Óveður Taka þurfti allar landgöngubrýr úr notkun á Keflavíkurflugvelli í gær vegna vindhraða. Fjölmargir farþegar sátu fastir um borð í flugvélum Icelandair áður en þeir voru fluttir frá borði.
Óveður Taka þurfti allar landgöngubrýr úr notkun á Keflavíkurflugvelli í gær vegna vindhraða. Fjölmargir farþegar sátu fastir um borð í flugvélum Icelandair áður en þeir voru fluttir frá borði. — Ljósmynd/Hilmar Bragi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Veðurofsinn sem reið yfir suðvestanvert landið í gær og nótt hafði víða áhrif á ferðalög fólks.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Veðurofsinn sem reið yfir suðvestanvert landið í gær og nótt hafði víða áhrif á ferðalög fólks.

Þannig varð mikil röskun á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær vegna veðurs en öllum ferðum frá flugvellinum var aflýst seinnipartinn. Greint var frá því á mbl.is að síðasta vél frá Keflavíkurflugvelli hefði farið til Kaupmannahafnar kl. 14.31 í gær.

Icelandair aflýsti öllum flugferðum sínum, alls fjórtán talsins.

1.700-1.800 þurftu gistingu

Fjöldi farþega þurfti að bíða um nokkurt skeið í flugvélum Icelandair á flugvellinum en að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, var búið að koma öllum farþegum úr vélunum klukkan korter yfir níu í gærkvöldi. Til þess voru notaðir stigabílar þar sem allar landgöngubrýr voru teknar úr notkun af öryggisástæðum.

Sagði hún að 1.700-1.800 farþeganna þyrftu hótelgistingu vegna flugferðanna sem var aflýst og að flugfélagið ynni hörðum höndum að því að finna gististaði fyrir þá. Sagði hún í samtali við Morgunblaðið um klukkan 22 í gær að um 80% væru þegar komin með gistingu en flugfélagið væri enn að leysa málin fyrir þá sem hefðu verið með síðustu vélunum.

Tvær vélar til Egilsstaða

Ásdís sagði jafnframt að það gætu orðið einhverjar raskanir snemma í dag ef veðrið gengi ekki niður.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við Morgunblaðið rétt fyrir klukkan 20 í gær að vindhraði væri vel yfir þeim 50 hnútum sem miðað er við þegar landgöngubrýr eru notaðar.

Hann greindi frá því að tvær vélar flugfélagsins Wizz Air sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli seinni partinn hefðu tekið ákvörðun um að lenda á Egilsstaðaflugvelli í staðinn vegna veðurs.

Gamli Herjólfur í notkun

Veður setti einnig strik í reikninginn hjá þeim sem fóru sjóleiðina til og frá Vestmannaeyjum í gær. Gamli Herjólfur var tekinn aftur í notkun í fyrradag í stað þess nýja vegna veðurs og mun hann sigla til Þorlákshafnar þar til annað verður tilkynnt, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Herjólfs. Telur starfsfólk Herjólfs líklegt að nýi Herjólfur verði tekinn í notkun fljótlega eftir helgi.

Ágætisveður um kaffileytið

Gul viðvörun frá Veðurstofu Íslands var í gildi í gær fyrir Faxaflóa, á Suðurlandi og miðhálendinu.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, staðfesti að vindur hefði verið bundinn við suðvesturhornið í gær og yrði fram á nótt. Mikill vindur var að hans sögn undir fjöllum á Suðvesturlandi, svo sem undir Eyjafjöllum, Ingólfsfjalli, Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Afar vindasamt var einnig á Reykjanesbraut þar sem meðalvindur fór upp í 24,9 m/s og 38 m/s í hviðum.

Dregur úr vindi um hádegi

Óli Þór sagði að búast mætti við að skilin bæru vindinn hægt áfram til norðausturs yfir landið. Veðurspá benti þó til þess að ekki myndi draga almennilega úr vindi á Suðvesturlandi fyrr en um hádegi í dag. Bjóst hann við að á suðvesturhorninu yrði komið ágætisveður um kaffileytið og að stytta myndi upp upp úr hádegi vestast á landinu.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, greindi mbl.is frá því að dagurinn hefði verið merkilega rólegur miðað við veður og vinda. Björgunarsveitir hefðu aðeins verið kallaðar út í tvígang um hálfsjöleytið í gær. Tengdust bæði atvikin þökum sem gerðu sig líkleg til að fjúka, annað í Reykjanesbæ og hitt í Grindavík.