Uppbygging Horft til austurs eftir Smyrilshlíð á Hlíðarenda í Reykjavík.
Uppbygging Horft til austurs eftir Smyrilshlíð á Hlíðarenda í Reykjavík. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir að til skemmri tíma litið muni það reynast áskorun fyrir íslenska lífeyrissjóði að ná 3,5% viðmiðunarávöxtun í nýju vaxtaumhverfi. Vextir fara lækkandi.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir að til skemmri tíma litið muni það reynast áskorun fyrir íslenska lífeyrissjóði að ná 3,5% viðmiðunarávöxtun í nýju vaxtaumhverfi.

Vextir fara lækkandi. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að vextir af íbúðalánum eru nú sögulega lágir á Íslandi.

Gunnar segir aðspurður að lífeyrissjóðir búi ekki við lögbundna 3,5% ávöxtun heldur sé hún til viðmiðunar. „Til lengri tíma litið ræður endanleg ávöxtun eigna því hver réttindi og lífeyrisgreiðslur verða. Sé litið yfir langt tímabil hafa verðbréfasöfn, sem eru að jöfnu skuldabréf og hlutabréf, skilað þeirri ávöxtun. Hér á landi hafa lífeyrissjóðir skilað þeirri ávöxtun og rúmlega það frá upptöku verðtryggingar árið 1980.

Vextirnir jafnvel neikvæðir

Núna erum við hins vegar í sérstöku umhverfi. Vextir eru sögulega lágir hér og á flestum vestrænum fjármálamörkuðum, jafnvel neikvæðir. Það er ljóst að það er áskorun fyrir lífeyrissjóðina að ná 3,5% ávöxtun. Það verður hins vegar að hafa í huga að ávöxtunin, 3,5%, er vegin ávöxtun eignaflokka sem lífeyrissjóðirnir fjárfesta í. Þótt ávöxtun skuldabréfa sé lítil geta sjóðirnir náð 3,5% ávöxtun ef ávöxtun hlutabréfa er góð,“ segir Gunnar.

Spurður hvort lægri vextir geti leitt til meiri áhættutöku við fjárfestingar til að tryggja ávöxtun segir Gunnar að vissulega geti þetta umhverfi „leitt til þess að menn auka áhættu í eignasöfnum, með því að auka vægi hlutabréfa eða annarra eignaflokka sem eru áhættumeiri en skuldabréf“. „Við vitum ekki hversu lengi vextirnir verða svo lágir en til skamms tíma má búast við því að það verði áskorun fyrir lífeyrissjóði að ná þessari viðmiðunarávöxtun.“

Spurður um jákvæðar hliðar þessarar þróunar segir Gunnar lægri vexti geta lækkað þröskuldinn þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar. Fjármagnskostnaður fari enda lækkandi. „Það getur leyst úr læðingi drifkraft í hagkerfinu. Jafnframt getur það leitt til þess að fjármagn, sem að öðru jöfnu myndi leita í skuldabréf, leitar í aðrar fjárfestingar. Það á ekki aðeins við lífeyrissjóðina heldur sparnað almennt.“

Mögulega hærri afborganir

Gunnar bendir á að alla jafna sé öfugt samband á milli vaxta og eignaverðs og að lágir vextir geti leitt til hækkunar eignaverðs.

„Það er jákvætt fyrir þá sem taka lán að vextir lækka en samt ber að fara varlega. Lækkun vaxta getur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði og hærra húsnæðisverðs. Þannig að í staðinn fyrir að borga lægri vexti borgi fólk hærri afborganir,“ segir Gunnar og ráðleggur fólki að setja skuldsetningu í samhengi við laun áður en ákvörðun um húsnæðiskaup með lántöku er tekin.

„Mín ráðlegging er að skuldsetning verði helst ekki hærri en þrenn til fern árslaun. Jafnframt að stefnt sé að því að skuldir verði uppgreiddar fyrir eftirlaunaaldur.“