið gefinn fyrir að láta stjórna sér og þá alveg sérstaklega opinbera aðila.

Reynir var afskaplega vel giftur og var Elsa hans stoð og stytta þegar á reyndi.

Ég samhryggist konu og börnum, vinum og vandamönnum en minningin um vandaðan dreng og góðan vin lifir.

P.H.

Páll Guðfinnur Harðarson.

Elsku Reynir afi.

Þegar ég loka augunum og hugsa aftur til æskutíma ylja ég mér við minningar um stundir þegar ég var sem heimalningur hjá ykkur ömmu. Í mínum augum varst þú það skemmtilegasta og mest spennandi sem ég gat hugsað mér ásamt kannski póníhestasafninu mínu kæra. Borðandi afa-skorið ristabrauð með smjöri og smurosti eða mysingi sem var alltaf á boðstólum, „stelandi“ tyggjói úr skúffunni inni á skrifstofu og þitt hlýlega bros og létti hlátur gerði öðrum erfitt fyrir að leysa þig af sem uppáhalds.

Allra sterkasta og ljúfasta minningin er þó bensínlyktin úr bílskúrnum en nú þegar ég finn bensínlykt sé ég aðeins þitt andlit með bros á vör.

Það hafa verið forréttindi að fá að vera barnabarnið þitt, elsku afi minn. Takk fyrir samverustundirnar í gegnum tíðina og allt það sem þú kenndir mér. Allt er þetta enn að venjast en ég hlýja mér við að þú ert á betri stað í dag. Einhvers staðar á vappi skoðandi fjöll og dali eða í slökun við rennandi læk.

Þín dótturdóttir,

Laufey Lilja.