[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta segir svolítið um markaðinn. Fólk heldur meira að sér höndum og velur betur,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri miðasöluvefsins Tix.is, um sölu á jólatónleika í ár.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta segir svolítið um markaðinn. Fólk heldur meira að sér höndum og velur betur,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri miðasöluvefsins Tix.is, um sölu á jólatónleika í ár.

Tímabil jólatónleika rennur senn upp og nú slást tónleikahaldarar um hylli miðakaupenda. Miðasala á stærstu tónleikana virðist færast framar á hverju ári og varla var búið að hringja skólabjöllum í haust þegar auglýsingar um jólatónleika fóru að dynja á landsmönnum. Framboðið virðist þó minna í ár en í fyrra. Lausleg yfirreið Morgunblaðsins á miðasöluvefjum sýnir að hægt er að velja úr 97 jólatónleikum að þessu sinni. Sams konar úttekt á sama tíma í fyrra leiddi í ljós að 115 jólatónleikar voru auglýstir. Þótt fleiri tónleikar eigi eflaust eftir að bætast við virðist ljóst að einhver mettun er orðin á markaðnum. Þessi fækkun nemur tæpum 16% milli ára.

Fer hægar af stað í ár

Einnig er áhugavert að miðasala virðist fara hægar af stað en verið hefur. Þannig mátti í gær ennþá kaupa miða á átta af átján tónleikum Baggalúts. Síðustu ár hefur alltaf selst fljótt og vel upp á tónleika sveitarinnar, stundum sama dag og sala hófst.

„Ég get ekki neitað því að það er líka okkar tilfinning að þetta fari hægar af stað í ár en áður. Það sést til dæmis á sölunni á tónleika Baggalúts,“ segir Hrefna hjá Tix.is.

Hún kveðst ekki skynja að framboð á jólatónleikum hafi minnkað þótt það kunni að vera. „En aðsóknin er hægari. Við finnum að það er alla jafna þannig og höfum mælt með því við tónleikahaldara að byrja á færri tónleikum og bæta frekar við aukatónleikum. Maður skynjar að það er ekkert öruggt í þessu.“

Breytt kauphegðun

Hrefna segir að þeirrar þróunar hafi gætt þegar í fyrra að kauphegðun væri farin að breytast. Fólk ryki ekki endilega til um leið og miðasala væri auglýst. „Fólk er ekkert að drífa sig. Þetta var byrjað í fyrra og er meira nú. Fólk bíður bara og kaupir miða stuttu fyrir ef það eru lausir miðar.“