Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Kalla góðan grip hann má. Gumar á sér bera. Hérað frítt og fagurt sá. Fundur mun og vera. Helgi R.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Kalla góðan grip hann má.

Gumar á sér bera.

Hérað frítt og fagurt sá.

Fundur mun og vera.

Helgi R. Einarsson svarar: „Þegar ég las vísnagátuna varð mér einhverra hluta vegna hugsað til gamals nemanda og sveitunga Þórarins Péturssonar, bónda á Grund í Grýtubakkahreppi, en hann situr nú á þingi í fjarveru Þórunnar Egilsdóttur.

Brúka má Þingeying

á þing og er til bóta,

einnig er þarfaþing

þingið á milli fóta.“

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Hlutir sumir þarfaþing.

Thing vill gumi bera.

Húnaþings um hérað syng:

Hart mun Alþing vera.

Hér kemur lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Hér er mikið þarfaþing.

Þing menn á sér bera.

Rætt mun vera um Rangárþing

og rekkar á þingi vera.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Þing má gripi góða kalla.

Gumar á sér þingin bera.

Húnaþingið heillar alla.

Hópsamkoma þing mun vera.

Þá er limra:

Þeir bulla og blaðra á þingi

og beita orðanna kynngi,

hástöfum garga,

svo hneykslar það marga,

en bænahús reisir hann Bingi.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Tekur við af hafi haf,

hafsins öldur geisa,

gáta fæðist gátu af,

gátu þarf að leysa:

Beitt er hesti á blettinn þann.

Blómlaus jurt á túni er.

Einatt þau á fjalli fann.

Finnum glás af aurum hér.

Jón Ingvar Jónsson yrkir á Boðnarmiði:

Æ, mig skortir þrek og þor

þegar úfnar flóinn.

Alltaf fer með Faðir vor

fari ég á sjóinn.

Ekki stóð á svari frá Hjálmari Jónssyni:

Andagiftin aukast fer,

eflir kjark og þorið.

vísukornið afbragð er,

einnig Faðirvorið.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is