Ljós Norðurljósin dönsuðu á næturhimni um sl. helgi og gamla Þjórsárbrúin var skemmtileg umgjörð sýningar.
Ljós Norðurljósin dönsuðu á næturhimni um sl. helgi og gamla Þjórsárbrúin var skemmtileg umgjörð sýningar. — Ljósm/Skúli Már Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ágætlega lítur út með bókanir og aðsókn í norðurljósaferðir í vetur.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ágætlega lítur út með bókanir og aðsókn í norðurljósaferðir í vetur. Norðurljósin voru með öflugasta móti um síðustu helgi og dagana þar á undan og voru þá gerðir út fjölmennir leiðangrar austur á Þingvelli, að Stafnesi og í Ósabotna á Reykjanesi, staði þar sem reynsla sýnir að vel sjáist til norðurljósa.

Fylgjast grannt með spám

„Einmitt núna er virkni norðurljósa lítil og svo verður fram undir næstu mánaðamót. Við fylgjumst grannt með norðurljósaspám Veðurstofunnar og fleiri og högum ferðum samkvæmt því,“ segir Haukur Júlíusson hjá Kynnisferðum – Reykjavik Excursions.

Fyrstu norðurljósaferðirnar á þessu hausti voru farnar um 25. ágúst og svo dagana þar á eftir. Bretar, Frakkar og Þjóðverjar voru áberandi meðal farþega þá. Fólk frá til dæmis Japan og Kína, verður svo meira áberandi í farþegahópnum þegar líða tekur á veturinn. Í Austurlöndum fjær er trú fólks raunar sú að sjái elskendur til norðurljósa boði það gæfu og ávöxt ástar. Gifting og norðurljósferð er vinsæl tvenna.

Þegar best lætur senda Kynnisferðir út 5-10 rútur í norðurljósaferðir og stundum fleiri. Flestir hafa farþegar á einu kvöldi verið um 1.300. Þá er lagt af stað frá Reykjavík snemma kvölds og komið aftur í bæinn um miðnæturbil. Í flestum tilvikum reynist líka norðurljós að sjá, enda hafa leiðsögumenn og leiðangursstjórar líka góða reynslu í því að finna stað þar sem norðurljósin sýna sig vel.

Ýmsir fleiri gera út norðurljósaleiðangra, svo sem smærri ferðaþjónustufyrirtæki sem gera út jeppa og bjóða upp á einkaferðir. Á þeirra vegum var meðal annars farið austur fyrir fjall og þótti sérstaklega áhrifaríkt að sjá til norðurljósa frá gömlu Þjórsárbrúnni. Meðal annars kom Hvalfjörðurinn sterkur inn.

Breska stúlkan beygði af

„Norðurljósaferðirnar eru skemmtilegar,“ segir Flosi Kristjánsson leiðsögumaður. „Einstaka farþegar vænta meira en þeir sjá. Miklu fleiri eru þó heillaðir af dýrðinni. Ég man eftir leiðangri í fyrravetur þar sem við stóðum í næðingskulda á biksvörtu kvöldi austur á Bláskógaheiði þar sem norðurljósin bókstaflega áttu sviðið og allan himininn. Bresk stúlka sem þarna var með í för beygði af þegar hún sá dýrðina, en þetta var hennar fjórða tilraun til að sjá norðurljósin sem loksins tókst.“

Norðurljósin verða til þegar hraðfleygar rafeindir frá sól rekast á atóm og sameindir í lofthjúpi jarðar, yfirleitt í um 100 km hæð, segir á Stjörnufræðivefnum. Algengustu litir norðurljósa eru gulgrænn, grænn og rauður sem súrefni gefur frá sé. Rauðleit og fjólublá litbrigði af völdum niturs sjást stundum. Þegar norðurljós eru dauf greinir augað enga liti og þá sýnast þau gráhvít. Ekki er þó alltaf auðvelt að sjá þessa virkni sólarinnar fyrir – þó að sólgos og kórónuskvettur hafi stundum fyrirboða.