Ég leyfi mér að efast um að einhvern tíma, einhvers staðar í heiminum, hafi verið stillt upp landsliði í knattspyrnu þar sem hver einasti leikmaðurinn hefur spilað 50 landsleiki eða meira.
Ég leyfi mér að efast um að einhvern tíma, einhvers staðar í heiminum, hafi verið stillt upp landsliði í knattspyrnu þar sem hver einasti leikmaðurinn hefur spilað 50 landsleiki eða meira.

Grúskarar í fótboltafræðunum geta svo sem lagst yfir þessa fullyrðingu og hugsanlega hrakið hana og þeir vita þá hvar þeir ná í mig.

Erik Hamrén valdi í gær landsliðið fyrir leikina gegn Frökkum og Andorra, sem sjá má á næstu blaðsíðu, og núna gat hann nánast fengið hvern þann leikmann sem hann vildi.

Nú gæti hann teflt fram liði með hreint ótrúlegan leikjafjölda. Í markinu væri Hannes (63). Í vörninni Birkir Már (90), Kári (79), Ragnar (90) og Ari (68). Á miðjunni Aron (87), Birkir (80), Jóhann Berg (74) og Gylfi (70). Frammi þeir Alfreð (54) og Kolbeinn (52). Og Emil (70) kæmi fyrir Aron ef fyrirliðinn verður ekki leikfær!

Glöggir lesendur átta sig væntanlega á því að þarna eru tíu úr ellefu manna byrjunarliðinu úr öllum leikjunum á EM í Frakklandi fyrir rúmum þremur árum.

Þetta er hinsvegar alls ekki spá mín um byrjunarliðið hjá Hamrén gegn Frökkum næsta föstudagskvöld þótt það gæti vissulega alveg litið svona út.

Við megum vera stolt af þessu öfluga og reynda landsliði okkar sem hefur gert það gott á undanförnum árum. Þetta eru ennþá okkar bestu leikmenn og verðskulda algjörlega að vera í liðinu á meðan svo er.

En það veldur pínulitlum áhyggjum að yngri leikmenn skuli ekki hafa veitt þeim meiri samkeppni en raunin hefur orðið á allra síðustu árum. Kynslóðaskiptin nálgast og það væri æskilegast að þau færu fram hægt og hljótt þar sem einn og einn yngri ýtir einum og einum eldri smám saman út. Ekki þannig að þessir tólf hverfi allir af sjónarsviðinu um svipað leyti.