Þrjú gegn Frökkum Birkir Bjarnason hefur skorað í þremur leikjum á móti Frakklandi. Hann er í hópnum.
Þrjú gegn Frökkum Birkir Bjarnason hefur skorað í þremur leikjum á móti Frakklandi. Hann er í hópnum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Sindri Sverrisson sindris@mbl.

EM 2020

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Erik Hamrén bauð upp á ástríðufulla ræðu um síðasta leik íslenska karlalandsliðsins í fótbolta áður en hann tilkynnti í gær hvaða leikmenn hann hefði valið til að mæta heimsmeisturum Frakka og Andorra í næstu leikjum í undankeppni EM. Maður var í raun hálfundrandi yfir eldmóðinum, vanari því að Svíinn sé yfirvegaður og rólegur á blaðamannafundum. Val hans á 25 manna leikmannahópi kom hins vegar ekkert á óvart.

Hópurinn nú er umtalsvert sterkari en sá sem vann Moldóvu og tapaði gegn Albaníu í síðasta mánuði. Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og Arnór Sigurðsson stækka verulega vopnabúrið fram á við, og Sverrir Ingi Ingason og Birkir Már Sævarsson efla varnarmannahópinn.

Að mínu mati veitti Hamrén frekar þunn svör við því af hverju ástæða þótti til að velja Birki Má aftur núna, mánuði eftir að hann þótti ekki nógu góður til að vera með gegn Moldóvu og Albaníu. Það má alveg vera ljóst að frammistaða Hjartar Hermannssonar gegn Albaníu á þar sinn þátt, en Hamrén benti líka á að nú hefði hann valið 25 leikmenn í stað þess að velja strax þá 23 sem verða svo í hópnum á leikdag. Hann sagði þó þetta við mig:

„Hjörtur fékk tækifærið í júní og spilaði þrjá mjög góða leiki þar sem við náðum þrennum mjög góðum úrslitum og fengum bara eitt mark á okkur, úr föstu leikatriði. Í leiknum við Albaníu gerði hann einhver mistök en það gerðu aðrir leikmenn líka og þannig er fótboltinn.“

Þarf ekki að óttast fordæmið

Hamrén kallaði ekki bara í 90 landsleikja bakvörðinn Birki Má, sem veit allt um það hvernig á að verjast stórþjóðum á Laugardalsvelli, heldur hélt hann reynsluboltunum Birki Bjarnasyni og Emil Hallfreðssyni inni í hópnum þrátt fyrir að þeir hafi verið án félags frá því í sumar. Þeir hafa gæði og þeir hafa reynslu, sagði Svíinn, sem áfram treystir því á þá sem hafa komið Íslandi á EM og HM til að rata á þriðja stórmótið í röð, þó að hann viðurkenndi að ákvörðunin hefði vafist nokkuð fyrir sér. Ég er sammála því að velja Birki og Emil í 25 manna hóp, aðrir myndu detta fyrr út af mínum lista, og ég óttast ekki að það setji slæmt fordæmi að velja þá í landslið þó að þeir séu án félags. Ég get ekki ímyndað mér að þar með verði eftirsóknarvert fyrir leikmenn að vera atvinnulausir.

„Fyrir sumum er þetta umdeilanlegt val, og ég skil það alveg að sumir hafi aðra skoðun en ég. Ég hef hugsað mikið um þetta, enda er þetta óvanaleg staða. Vissulega var sama staða hérna fyrir mánuði en þá töldum við að hún myndi leysast fljótt. Ég hef því hugsað mikið og rætt um hvað sé best að gera, en er þess fullviss að best sé fyrir hópinn að þeir séu með að þessu sinni. Þeir hafa gæðin og reynsluna, njóta mikillar virðingar í liðinu og munu reynast liðinu vel hvort sem þeir spila ekkert eða tvo 90 mínútna leiki. Þeir gera allt sem þeir geta fyrir liðið,“ sagði Hamrén.

Hjörtur og Emil voru meðal þeirra sem litu illa út á myndböndum sem Hamrén sýndi fjölmiðlamönnum, úr tapinu gegn Albaníu. Aron Einar fyrirliði, Hannes, Rúnar Már og Jón Daði voru einnig nefndir, enda þótt Hamrén benti á að frammistaða Íslands hefði alls ekki verið afleit. En óttast þjálfarinn ekki viðbrögð leikmanna við því að hann sýni öllum mistök einstakra leikmanna og ræði svona?

Óvissa með Aron og Hörð

„Ég var ekki að gagnrýna einstaklinga. Við gerum þetta saman sem lið. Ég vildi líka sýna að þetta [tapið] var ekki einhverjum einum leikmanni að kenna. Liðið ber ábyrgð, hvort sem það vinnur eða tapar. Eins og sást á myndböndunum þá voru það alltaf 3-4 leikmenn sem hefðu getað gert betur í hverju tilviki. Og við erum heldur ekki að einblína á mistökin, heldur það að læra af þeim. Leikmennirnir eru vanir því að fá gagnrýni, og frá okkur Frey [Alexanderssyni] kemur hún ekki til að kenna einhverjum um heldur til þess að gera liðið betra. Það kæmi mér á óvart ef þeir tækju þessu með neikvæðum hætti, því ég var ekki að benda fingri á einhverja ákveðna leikmenn. Það var ekki markmiðið, heldur að sýna að VIÐ þurfum að gera betur.“

Albert Guðmundsson verður ekki í landsliðshópnum á næstunni vegna meiðsla og einhver óvissa er um stöðuna á Herði Björgvini Magnússyni vegna meiðsla. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði meiddist síðan í leik í gærkvöld og óvissa er um stöðuna á honum. Ingvar Jónsson leysir Rúnar Alex Rúnarsson af hólmi fari svo að kærasta Rúnars Alex verði ekki búin að eignast barn þeirra um helgina.

Íslenski hópurinn gegn Frökkum og Andorra

MARKVERÐIR:

Hannes Þór Halldórsson, Val 63/0

Ögmundur Kristinsson, Larissa 15/0

Rúnar Alex Rúnarsson, Dijon 5/0

VARNARMENN:

Birkir Már Sævarsson, Val 90/1

Ragnar Sigurðsson, Rostov 90/5

Kári Árnason, Víkingi R 79/6

Ari Freyr Skúlason, Oostende 68/1

Sverrir Ingi Ingason, PAOK Saloniki 27/3

Hörður Björgvin Magnússon, CSKA Moskva 26/2

Jón Guðni Fjóluson, Krasnodar 15/1

Hjörtur Hermannsson, Bröndby 14/1

Samúel Kári Friðjónsson, Viking Stavanger 7/0

MIÐJUMENN:

Aron Einar Gunnarsson, Al-Arabi 87/2

Birkir Bjarnason, án félags 80/12

Jóhann Berg Guðmundsson, Burnley 74/8

Gylfi Þór Sigurðsson, Everton 70/21

Emil Hallfreðsson, án félags 70/1

Arnór Ingvi Traustason, Malmö 30/5

Rúnar Már Sigurjónsson, Astana 24/1

Guðlaugur Victor Pálsson, Darmstadt 11/0

Arnór Sigurðsson, CSKA Moskva 4/0

SÓKNARMENN:

Alfreð Finnbogason, Augsburg 54/15

Kolbeinn Sigþórsson, AIK 52/25

Jón Daði Böðvarsson, Millwall 44/3

Viðar Örn Kjartansson, Rubin Kazan 23/3

*Alfreð, Jóhann Berg, Sverrir Ingi, Arnór Sigurðsson og Birkir Már koma inn í hópinn frá síðasta landsliðsverkefni, leikjunum gegn Moldóvu og Albaníu, en Albert Guðmundsson (meiðsli) og Daníel Leó Grétarsson detta út.