Slagur Matthías Orri Sigurðarson og Sigtryggur Arnar Björnsson í kröppum dansi í viðureign KR og Grindavíkur í gærkvöld.
Slagur Matthías Orri Sigurðarson og Sigtryggur Arnar Björnsson í kröppum dansi í viðureign KR og Grindavíkur í gærkvöld. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Sjötta titilvörn KR í röð á Íslandsmóti karla í körfubolta fór vel af stað í gærkvöldi. KR fékk Grindavík í heimsókn og vann öruggan 89:77-sigur.

Í Vesturbænum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Sjötta titilvörn KR í röð á Íslandsmóti karla í körfubolta fór vel af stað í gærkvöldi. KR fékk Grindavík í heimsókn og vann öruggan 89:77-sigur. KR náði yfirhöndinni snemma og þrátt fyrir ágæt áhlaup Grindvíkinga inn á milli var sigur KR aldrei í hættu. Í hvert skipti sem Grindavík skoraði nokkur stig í röð og hótaði að gera leikinn spennandi skoruðu KR-ingar nokkur stig á móti og varð munurinn aldrei minni en sjö stig í seinni hálfleik.

Lúxuslið KR-inga

Fyrir leik var ljóst að verkefni Grindavíkur yrði erfitt þar sem eini atvinnumaður liðsins, Jamal Olasewere, var fjarri góðu gamni vegna meiðsla í læri. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu en gæði og reynsla KR-inga voru of mikil. KR er með enn sterkara lið en oft áður með innkomu leikmanna eins og Jakobs Arnar Sigurðarsonar, Michaels Craions, Matthíasar Orra Sigurðarsonar og Brynjars Þórs Björnssonar. Kristófer Acox og Björn Kristjánsson léku ekki með KR vegna meiðsla og Brynjar lék aðeins þrjár mínútur, þar sem hann er að stíga upp eftir meiðsli. KR var því án þriggja sterkra leikmanna langstærstan hluta leiks, en þrátt fyrir það var leikmannahópurinn sá sterkasti í deildinni. KR-liðið er orðið lúxuslið og ætti að vinna sinn sjöunda meistaratitil í röð. Stigaskor KR-inga dreifðist vel og allir lögðu í púkkið. Michael Craion skoraði 23 stig og Helgi Már Magnússon gerði 16.

Það er lítið út á frammistöðu Grindavíkur að setja. Úrslitin eru algjörlega eðlileg, sérstaklega í ljósi þess að atvinnumaður liðsins var ekki með. Grindavík er með sterka leikmenn eins og Sigtrygg Arnar Björnsson, Ingva Þór Guðmundsson, Ólaf Ólafsson og Dag Kár Jónsson. Þeir verða allir að eiga stjörnuleik til að Grindavík geti unnið KR og svo þarf atvinnumaður að leggja sitt af mörkum. Ingvi skoraði 22 stig og Sigtryggur 21, en Ólafur Ólafsson gerði lítið fyrstu þrjá leikhlutana og Dagur Kár Jónsson var ekki góður. Bekkur Grindavíkur hafði lítið fram að færa; einungis níu stig, á meðan KR skoraði 27 stig af bekknum. KR er með betri leikmannahóp, meiri breidd, meiri reynslu og meiri gæði. Grindavík reyndi, en verkefnið var of strembið.

KR – GRINDAVÍK 89:77

DHL-höllin, Dominos-deild karla, 1. umferð, föstudag 4. október.

Gangur leiksins : 7:5, 15:11, 20:13, 28:17 , 35:19, 42:24, 42:26, 46:34, 50:42, 58:45, 61:51, 65:58 , 71:60, 77:66, 79:72, 89:77 .

KR: Michael Craion 23/15 fráköst, Helgi Már Magnússon 16/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 13/7 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 11, Matthías Orri Sigurðarson 10/8 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 9/7 fráköst/8 stoðsendingar, Þorvaldur Orri Árnason 7.

Fráköst: 32 í vörn, 12 í sókn.

Grindavík : Ingvi Þór Guðmundsson 22/5 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 21/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 13/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 8/5 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 4, Nökkvi Már Nökkvason 3.

Fráköst : 21 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur : 400.