Ferðalag Jón Þór Hauksson og landsliðskonurnar íslensku eru á leið í allt öðruvísi leik gegn Lettum á þriðjudaginn.
Ferðalag Jón Þór Hauksson og landsliðskonurnar íslensku eru á leið í allt öðruvísi leik gegn Lettum á þriðjudaginn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsleikur Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Fyrst í París og nú í Nimes. Íslensku landsliðin í knattspyrnu hafa ekki gert góðar ferðir til Frakklands á árinu.

Landsleikur

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Fyrst í París og nú í Nimes. Íslensku landsliðin í knattspyrnu hafa ekki gert góðar ferðir til Frakklands á árinu. Kvennalandsliðið tapaði 4:0 gegn því franska í Nimes í gærkvöldi, rétt eins og karlaliðið gerði í París í mars. Sem betur fer var um váttulandsleik að ræða að þessu sinni. Engu að síður var þetta, eins og Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari sagði við Morgunblaðið fyrir leik, „tækifæri til að máta okkur við eina af sterkustu þjóðum heims“. Til þess að gera langa sögu stutta, þá pössuðu skórnir ekki.

Byrjunarlið Íslands var skipað mestmegnis þeim leikmönnum sem spiluðu fyrstu tvo leikina okkar í undankeppni EM, sigurleiki gegn Ungverjalandi og Slóvakíu. Elín Metta Jensen er orðin okkar sterkasta vopn í framlínunni og hún stóð þar ein en henni helst til stuðnings í sókninni voru Fanndís Friðriksdóttir og Hlín Eiríksdóttir, allar þrjár spila þær með Íslandsmeistaraliði Vals. Þær sáu þó boltann manna minnst á Stade des Costiers í gær, heimakonur sáu alfarið um sóknartilburðina. Fyrirliðinn Eugénie Le Sommer setti tóninn með því að skora fyrsta markið strax á fjórðu mínútu og hún bætti við marki á þeirri 17. Eftir það gengu Frakkar einfaldlega á lagið. Kantmaðurinn Delphine Cascarino átti frábæran leik fyrir Frakka og lék hún Ingibjörgu Sigurðardóttur í hægri bakverði Íslands grátt. Frönsku sjónvarpsmennirnir voru duglegir að endursýna þegar Cascarino og Le Sommer ötuðust í henni við hliðarlínuna, léku boltanum snyrtilega sín á milli áður en fyrirliðinn klobbaði Ingibjörgu sem vissi ekki hvort hún var að koma eða fara. Ísland átti fyrstu og einu marktilraunina á 88. mínútu þegar Sandra María Jessen þrumaði boltanum hátt yfir markið. Þetta var þannig leikur.

„Við þurfum að skilja þetta tap eftir í Frakklandi,“ sagði Jón Þór við Morgunblaðið strax eftir leik. Hann var ósáttur með frammistöðuna en vildi þó ekki dvelja við hana of lengi. Þótt það hafi kannski verið spennandi tækifæri að máta sig við Frakka í gær þá tekur við undankeppni Evrópumótsins. Þrátt fyrir tapið og hina slöku frammistöðu er óþarfi að mála skrattann á vegginn. Þetta var fyrsta tap liðsins í átta leikjum og Ísland er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar í undankeppninni. Liðið heimsækir Lettland á þriðjudaginn og verður sá leikur vonandi kjörið tækifæri til að komast aftur á sigurbraut.

FRAKKLAND – ÍSLAND 4:0

1:0 Eugénie Le Sommer 4.

2:0 Eugénie Le Sommer 17.

3:0 Delphine Cascarino 66.

4:0 Amel Majri 85.

Gul spjöld

Alexandra og Dagný.

Frakkland : Magnin – Torrent, Tounkara (De Almeida 86), Renard, Karchaoui – Cascarino, Geyoro, Bilbault, Dali (Majri 65), Le Sommer (Asseyi 81) – Gauvin (Katoto 86)

Ísland : (4-5-1) Mark : Sandra Sigurðardóttir. Vörn : Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir (Guðný Árnadóttir 46), Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Hlín Eiríksdóttir (Sandra María Jessen 60), Alexandra Jóhannsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (Margrét Lára Viðarsdóttir 60), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Dagný Brynjarsdóttir 73), Fanndís Friðriksdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir 60). Sókn : Elín Metta Jensen (Berglind Björg Þorvaldsdóttir 60).

Áhorfendur : Um 11.000.