Óskar Ellert Karlsson fæddist 28. júlí 1954. Hann lést á Landspítalanum 12. júlí 2019.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Við Óskar Ellert fylgdumst að í 42 ár. Kynni okkur hófust þegar ég var að taka mín fyrstu skref í geðhjúkrun, hann var að taka sín fyrstu sem notandi þeirrar þjónustu. Það má því segja að valdahlutföllin í sambandinu hafi, að minnsta kosti í fyrstu, verið frekar skökk en þegar á leið og við bæði þroskaðri og reyndari hafi hlutföllin orðið jafnari og þrátt fyrir stöðu okkar áttum við sterkt og gott samband sem einkenndist af virðingu og vináttu. Við vorum jafnaldra og áttum marga sameiginlega fleti, s.s. tónlist.

Óskar var ungur þegar veikindi herjuðu á og leiðin var oft grýtt og erfið. Hann tengdist samt fólki sterkum böndum, hvort sem það var starfsfólk á geðdeild eða samferðafólkið yfirleitt. Hann átti líka góða að og fannst hann aldrei einn, hann átti fjölskyldu og vini sem hann vissi að vildu sér allt það besta, héldu sambandi þrátt fyrir erfið samskipti sem einkennt getur veikindi af andlegum toga.

Við sátum oft og ræddum gamlar minningar, hann sagði frá æsku sinni og íþróttaafrekum og við rifjuðum upp þegar hann var rótari og gat fengið bestu böndin til að spila á fimmtudagsböllunum á Kleppi, þegar hann var á sjónum og sendi okkur starfsfólkinu fisk sem þakklætisvott fyrir síðast og þegar hann fékk að fara í „vítamínbað“ á deildinni eða bara koma og fá sér kaffi og með því. Það voru aðrir tímar og kannski að sumu leyti mannúðlegri.

Eftir margra ára húsnæðishrak bjó Óskar síðustu 18 árin á Miklubraut 20 og líkaði það yfirleitt vel þótt stundum kæmu tímar þar sem hann langaði að búa sjálfstætt og fara jafnvel aftur til útlanda eins og við hin. Heilsan leyfði það ekki, hann var samt ótrúlega duglegur og vildi alltaf meðan hann mögulega gat fara niður í sinn elskaða miðbæ og hitta mann og annan.

Við Óskar hittumst oft vikulega, fórum í útréttingar, ísbíltúra og tókum Laugavegsrúnt, hann hringdi oft í mig þegar honum fannst langt síðan síðast, bara til að minna á sig og gera plan um að hittast. Ég er þakklát þessari löngu samferð, hún var lærdómsrík, Óskar kenndi mér umfram allt að sjá manneskjuna bak við einkennin, að horfa vítt og meta tengslin. Ég á eftir að sakna hans.

Guðbjörg Sveinsdóttir.