Adolf Hitler
Adolf Hitler
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ósló. AFP. | Fyrir áttatíu árum, þegar heimurinn var á barmi blóðugustu styrjaldar sögunnar, var Adolf Hitler tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels.

Ósló. AFP. | Fyrir áttatíu árum, þegar heimurinn var á barmi blóðugustu styrjaldar sögunnar, var Adolf Hitler tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels. Þetta er eitt af ófáum dæmum sem sýna að hægt er tilnefna bókstaflega hvern sem er til þessara eftirsóttu verðlauna.

Á meðal annarra sem hafa verið tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels frá því að þau voru fyrst veitt fyrir 118 árum eru einræðisherrarnir Benito Mussolini og Jósef Stalín.

Erik Brandt, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð, tilnefndi Hitler til friðarverðlaunanna í janúar 1939, um átta mánuðum fyrir innrás þýska hersins í Pólland. Hann dásamaði „glóðheita friðarást“ Hitlers og lýsti honum sem „prins friðar á jörðinni“. Seinna kvaðst Brandt hafa tilnefnt Hitler í háðungarskyni til að mótmæla því að Neville Chamberlain var tilnefndur til verðlaunanna árið áður fyrir Münchenarsamninginn við Hitler árið 1938 til að reyna að koma í veg fyrir styrjöld í Evrópu. Háðsádeila þingmannsins fór fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum.

Þýskir og franskir háskólamenn tilefndu Mussolini til verðlaunanna árið 1935, skömmu áður en her hans réðst inn í Eþíópíu. Stalín var tilnefndur tvisvar, árin 1945 og 1948. Enginn einræðisherranna þriggja var á meðal þeirra sem verðlaunanefndin taldi koma til greina, að sögn norska sagnfræðingsins Geirs Lundestads, fyrrverandi ritara nefndarinnar.

Verðlaunanefndin tekur við öllum tillögum, svo fremi sem þær berast fyrir 31. janúar. Þeir sem geta lagt fram tilnefningar eru þingmenn og ráðherrar ríkja heims, allir sem hafa fengið friðarverðlaunin, sumir háskólaprófessorar og þeir sem eiga eða hafa átt sæti í verðlaunanefndinni. Alls eru þúsundir manna í þessum hópi og þeir geta tilnefnt hvern sem er.

Michael Jackson ekki í náðinni hjá nefndinni

Tilnefningunum hefur fjölgað mjög á síðustu tveimur áratugum og þær eru yfirleitt rúmlega 300 á ári, þannig að ekki er að undra að sumar þeirra komi spánskt fyrir sjónir.

Á meðal þeirra sem hafa verið tilnefndir er bandaríska poppgoðið Michael Jackson. Þingmenn í Rúmeníu tilnefndu hann til verðlaunanna árið 1998 fyrir friðarboðskap í laginu „Heal the World“. Lundestad segir að Jackson hafi ekki átt upp á pallborðið hjá verðlaunanefndinni.

Sænskur þingmaður lagði til árið 2001 að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, fengi verðlaunin fyrir hönd fótboltans vegna þess að íþróttin stuðlaði að friði í heiminum. Jules Rimet, þriðji forseti FIFA, var tilnefndur til verðlaunanna árið 1956 fyrir að beita sér fyrir heimsmeistaramótunum í fótbolta sem hafa verið haldin frá 1930.

Tilkynnt verður á föstudaginn kemur hver hlýtur friðarverðlaunin í ár. Á meðal þeirra sem voru tilnefnd eru Donald Trump Bandaríkjaforseti og sænska stúlkan Greta Thunberg sem hefur barist fyrir aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.