Carrie Lam, héraðsstjóri Hong Kong, bannaði í gær mótmælendum að nota grímur en bannið varð til þess að þúsundir lýðræðissinna streymdu út á göturnar til að mótmæla því. Þeir sögðust ætla að virða bannið að vettugi.

Carrie Lam, héraðsstjóri Hong Kong, bannaði í gær mótmælendum að nota grímur en bannið varð til þess að þúsundir lýðræðissinna streymdu út á göturnar til að mótmæla því. Þeir sögðust ætla að virða bannið að vettugi.

Lam kvaðst hafa sett bannið í samræmi við lög frá nýlendutímanum sem heimila héraðsstjóranum að setja lög án samþykkis þingsins þegar hættu- eða neyðarástand ríkir í Hong Kong. Bannað verður að nota grímur á hvers konar mótmælasamkomum og þeir sem brjóta bannið eiga yfir höfði sér allt að árs fangelsisdóm. Lam kvaðst telja að bannið myndi hjálpa lögreglunni að halda uppi lögum og reglu og fæla mótmælendur frá því að beita ofbeldi.

Þúsundir manna reistu götuvígi í viðskiptahverfi í miðborg Hong Kong til að mótmæla banninu og sögðust ætla að halda mótmælunum áfram um helgina. Lýðræðissinnar sögðu að með þeirri ákvörðun að beita neyðarlögunum frá nýlendutímanum hefði Lam tekið stórt skref í átt að alræðisskipulaginu á meginlandi Kína. „Þetta markar þáttaskil,“ sagði lýðræðissinnaða þingkonan Claudia Mo. Hún bætti við að hún teldi að héraðsstjórinn væri að brenna allar brýr að baki sér. „Og ég óttast að þetta sé aðeins byrjunin. Fleiri harðneskjuleg bönn í nafni laga gætu vofað yfir okkur.“

Valdinu til að setja neyðarlög var síðast beitt vegna óeirða í Hong Kong árið 1967 þegar rúmlega 50 manns biðu bana í sprengju- og morðtilræðum vinstrimanna sem studdu kínverska kommúnista, áður en breska nýlendan fyrrverandi varð hluti af Kína. bogi@mbl.is