[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Eins og landsmenn hafa vafalaust tekið eftir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarna daga þá er hafin markaðsherferð um Selfoss, þar sem kostir bæjarins eru tíundaðir í laglegum auglýsingum.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Eins og landsmenn hafa vafalaust tekið eftir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarna daga þá er hafin markaðsherferð um Selfoss, þar sem kostir bæjarins eru tíundaðir í laglegum auglýsingum. Herferðin er afrakstur af samstarfi sveitarfélagsins Árborgar og nokkurra lykilfyrirtækja á Selfossi, sem ákváðu að vinna saman að því að hafa áhrif á ímynd bæjarins.

Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri sjálfseignarstofnunarinnar Höfuðstaður Suðurlands ses. sem var sérstaklega stofnuð utan um verkefnið, segir að eftir að jákvæð niðurstaða íbúakosningar um nýjan miðbæ á Selfossi lá fyrir í ágúst í fyrra, þar sem hugmyndirnar um miðbæinn voru samþykktar með 60% atkvæða, hafi verið farið á fullt í ákveðna greiningar – og rannsóknarvinnu sem snéri að vörumerkinu Selfossi.

„Stóra niðurstaðan var sú í einföldu máli, að þú getur ekki tekið miðbæ í einhverjum bæ og markaðssett hann út úr heildarsamhenginu. Ekki væri hægt að tala um miðbæ Selfoss öðruvísi en að ræða um Selfoss sem bæ. Það var lykilniðurstaðan,“ segir Vignir.

Fordómar til staðar

Hann segir að í þessari greiningarvinnu hafi komið ýmislegt forvitnilegt í ljós varðandi viðhorf fólks utan og innan bæjarins til Selfoss. „Í ljós kom að viðhorf þeirra sem standa utan bæjarins mætti vera betra. Það eru ákveðnir fordómar í gangi. Menn minntust á bílaumferð, margmenni, skyndibita og svo ákveðna fortíðardrauga sem ákveðin kynslóð tengir við Selfoss, eins og aflitað hár, spoilera, buffalo-skó, hnakka og fleira.“

Vignir segir að viðhorf þeirra sem búa í bænum, eða komi þangað reglulega, hafi einnig verið skoðað, og þá hafi önnur mynd komið í ljós. „Því fólki líður ofboðslega vel, og þeir sem eru aðfluttir tala um að þetta sé allt öðruvísi bær en þeir héldu. Það var til dæmis talað um að þetta væri frábær staður til að ala upp börn. Þarna var því komin ákveðin gjá, og við þurftum að reyna að sýna fólki utan bæjarins fram á hvernig bærinn raunverulega er. Í grunninn snýst þetta um ímynd og ásýnd og þannig verður þetta markaðsátak til.“

Vignir segir að áætlun hafi verið lögð fyrir nokkur lykilfyrirtæki í bænum og svo sveitarfélagið sjálft. Á endanum hafi allir verið tilbúnir „að taka slaginn“ og hefja þessa vegferð. „Það er aðdáunarvert, og ég held að ég geti fullyrt að þetta hafi ekki verið gert með þessum hætti áður hjá neinu sveitarfélagi hér á landi.“

Kostnaður 30-35 milljónir

Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður 30-35 milljónir króna. Fyrirtæki greiða 75% þeirrar upphæðar og og Árborg um fjórðung.

„Við erum með Íslensku auglýsingastofuna með okkur í þessu, en hún vann til dæmis með Íslandsstofu að Inspired by Iceland markaðsherferðinni. Það er ekkert launungarmál að sú herferð er ákveðin fyrirmynd fyrir okkur, enda gott dæmi um vel heppnað samstarf opinberra og einkaaðila. Við erum náttúrulega á miklu minni skala en leyfum okkur stundum að kalla þetta Inspired by Selfoss.“

Vignir segir að markmið herferðarinnar sé að skapa Selfossi jákvæðari ímynd.

Eins og kom fram í samtali við Bárð Guðmundsson skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar, í Morgunblaðinu fyrir ári síðan, er áformað að byggja um 200 íbúðir ár hvert í bænum árin 2019 til 2021. Á næsta ári mun hefjast uppbygging á nýju hverfi, svokölluðu Björkurstykki, þar sem gert er ráð fyrir skóla sem getur tekið við allt að 700 börnum.

„Þessi herferð er fyrsta skrefið í langtímaverkefni og leggur grunninn fyrir komandi tíma. Jákvæðara viðhorf styrkir miklu fleiri stoðir en möguleika til búsetu. Fleiri fjölskyldur munu vonandi fara í sunnudagsbíltúr á Selfoss, fleiri munu sækjast eftir því að halda þar viðburði eða árshátíðir, og svo framvegis. Að því leyti er þetta mjög framsýnt af sveitarfélaginu,“ segir Vignir.

Íslenskt handverk í miðbæ

Vignir er jafnframt markaðsstjóri Sigtúns Þróunarfélags sem annast uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi. Framkvæmdir eru hafnar og er ráðgert að endurbyggja þekkt gömul íslensk hús „Þarna er íslenskt handverk í aðalhlutverki og við leikum okkur að spila saman nýju og gömlu á fjölbreyttan hátt. Þetta verður einstakur miðbær, með flóru verslana og veitingastaða, sem er ekki til staðar í dag.“

Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu hefur tveggja hektara svæði í hjarta bæjarins verið helgað þessum framkvæmdum.

Vignir segir að fyrri áfangi miðbæjarins verði opnaður vorið 2021 og framkvæmdum verði að fullu lokið 2022-2023.

„Svo er ný brú í samgönguáætlun sem kemur eftir nokkur ár. Þjóðvegurinn verður færður, sem mun stórlega draga úr umferð um bæinn. Þeir sem ekki eiga erindi í bæinn munu fara framhjá. Það hægist á umferð og fyrir vikið verður Selfoss meira aðlaðandi fyrir íbúa og gesti.“

Vignir segir að vel hafi gengið að fá þjónustuaðila í nýja miðbæinn, og nokkrir séu búnir að taka frá pláss. „Við viljum skapa sérstöðu og hafa verslanir og þjónustu sem eru öðruvísi. Þessi miðbær mun laða að sér fólk og í því felast mikil tækifæri fyrir rekstraraðila.“

Ímynd
» Hnakkar, spoilerar, aflitað hár, hluti af ímynd sem fólk sem ekki býr í bænum hefur af Selfossi.
» Íbúar sjá bæinn sem fjölskylduvænan og góðan bæ til að ala upp börn í.