Glettin Nanna Kristín og Sveinn á kaffihúsi í vikunni. Þau fara með hlutverk Karenar og Matta í Pabbahelgum.
Glettin Nanna Kristín og Sveinn á kaffihúsi í vikunni. Þau fara með hlutverk Karenar og Matta í Pabbahelgum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
vIÐTAL Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Fyrsti þáttur Pabbahelga, nýrrar sjónvarpsþáttaraðar Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, verður sýndur á RÚV annað kvöld, 6. október. Nanna Kristín skrifaði handrit þáttanna, framleiddi þá með Birgittu Björnsdóttur, leikstýrði þeim ásamt Marteini Þórssyni og fór jafnframt með annað af tveimur aðalhlutverkum þeirra, hlutverk Karenar sem kemst að því að eiginmaður hennar, Marteinn, heldur fram hjá henni. Karen stendur þá á tímamótum þar sem hinar svokölluðu pabbahelgar stríða gegn hugmyndum hennar um hina fullkomnu kjarnafjölskyldu.

vIÐTAL

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Fyrsti þáttur Pabbahelga, nýrrar sjónvarpsþáttaraðar Nönnu Kristínar Magnúsdóttur, verður sýndur á RÚV annað kvöld, 6. október. Nanna Kristín skrifaði handrit þáttanna, framleiddi þá með Birgittu Björnsdóttur, leikstýrði þeim ásamt Marteini Þórssyni og fór jafnframt með annað af tveimur aðalhlutverkum þeirra, hlutverk Karenar sem kemst að því að eiginmaður hennar, Marteinn, heldur fram hjá henni. Karen stendur þá á tímamótum þar sem hinar svokölluðu pabbahelgar stríða gegn hugmyndum hennar um hina fullkomnu kjarnafjölskyldu.

Þættirnir eru tragíkómískir og sýna veruleika sem margar íslenskar fjölskyldur ættu að kannast við. Með hlutverk Marteins, eða Matta, fer Sveinn Ólafur Gunnarsson og hitti blaðamaður þau Nönnu Kristínu á kaffihúsi í vikunni.

Engar staðalímyndir

Nanna Kristín er lærð leikkona og var fastráðin við Þjóðleikhúsið þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross, segja starfinu lausu til að einbeita sér að kvikmyndagerð og í framhaldi af því flutti hún til Kanada og hóf nám í handritaskrifum. Nanna Kristín hefur skrifað og leikstýrt fjórum stuttmyndum og nýjasta leikstjórnarverkefni hennar er syrpan Ráðherrann sem frumsýnd verður næsta haust.

Nanna Kristín leggur áherslu á að hún hafi viljað forðast stereótýpur, staðalímyndir, við skrifin á Pabbahelgum . „Það eru engar stereótýpur, vondar eða góðar og þó að Karen, söguhetjan okkar, sé stundum óþolandi réttlætir það ekki gjörðir mannsins hennar,“ segir Nanna Kristín. „Ég hef lært handritaskrif og þar er ákveðinni formúlu fylgt, það er byrjun, miðja, endir og brú og mig langaði að brjóta þetta aðeins upp. Þannig erum við t.d. að koma inn í aðstæður, tímalínan er stundum brotin upp og það skiptir ekki máli hvort atburðir gerist á sama deginum eða ekki. Þegar þú ert að skilja skiptir tíminn ekki svo miklu máli, það er allt í molum og mig langaði að leika mér með formið í því. Það á vel við þegar fjallað er um þetta efni og við fylgjum þessari pælingu eftir í kvikmyndatöku, klippi, leikstíl o.s.frv.,“ útskýrir Nanna Kristín.

Langaði að sýna allan skalann

Hún er spurð að því hvort einhver kveikja hafi verið að þessari sögu. „Flestir halda að það sé minn eigin skilnaður en það er nú aðeins dýpra en svo,“ svarar hún. Hugmyndin hafi kviknað út frá kvenpersónu. „Mig langaði að skrifa og leika kvenkarakter sem allar hliðar væru sýndar á. Ekki svo að skilja að ég sé að finna upp hjólið en það þarf oft að velja; er sagan um móður, konu á framabraut, fórnarlamb, hetju og svo framvegis. Mig langaði að sýna allan skala kvenpersónunnar og íslenskan veruleika, gera seríu sem væri drifin áfram af persónum en ekki plotti.“

Nanna Kristín segist þekkja hjónaskilnaði af eigin raun, bæði úr æsku sinni, eigin skilnaði og annarra sem hafa staðið henni nærri. „Ég þurfti að finna drama í hversdagslífinu,“ segir hún um þá ákvörðun sína að taka fyrir hjónaskilnað.

Ný veröld

Sveinn segir að sér hafi þótt margt erfitt við sitt hlutverk í þáttunum, Matti sé breyskur maður sem hafi gerst sekur um alvarleg mistök. Hann segist hafa velt fyrir sér af hverju Matti hafi haldið framhjá eiginkonu sinni. „Þetta er ekki normið fyrir mér, framhjáhald og skilnaðir, svolítið ný veröld,“ segir hann. „Þó þetta sé orðið mjög algengt og normalíserað, flatt út, þá er skilnaður rosalega stór viðburður sem hefur ofboðslegar afleiðingar fyrir marga. Mér finnst stundum gert litið úr því í almennri umræðu.“

Sveinn bendir á að Matti og Karen séu á „skilnaðaraldrinum“, á miðjum aldri þegar komið er fram í hálfleik í lífinu. Skilnaðir eru sérstaklega algengir hjá fólki á þeim aldri og ákveðnar spurningar fylgja honum. „Á að halda áfram með sömu manneskju í seinni hálfleik? Hefur fólk gengið veginn til góðs eða er það orðið leitt á þessu?“ nefnir Sveinn og að kynlífið sé ef til vill líka orðið heldur óspennandi og fátíðara. „Svo kemur þessi miðaldra ótti um hvort lífið standi undir þeim væntingum sem gerðar voru til þess,“ bætir hann við.

Aldurstakmark 16 ár

Blaðamaður fékk að horfa á fyrstu tvo þætti Pabbahelga fyrir viðtalið og nefnir við Nönnu Kristínu og Svein afar raunsætt kynlífsatriði í upphafi fyrsta þáttar en í því sambandi má nefna að þættirnir eru bannaðir börnum undir 16 ára aldri.

Nanna Kristín segist ekki hafa ætlað sér að hneyksla neinn með kynlífinu í Pabbahelgum , síður en svo. „Ég sagði Marteini leikstjóra og Bergsteini Björgúlfssyni tökumanni að ég ætti til að vilja alltaf fara alla leið sem leikkona þannig að þeir yrðu bara að stoppa mig af,“ segir hún kímin. „En ég vildi ekki neinn tepruskap, vildi sýna líkama eins og þeir eru alla vega hjá þessu fólki; fellingar, appelsínuhúð, háruga karllíkama, bumbur og tilheyrandi. Það er líka hluti af heildarmyndinni sem ég talaði um áðan, blákaldur hversdagsleikinn og „no filter“. Ég vildi samt sem áður ekki að þetta yrði gróteskt eða aðalatriðið því auðvitað snýst senan um allt annað. Ég held að okkur hafi bara tekist vel til með það,“ segir Nanna Kristín og bætir við að kynlíf sé ekki bara fagrir kroppar og rósablöð á sængurverum heldur geti það líka verið bara sveitt og slímugt.

Erfið krafan um að vera sexí

En fannst þeim óþægilegt að leika í þessu tiltekna atriði? „Já, ég myndi segja það,“ svarar Sveinn, glettinn á svip. „Þetta eru ekki flóknar senur að leika en þó ekki mínar uppáhaldssenur. Að vera berrassaður innan um tuttugu manns að þykjast vera að gera þetta, það er til margt skemmtilegra.“

Nanna Kristín tekur undir með Sveini. „Það sem mér finnst reyndar erfiðast í svona kynlífssenum er þegar gerð er krafa um að vera sexí eða æsandi. Það á sem betur fer ekki við í þessu tilviki,“ segir hún og hlær.

Nanna Kristín nálgast viðfangsefni þáttanna á tragíkómískan hátt, sem fyrr segir og Karen er ýktasta persónan að hennar sögn.

„Það er líka af því að við upplifum söguna mest í gegnum hana þó að við förum auðvitað líka yfir til Matta,“ útskýrir hún. „Skilnaðir eru hræðilegir og erfiðir, þú ert að ákveða að framtíðin sem þú sást fyrir þér og allt sem þú hefur byggt upp hafi ekki verið til neins, nema hvað að oftast standa börnin eftir sem foreldrarnir geta vonandi sammælst um að verði að gæta en tekst þó misvel.

Í þáttunum skoðum við þetta út frá ákveðnu sjónarhorni, hversu sjálfhverft fólk getur orðið á þessu tímabili. Þú ferð í einhverja átt og sérð heiminn í öðru ljósi. En það er gott að hafa í huga að þetta eru ekki heimildarþættir og langt frá því að verið sé að velta við hverjum steini og skoða sjónarhorn allra sem skilnaðurinn snertir.“

Ástfanginn af sjálfum sér

Nanna Kristín segir ástæður framhjáhalds auðvitað margar og ólíkar en segir að Matta þyki hann einfaldlega skemmtilegri maður þegar hann er með viðhaldinu. „Þetta snýst ekki um að nýja konan sé miklu yngri, meiri kroppur eða eitthvað svoleiðis heldur hvernig hann verður ástfanginn af sjálfum sér,“ útskýrir hún.

Sveinn bendir á að Matti stígi inn í ákveðið hlutverk, fjölskyldufaðirinn með allar sínar skyldur haldi að hann geti kúplað sig út og orðið 25 ára á ný. „Sem gerist samt ekki því hann getur ekki hlaupið frá sjálfum sér. Hann er enn sami maðurinn þó að komin sé ný kona,“ segir Sveinn.

Konurnar líka breyskar

Blaðamaður nefnir að karlarnir í þáttunum séu ekki mjög sympatískir, að erfitt sé að hafa samúð með þeim og Nanna Kristín spyr á móti hvort honum þyki Karen sympatísk. Nei, við nánari umhugsun er hún það reyndar ekki. „Mér finnst sem leikkonu alltaf gaman að búa til ósympatíska karaktera,“ segir Nanna, „og ég vil einmitt ekki að áhorfendur fái alla samúð með minni persónu því það er svo spennandi. Ég var mjög meðvituð um að skrifa karlmennina ekki sem stereótýpur því það hefur verið gagnrýnt svo mikið að karlkyns höfundar skrifi kvenhlutverk með þeim hætti. Hvort það hefur tekist veit ég ekki en konurnar eru líka breyskar.

Ég reyndi að setja saman pör sem eru ekki dæmigerð. Yfirmaður Matta, sem Halldór Gylfason leikur, á t.d. eldri eiginkonu sem Sigrún Waage leikur en oftast eru karlar með völd látnir vera með sér yngri konum. Sólveig Guðmundsdóttir og Ólafur Steinn Ingunnarson leika annað par, Pálu og Sigga, en Siggi er kannski ekki hinn týpíski karlmaður sem við erum vön að sjá í sjónvarpi eða á sviði, hann er „Siggalingur“,“ segir Nanna Kristín kímin og vísar þar í gælunafn Sigga í þáttunum. Siggi er sjálfstætt starfandi iðnaðarmaður, ólíkt hinum körlunum í vinahópnum sem starfa saman hjá endurskoðunarfyrirtæki. „Mig langaði að sýna gallerí af karlmönnum, þessir menn eru rosalega ólíkir en allir í sama vinahópi, það er líka mjög íslenskt,“ bendir Nanna Kristín á.

Byrjuð á annarri og þriðju

Þáttaröðin Pabbahelgar mun að öllum líkindum verða sýnd í fleiri löndum. Nanna segir sölu- og dreifingarfyrirtæki í Danmörku, REinvent, hafa tekið seríuna að sér og nefnir að Frakkar og Portúgalar hafi m.a. sýnt þáttunum áhuga. „Ég er byrjuð að skrifa seríu tvö og þrjú,“ segir Nanna Kristín. Verður Sveinn í þeim líka? „Það kemur bara í ljós,“ svarar hún og Sveinn hlær að þessu blákalda svari.